22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

94. mál, samstarfsnefnd um iðnráðgjöf

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Mig langar aðeins til að koma inn í þessa umr.

Það er mikið rætt um iðnað í þessu þjóðfélagi og nauðsyn þess að efla hann, sérstaklega smáiðnaðinn og þá einkum úti á landi. Ég hygg að þessi aðgerð, að efna til starfs iðnráðgjafa og kosta þá starfsemi úr ríkissjóði, sé það raunhæfasta sem hefur verið gert í því að færa þá umræðu til raunverulegra athafna. Þess vegna held ég að það sé mikils um vert ef verði staðið vel og dyggilega að baki þeim tilgangi sem lögin um iðnráðgjafa gera raunverulega ráð fyrir.

Ég vil taka undir það, sem kom hérna fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni, að í hugum margra okkar eru töluverðar efasemdir um störf samstarfsnefndar um iðnráðgjöf í landshlutunum. Hún starfar aðallega hér syðra að þessu samræmingarverkefni. Við höfum efasemdir um þá starfsemi og teljum að hún geti orðið til að draga úr þeirri grasrótarstarfsemi sem raunverulega þarf að fara fram úti í kjördæmunum sjálfum eða úti í héruðunum sjálfum, sem ég held að hljóti að vera undirstaðan að þessu leyti.

Ég vil líka taka undir það, sem hér hefur komið fram um það, að nauðsynlegt er að þessi starfsemi geti farið fram í öllum kjördæmum, en svo er ekki eins og háttar í dag.

Ég held að líka þurfi að gæta þess, sem hefur komið upp á núna á hverju hausti, að fjórðungssamböndin, sem standa undir þessari starfsemi að hluta til á móti ríkinu, hafa staðið frammi fyrir því að það fjármagn sem hefur verið ætlað til að greiða laun iðnráðgjafa hefur þrotið. Ég held að fjvn. þurfi að taka til athugunar að þessi liður, starfsemi iðnráðgjafanna, sé inni á launalið fjárlaganna og hækki samkvæmt breytingum á launum eins og önnur laun hjá því opinbera, en það þurfi ekki alltaf að grípa til einhverra neyðarráðstafana þegar kemur fram á haustið. Ég held að það sé atriði sem þarf að gæta vel að.

En aðalatriðið er að samstarfsnefndin taki ekki fjármagn frá því starfi sem þarf að fara fram og nauðsynlegt er að fari fram úti í landshlutunum.