21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég undrast nokkuð ræðu hv. 3. þm. Reykv. sem nú lauk máli sínu. Það er ljóst að orðalag 1. gr. breytir í engu því, að Seðlabankinn leggur þessa fjármuni fram, reyndar aðeins hluta þeirra, sem myndar inneign hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Afgangurinn er síðan bundinn í gjaldeyrisvarasjóðnum. Seðlabankinn fer með þessi mál í umboði ríkisstj. samkv. 20. gr. Seðlabankalaganna.

Það sem er kannske enn merkilegra er það, að ákvarðanir um þetta mál voru teknar í mars s.l. þegar hv. 3. þm. Reykv. sat í ríkisstj. Og ég kannast ekki við að hafa heyrt að hann hafi gert aths. við málið á þeim tíma. Jafnframt situr hv. 3. þm. Reykv. í hv. fjh.- og viðskn. Nd. og hér hefur komið fram að afgreiðsla málsins var með þeim hætti að öll n., þar með talinn hv. 3. þm. Reykv., afgreiddi málið, mælti með að lagafrv. yrði samþykkt og gerði engan fyrirvara í málinu. Svo kemur hann nú hér í dag og lýsir því yfir að það komi til greina að hann ljái málinu ekki atkvæði sitt. Þetta eru undarleg vinnubrögð. Hv. þm. gerir því síðan skóna að þessir peningar séu fengnir úr byggingarsjóði Seðlabankans. Hann kannast áreiðanlega við það frá þeirri tíð þegar hann var viðskrh., að hafa hleypt því máli af stað og hans flokkur. Það undrar mig satt að segja að hv. 3. þm. Reykv. skuli koma hér upp og haga þannig sínum málflutningi. Hann hafði tíma og tækifæri til þess í n. að kanna þetta mál og gerði engan fyrirvara. En það kunna að vera einhverjar skýringar á þessu. Kannske er það innanflokksmál Alþb., alla vega er það dálítið furðulegt að hv. 3. þm. Reykv. skuli koma eftir þessa helgi í svo vondu skapi hingað á þingfund.