21.11.1983
Efri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

84. mál, dómvextir

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir að, sem kom fram í máli hæstv. dómsmrh., að nauðsynlegt er að taka af öll tvímæli um það sem hér er um að ræða. Það er staðreynd að ríkt hefur óvissa á sviði greiðslna dómvaxta undanfarin ár.

Hins vegar þykir mér sú prósenta sem hér er vafasöm þ.e. gert er ráð fyrir að greiða 5% hærri dómvexti en innlánsvexti. Raunar vék hæstv. ráðh. að því að hugsanlega þyrfti að lækka þessa prósentu. Ég held fyrir mitt leyti að það væri e.t.v. hyggilegra að miða þarna við ákveðið hlutfall af innlánsvöxtum, þ.e. að dómvextir yrðu hærri en næmi ákveðnu skýru hlutfalli af innlánsvöxtum. Við megum ekki gleyma því, að það hafa verið gerðar heitstrengingar og lagðar línur um hversu verðbólgan færi langt niður. Við getum hugsað okkur og við skulum vona að sú tíð komi að eðlilegir vextir verði 12–15%. Með tilliti til þessa frv. yrðu dómvextir þá hærri sem næmi æðiháu hlutfalli af þá gildandi innlánsvöxtum.

Ég vildi koma þessu að til umhugsunar fyrir viðkomandi nefnd.