21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eftir þessa umr. liggur það fyrir að Jóhannes Nordal bankastjóri Seðlabankans hefur skrifað hæstv. fjmrh. Albert Guðmundssyni tvö bréf og sagt honum það að hann þurfi ekkert að borga. Hæstv. fjmrh. segir það hér í votta viðurvist fyrir alþjóð að hann trúi þessu og sé þar af leiðandi alveg sannfærður um að hann þurfi ekkert að borga og ríkissjóður þurfi aldrei að inna af hendi eina einustu krónu á móti þessari hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Ég held að það þurfi að athuga málið aðeins betur áður en menn festa trúnað á slíkt, vegna þess að auðvitað eru á bak við þetta ákvarðanir sem venjulega hafa verið teknar í ríkisstj. og hafa birst í fjárlagafrv. Í fjárlagafrv. ríkisstj. fyrir árið 1984 er gert ráð fyrir ákveðnum hlutaframlögum Íslands hjá ýmsum alþjóðastofnunum. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort hæstv. ráðh. beita sér fyrir því að fjvn. hækki eða lækki þá tölu sem er inni í fjárlagafrv. varðandi hlutaframlög Íslands í ákveðnum alþjóðastofnunum — og einnig hlutaframlög ríkisins t.d. að því er varðar Útvegsbankann, eins og ég gat um hér áðan, en þetta er allt á einum og sama stað, sett upp með mjög grautarlegum hætti reyndar, í fjárlagafrv. Ég vildi nú fara fram á það svona innan sviga við hæstv. fjmrh. að hann beitti sér fyrir því að þessir hlutir yrðu skýrari í fjárlagafrv. framvegis en þeir hafa verið á undanförnum árum. Það hefur ekkert versnað í hans tíð, þetta hefur yfirleitt verið óljóst og þyrfti að vera skýrara. En það sem hæstv. fjmrh. las hér upp úr bréfi Jóhannesar Nordals var þetta, að þessir fjármunir eru færðir af öðrum reikningum seðlabankans erlendis, orðrétt, fært af öðrum reikningum bankans erlendis.

Ég spyr, og ég óska eftir því að svörin liggi fyrir áður en 3. umr. fer hér fram í deildinni: Hvaða reikningar eru það sem Seðlabankinn getur gengið í erlendis og notað í þessu skyni? Hvernig eru þeir fjármunir til komnir? Hvar eru þeir reikningar Seðlabankans geymdir sem Seðlabankinn notar í þessu skyni, til að bjarga svona uppáfallandi vandamálum í núv. hæstv. ríkisstj., eins konar Bjargráðasjóður Seðlabankans, pólitískur bjargráðasjóður, sem hann grípur til þegar ráðh. ber upp á sker? Hvar er þessi bjargráðasjóður Jóhannesar Nordals sem hann hefur erlendis til þess að hlaupa í þegar mikið liggur við að bjarga vandamálunum á stjórnarheimilinu?

Það liggur sem sagt fyrir að Seðlabankinn fullyrðir að það þurfi aldrei að greiða krónu af þessu. Hæstv. fjmrh. trúir því og seðlabankinn segir að þetta sé fært af öðrum reikningum bankans erlendis. Ég spyr hæstv. viðskrh. og óska eftir svari í 3. umr. þessa máls: Hvar eru þessir reikningar Seðlabankans erlendis? Hvar er sá bjargráðasjóður sem Jóhannes Nordal ætlar að grípa til, til þess að telja hæstv. fjmrh. trú um að það sé allt í lagi að afgreiða málið eins og það liggur hér fyrir?