21.11.1983
Neðri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal taka tillit til orða hæstv, forseta, þó að mér finnist þetta mál ekki síður alvarlegt en ýmis þau mál sem hér er eytt æðilöngum tíma í, sbr. það sem hér gerðist á undan þessu.

Nóg um það. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann gaf hér, þó að ég harmi að það skuli ekki vera hægt að verða við þeim að ég tel eðlilegu óskum sem þarna hafa komið fram. Hann undirstrikaði að það væri rétt, sem sjómenn vestra halda fram, að það eru svæði í Djúpinu sem að seiðamagni til eru undir þeim mörkum sem leyfð eru, en af einhverjum ástæðum — eðlilegum skulum við kannske segja — telja fiskifræðingar að svæðaskipting sé ekki framkvæmanleg.

Ég tel hins vegar að það hafi þó gerst í Ísafjarðardjúpi nokkuð oft áður að svæðum hefur verið lokað, en leyft að veiða á öðrum. Ekki skal ég þó deila um það. Ég hef ekki sérfræðihliðina í málinu og skal ekki fullyrða neitt, en ég hygg að þetta hafi verið gert.

Ég bið menn að taka þetta á engan hátt á þann veg að hér sé verið að mæla með að veiða á svæðum sem mikið seiðamagn er fyrir á. Ég hygg að mönnum detti það ekki í hug. Ástæðan fyrir öskum sjómanna vestra er sú, að það eru þarna svæði sem er hægt að veiða á.

Ég fagna því þó, að hæstv. ráðh. gaf þá yfirlýsingu hér að það yrði kannað í Djúpinu í byrjun næstu viku. Ég fagna því, að það skuli þó verða fylgst með hvort þarna eiga sér stað breytingar sem hugsanlega — og vonandi segi ég — verða í þá átt að þarna verði hægt að leyfa einhverja veiði áður en langt um líður.

Sjútvrh. sagði hér að þetta hefði verið gert á svipaðan hátt 1978. Um það skal ég ekki deila, ég hef ekki um það alveg upplýsingar, en mig minnir þó, að þegar ákveðin var lokun alls Djúpsins fyrir rækjuveiðum þá hafi þáv. hæstv. sjútvrh., sem var Matthías Bjarnason, beitt sér fyrir því að það yrði þó létt undir með þeim einstaklingum sem þarna áttu hlut að máli, þ.e. eigendum rækjubáta sem búnir voru að leggja í mikinn kostnað við undirbúning. Aflatryggingasjóður létti að einhverju leyti undir með þeim þá. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh. hvort hann hafi í hyggju að beita sér fyrir einhverjum slíkum aðgerðum, ef það verður svo, sem ég vona að ekki þurfi til að koma, að Djúpið verði lokað alveg fram yfir áramót. Ég teldi það mikils virði fyrir þá menn, sem eru búnir að leggja í mikinn kostnað á þeirra mælikvarða, ef þeir mættu a.m.k. vænta velvildar hæstv. sjútvrh. og stjórnvalda hvað það varðar að létta þeim eitthvað byrðarnar. Einnig á það við aðra sem þarna eiga hlut að máli. Þá á ég kannske sérstaklega við þá sjómenn sem þarna voru búnir að ráða sig til starfa.

Ég ítreka þakkir til hæstv. ráðh., en harma að svör hans benda til þess, a.m.k. enn sem komið er, að Djúpið verði lokað algjörlega fyrir rækjuveiðum þangað til leiðangur úr rannsókn gefur annað til kynna.