21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég get ekki fellt mig við þessi vinnubrögð. Ég bar fram ákveðna fsp. til hæstv. viðskrh. áðan. Það hefur verið venja ráðh. að verða við slíkum óskum þm. og það hefur verið venja forseta að sjá til þess að þm. fengju greitt úr slíkum spurningum. Ég tel þess vegna algerlega óeðlilegt að fara að drífa málið á dagskrá nú þegar. Það getur ekki greitt fyrir góðu samstarfi um þinghaldið að þræla málum í gegn með slíkum hætti. Ég mótmæli þessu harðlega. Ég tel að hérna sé um óeðlileg vinnubrögð að ræða, sem séu í ósamræmi við það sem tíðkast hefur í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu á undanförnum þingum. Og það er sérkennilegt ef hæstv. viðskrh. ætlar að fara að þræla þessu máli áfram með þessum hætti þegar þess er gætt að nál. í þessu máli hefur lengi legið fyrir og það var vel hægt að ræða málið á síðasta fundi deildarinnar eða næstsíðasta. Það var ekki gert vegna þess að hæstv. ráðh. voru að kvelja bréf út úr Seðlabankanum til að geta komið málinu í gegn hér í þinginu. Svo þegar þeir eru búnir að nudda þessum bréfum út úr Seðlabankanum — tveimur frekar en einu — vilja þeir þræla hér í gegn tveimur umr. með afbrigðum á sama degi. Ég mun ekki greiða atkv. með afbrigðum um þetta, heldur á móti. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og ég mótmæli því að hæstv. viðskrh. skuli láta sér detta í hug að koma fram við stjórnarandstöðuna með þessum hætti.