22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

80. mál, kostnaður af kynningu á efnahagsaðgerðum Sjálfsæðisflokks og Framsóknarflokks

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg um þennan bækling sem hér var nefndur. Mér finnst Upplýsingarit heldur einkennilegt heiti á slagorðabæklingi af þessu tagi. Bæklingurinn var framleiddur á auglýsingastofu og ber þess merki að umbúðirnar skipti meira máli en innihaldið. Þetta er slagorðabæklingur og engin tilraun gerð til þess að útskýra eða rökstyðja. Ég get nú ekki stillt mig um að fara hérna með eina laglega vísu, með leyfi forseta:

Allt er mælt á eina vog

í því svarta skýi.

Helmingurinn öfgar og

afgangurinn lygi.

Þetta kvað Jón Þorsteinsson skáldbóndi á Arnarvatni um pólitík og þó að þetta sé kannske ekki sönn lýsing á þessum slagorðabæklingi, þá kom mér þessi vísa í hug þegar ég sá hann. Þetta er ekki málefnalegt plagg og ekki nokkur ástæða til að ríkissjóður greiði þetta. Stjórnarflokkarnir geta greitt sinn áróður sjálfir og mér finnst sjálfsagt að senda þeim reikninginn. Ég bendi hæstv. fjmrh. á það, eða þá að draga þetta frá styrkjum til þingflokkanna. Ég vona að hann taki þetta til athugunar. En ef ríkisstj. kýs að láta skattborgarana greiða þetta, þá finnst mér fyllilega spurning hvort stjórnarandstaðan á ekki rétt á sams konar upplýsingabæklingi um sína hlið málanna útgefnum á kostnað ríkisins.