22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

399. mál, verðlagseftirlit með þjónustugjöldum bankanna

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. hefur á þskj. 85 beint þeim fsp. til mín sem þm. hefur gert hér grein fyrir.

Fyrri liðurinn hljóðar svo: „Hvernig er háttað verðlagseftirliti með þjónustugjöldum bankanna?“ Þessu eftirliti er á þann veg háttað, að samkvæmt 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands ákveður Seðlabanki hámark þóknana, sem eru ígildi vaxta og innlánsstofnanir áskilja sér. Seðlabankinn hefur skilið þetta ákvæði svo. að um sé að ræða þau þjónustugjöld sem ákveðin eru hlutfallslega. — Jafnframt segir í 11. gr. laga nr. 63/ 1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, að gjaldskrá bankanna um þóknanir fyrir gjaldeyrisviðskipti skuli samin og útgefin af Seðlabankanum í samráði við gjaldeyrisviðskiptabankana og birt í Lögbirtingablaðinu. Verðlagning á öðrum þjónustugjöldum, þ.e. gjöldum sem ákveðin eru sem föst krónutala og tekin í innlendum viðskiptum, er því frjáls. Verðlagningu þessara síðast töldu gjalda er á þann veg háttað nú, að gjöldin eru ákveðin af Sambandi ísl. viðskiptabanka og Sambandi ísl. sparisjóða að höfðu samráði við Seðlabankann.

Í síðari lið fyrirspurnarinnar er spurst fyrir um hvort fyrirhugaðar séu breytingar á verðlagseftirliti með þjónustugjöldum bankanna. Áður en þessu er svarað beint er rétt að víkja að þróun þjónustugjalda undanfarin ár.

Grundvelli gjaldskráa fyrir innlánsstofnanir var breytt árið 1977. Var þá ákveðið að byggja á tvenns konar þjónustugjöldum. Annars vegar gjöldum sem væru hlutfallslega ákveðin og hins vegar gjöldum sem ákveðin væru sem föst krónutala. Fyrrnefndu gjöldin hækkuðu lítið sem ekkert fram í maímánuð á þessu ári, en flest hin síðast nefndu breyttust í samræmi við breytingar á almennum póstburðargjöldum pósts og síma.

Í maímánuði s.l. fór fram endurskoðun á gjaldskrám innlánsstofnana og hækkuðu þá ýmis þjónustugjöld og einnig voru tekin upp.ný. Hækkanir á ýmsum liðum sem eru ákveðnir sem föst krónutala vöktu sérstaka athygli, svo og ný gjöld sem ákveðin eru á þennan hátt. Til grundvallar þessum hækkunum voru lagðir útreikningar Sambands viðskiptabankanna og Sambands sparisjóða um kostnað við einstakar afgreiðslur sem þóknun er tekin fyrir eða áætlun um kostnað ef um ný gjöld var að ræða. Þrátt fyrir gagnrýni á þessar hækkanir er eftirtektarvert að á árinu 1977 var hlutfall þjónustugjalda að viðbættu vaxtabili milli inn- og útlána hjá innlánsstofnunum um það bil 18%, en var í lok árs 1982 komið niður í 10.5%. Það sýnir að tekjur innlánsstofnana af þjónustugjöldum hafa rýrnað töluvert hlutfallslega á undanförnum árum. Til að vega upp á móti þeirri rýrnun hefði þurft að auka vaxtabil milli inn- og útlánsvaxta. Sú leið getur hins vegar ekki talist sanngjörn. Kostnaðinum við að veita bankaþjónustu væri þá meira velt yfir á þá sem ekki njóta hennar. Með þeim hækkunum sem ákveðnar voru í maí var stefnt að því að greitt væri fyrir þá þjónustu sem innlánsstofnanirnar veita, þannig að kostnaðurinn sem þeirri þjónustu er samfara greiðist af þeim sem hennar njóta, en honum sé ekki velt á aðra sparifjáreigendur eða lántakendur. Þetta tel ég rétt að komi fram vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um þjónustugjöld innlánsstofnana.

En svo að ég svari fsp., þá eru ekki fyrirhugaðar breytingar af hálfu rn. að því er varðar eftirlit með þjónustugjöldum sem Seðlabankinn ákveður. Hið sama er að segja um önnur þjónustugjöld. Hins vegar eðli máls og lögum samkvæmt á Verðlagsráð, sem fer með framkvæmd laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, að kanna vandlega hvort samráð viðskiptabankanna um hækkanir á þeim þjónustugjöldum þar sem verðlagning er frjáls brjóti gegn ýmsum ákvæðum í IV. kafla þessara laga, sem fjallar um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur. Þessi ágæti og mikilvægi kafli laganna hefur lítið komist í framkvæmd vegna víðtækra verðlagsafskipta stjórnvalda. Þar sem verðlagning er frjáls stuðla ákvæði hans hins vegar að heilbrigðri samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur.