22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

400. mál, bankaútibú

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Mér hefur ekki gefist tóm til að leggja þessar upphæðir saman og mér kæmi ekki á óvart að þetta sé nálægt 50–60 millj. kr. Auðvitað væri þessum fjármunum betur varið til íbúðakaupenda heldur en að þenja út bankakerfið. Og það er furðulegt líka að Iðnaðarbankinn skuli ekki telja sér skylt að gefa löggjafarsamkomu þjóðarinnar upplýsingar um þennan stofnkostnað bankanna. Ég vil bara ítreka það við ráðh. að hann leiti eftir því að alþm. fái þessar upplýsingar.

Það er ekki að ástæðulausu að útþenslan í bankakerfinu hefur verið til umr. hér á Alþingi í vetur, því að útþenslan er orðin alveg gífurleg. Ég spurði ráðh. hér áðan varðandi Samvinnubankann hvort honum væri kunnugt um eiginfjárstöðu bankans. En hann kom ekkert inn á það í máli sínu. Ráðh. hefur sagt að hann telji ekki rétt að skammta útibú en hann hefur talað um að gera þurfi ákveðna kröfu um eiginfjárstöðu bankanna.

En þegar svo er komið að nokkrir viðskiptabankar og sparisjóðir hafa allt sitt eigið fé bundið í fasteignum og hafa auk þess gengið á innlánsfé sparifjáreigenda til að fjármagna fasteignamyndun sína, þá tel ég að málin séu komin á svo alvarlegt stig að viðskrh. beri skylda til að grípa í taumana nú þegar og stöðva þessa útþenslu.

Í skýrslu um efnahag og rekstur bankanna fyrir árið 1982, sem útgefin er af Seðlabankanum, kemur fram að eigið fé Samvinnubankans að frádregnum fasteignum og áhöldum, sem ég spurði ráðh. um hér áðan, var ekkert í árslok 1982, var á núlli. Og það sem meira er — bankinn hefur fjárfest töluvert umfram eiginfjárstöðu. Eiginfjárstaða bankans var í árslok 1982 um 57 millj. kr. en varanleg rekstrarfjármyndun var rúmar 76 millj. kr. Varanleg fjármunamyndun var því 33% umfram eigið fé. Ef einungis eru teknar fasteignir en sleppt áhöldum og húsbúnaði kemur fram að 18% af fjárfestingum í fasteignum bankans virðast fengin af innlánsfé bankans eða um 12.5 millj. kr. auk þess sem allt eigið fé bankans er bundið í fjármunamyndun. Þessi banki fékk engu að síður leyfi til að byggja nýtt útibú á þessu ári. Það leyfi var veitt á síðustu dögum fyrrv. ríkisstj. Þar sem starfsemi þessa útibús Samvinnubankans er enn ekki hafin eða nokkrar framkvæmdir og eiginfjárstaða bankans er með þeim hætti sem ég hef hér lýst, þá ber hæstv. viðskrh. skilyrðislaus skylda til að stöðva þessa framkvæmd og ef nauðsyn krefur, þá með lögum.

Í þessu yfirliti um efnahag og rekstur bankanna frá 1982 kemur hið sama fram að því er varðar Verslunarbankann og Alþýðubankann, að eiginfjárstaða þeirra var á núlli í árslok 1982, þegar frá hafa verið dregnir varanlegir rekstrarfjármunir. Þeir virðast einnig hafa gengið á innlánsfé bankanna til að fjármagna sínar fasteignir.

Hjá Verslunarbankanum er allt eigið fé bankans, 47 millj. 856 þús., og meira til bundið í varanlegum rekstrarfjármunum eða tæpar 60 millj. kr., þar af í fasteignum 55 millj. 264 þús. kr. Hjá Alþýðubankanum er eigið fé bankans, 12 millj. rúmar, bundið í fasteignum og að auki tæpar 9 millj. kr. eða samtals 21 millj. 340 þús. kr. bundið í fasteignum. Í þessari skýrslu kemur fram að Iðnaðarbankinn stendur einnig tæpt varðandi eiginfjárstöðu þó ekki færi fjármunamyndun fram úr eigin fé bankans, en eigið fé bankans að frádregnum fasteignum og áhöldum sem prósenta af niðurstöðutölum efnahagsreiknings er 0.6%. Einnig er ljóst af þessari skýrslu að eiginfjárstaða nokkurra sparisjóða er mjög slæm, þó ekki skuli það rakið hér nánar.

Hæstv. viðskrh. lýsti því yfir í Frjálsri verslun nýlega að honum fyndist skömmtun útibúa ótæk, en jafnframt lýsti hann yfir hér á Alþingi í s.l. viku að gera verði kröfu um ákveðna eiginfjárstöðu bankanna og hversu hátt hlutfall af eigin fé viðkomandi stofnunar sé heimilt að hafa í fjárfestingu. Ég taldi því nauðsynlegt að vísa í þessa skýrslu hér því að í ljósi þess sem ég hef hér lýst, þá er málið orðið svo alvarlegt og brýnt að taka á, útþensla bankakerfisins miklu meiri en nokkurn tíma er stætt á, svo að viðskrh. ber skilyrðislaust að taka í taumana.

Ég vil líka ítreka að hafi bankarnir fjármagn til að þenja út bankakerfið, þá er þeim vorkunnarlaust að lána meira en 10% af sínu útlánafé til húsbyggjenda og íbúðakaupenda í stað þess að ausa í fjárfestingar í bankakerfinu sem engin þörf er fyrir. Við getum líka skoðað þetta í öðru ljósi. Starfsfólki í bönkum hefur fjölgað um 60% á rúmum áratug samkv. því sem fram kom nýlega. Samanburður var tekinn við mannaflann sem vann við frumframleiðslugreinar í þjóðfélaginu. Á árinu 1970 voru 18.5% mannaflans starfandi við frumframleiðslugreinar þjóðfélagsins en sú tala var komin niður í 12.1% á árinu 1980. Á sama tíma þenjast út þjónustugreinar eins og bankakerfið. Ég held að við verðum að taka okkur taki í þessum fjárfestingarmálum ef von á að vera til að hægt sé að koma einhverri skikkan á efnahagsmálin. Aðhald í fjárfestingu í bankakerfinu er liður í því. Reynir þar ekki síst á bankamálaráðherra að taka málin föstum tökum á þeim vettvangi.

Ég vil hér í lokin vitna til þess sem kom fram í Tímanum 18. okt. hjá Þórði Ólafssyni. Hann segir — (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, forseti.

„M.a. hefur borið á því að bankar hafa fest kaup á eignum eða hafið byggingu á fyrirhuguðu útibúi án þess að hafa leyfi til að hefja þar starfrækslu, í trausti þess að leyfi muni fást þegar þar að komi.“

Það liggja fyrir beiðnir um 32 ný bankaútibú til viðbótar þessum 11. Ég spyr ráðh.: Hafa einhverjir bankar hafið byggingar eða framkvæmdir vegna þessara 32 nýju útibúa sem beiðnir liggja fyrir um?