22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

80. mál, kostnaður af kynningu á efnahagsaðgerðum Sjálfsæðisflokks og Framsóknarflokks

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Í haust lagðist hæstv. forsrh. í ferðalög til þess að útlista fyrir launafólki þann árangur af efnahagsaðgerðum Sjálfstfl. og Framsfl. sem Morgunblaðið kallaði í leiðara á dögunum talnaleik og sjálfsblekkingu. Þrátt fyrir að hæstv. fjmrh. sýndi þeim, sem á hans náðir leituðu fyrir félagssamtök og aðra hópa landsmanna. ofan í tómar skúffur þar sem alls engir peningar fundust, er ekki annað vitað en þessi áróðursferðalög hæstv. forsrh. hafi verið greidd úr galtómum ríkissjóð og bætist við þann halla sem á honum verður í ár. Sama er að segja um kostnað af áróðursbæklingi, sem ríkisstj.-flokkarnir sendu inn á hvert heimili í landinu.

Stjórnarandstöðuflokkarnir, sem reyndu að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við almenning. kostuðu á hinn bóginn sjálfir ferðalög og húsnæði vegna þeirra fundahalda sem þeir efndu til í því skyni að stjórnarflokkarnir væru ekki einir um að fjalla um efnahagsaðgerðir sem jafnvel Morgunblaðið hefur nú léttvægar fundið sem lausn á efnahagsvandanum, svo harkalega sem þær bitna þó á launafólki í landinu. Það ætti að vera nóg á almenning lagt í þeim efnum þó að ekki bættust þar á ofan útgjöld til þess að kosta áróðursferðir þeirra sem stormað hafa um landið til að réttlæta kauprán og réttindasviptingu. Lágmark er a.m.k. að það sé upplýst hverju hefur verið kostað til af almannafé. Þess vegna hef ég lagt fram á þskj. 85 fsp. til hæstv. forsrh. um kostnað ríkissjóðs af kynningu á efnahagsaðgerðum Sjálfstfl. og Framsfl. Þær eru svohljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hver er kostnaður ríkissjóðs af fundahöldum forsrh. til kynningar á efnahagsaðgerðum Sjálfstfl. og Framsfl. a) vegna ferðalaga, b) vegna húsaleigu, e) vegna annarra útgjalda, þ.m.t. auglýsinga?

2. Hver er kostnaður ríkissjóðs vegna ritlings sem sendur hefur verið inn á hvert heimili í landinu til kynningar á efnahagsaðgerðum Sjálfstfl. og Framsfl. a) vegna hönnunar, b) vegna prentunar, c) vegna annarra útgjalda, þ.m.t. sendingarkostnaðar?