21.11.1983
Efri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

84. mál, dómvextir

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 89 er frv. til l. um breyt. á lögum um dómvexti.

Með lögum nr. 56/1979 voru settar reglur um dómvexti. Samkv. þeim skyldu vextir í dómsmáli ákveðnir að kröfu aðila fyrir tímabilið frá stefnubirtingardegi til greiðsludags jafnháir hæstu innlánsvöxtum við innlánsstofnanir, eins og þeir eru lögum samkvæmt, og tekið hið fyllsta tillit til varðveislu á verðgildi fjármagns. Lög þessi hafa reynst erfið í framkvæmd og þótt þau án efa bættu hag kröfuhafa í dómsmálum risu upp mörg vafamál og framkvæmd þeirra varð ekki örugg.

Á það skal bent, að á tímabilinu 1. nóv. 1982 til 20. sept. 1983 taldi Hæstiréttur að réttir dómvextir væru 47% ársvextir. Athugast í þessu sambandi að í grg. með frv. er misprentað „1. okt. 1982“ það á að vera: 1. nóv. 1982.

Eitt var það vandamál sem lög nr. 56/1979 leystu ekki úr. Það var hvort reikna skyldi vaxtavexti af kröfum meðan þær voru í dómsmáli. Það er réttur hvers þegns, og er þá bæði átt við menn og forsvara lögaðila, að reglur um vexti séu ljósar og skiljanlegar hverjum manni. Af þeim sökum er lagt til að lögum nr. 56/1979 verði breytt verulega, ákvæði þeirra verði gerð skýrari og ákveðnari og ættu að vera hverjum manni skiljanleg. Vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands eru hafðar til hliðsjónar. Þá er lagt til að fastar reglur verði settar um vaxtavexti af kröfum í dómsmálum.

Í frv. er gert ráð fyrir að krefjist aðili þess í stefnu skuli í dómi ákveða vexti frá birtingardegi stefnu til greiðsludags er séu 5% hærri en vextir af almennum sparisjóðsbókum hjá innlánsstofnunum. Þegar frv. þetta var samið voru vextir af almennum sparisjóðsbókum 32% á ári. Dómvextir hefðu því orðið 37% á ári. Þá voru vextir af sparisjóðsbókum með 12 mánaða bindingu 36%. Svokallaðir dráttarvextir voru þá 5% á mánuði, sem svarar til 60% ársvaxta. Síðar hafa vextir lækkað enn. Samkv. tilkynningu Seðlabankans frá 21. nóv. s.l. eru vextir af almennum sparisjóðsbókum 27% á ári. Dómvextir samkv. frv. væru því 32% á ári. Dráttarvextir voru lækkaðir í 4% á mánuði eða sem svarar til 48% vaxta á ári. Þarf að athuga í nefnd hvort þetta kalli á breytingu á dómvaxtahæð, t.d. með því að lækka viðbótina í 4% við hina almennu sparisjóðsvexti.

Þá er rétt að benda á þau ákvæði frv. sem gera ráð fyrir að samningsvextir og verðtrygging; þar með talin gengistrygging, falli niður ef dómvaxta er krafist.

Annað meginatriði frv. þessa er að kveða á um að vaxtavextir skuli reiknaðir af dómkröfum. Eru teknar upp reglur Seðlabankans um það efni. Vaxtavextir skulu því aðeins reiknaðir ef tímabil það sem um ræðir sé lengra en 12 mánuðir og aldrei skal reikna vaxtavexti oftar en á 12 mánaða fresti. Ætti með þessu að vera fengin framtíðarlausn á þessu viðkvæma deilumáli.

Í sambandi við þetta er rétt að geta dóms Hæstaréttar frá 7. nóv. s.l. Þar koma fram ýmsar sérstæðar vaxtareglur er vaxtavextir eru dæmdir. Vafasamt er talið að dómur þessi hafi mikið fordæmisgildi af tæknilegum ástæðum.

Að lokum skal þess getið, að ákvæði er til bráðabirgða þar sem segir að ef stefna hafi verið birt fyrir gildistöku laganna og stefnandi þar eigi gert kröfu um dómvexti geti hann komið slíkri kröfu að á síðara stigi málsins.

Hæstv. forseti. Ég óska þess að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.