22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

400. mál, bankaútibú

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Bankamál hafa mjög verið til umr. hér á þinginu það sem af er og það er eðlilegt, bæði gjaldtaka bankanna og fjárfesting þeirra. En ég held að það sé nauðsynlegt að við stöldrum aðeins við í þessari umr. og menn velti því fyrir sér hvernig á því stendur að hlutirnir eru með þeim hætti sem við sjáum m.a. í þeim tölum sem hæstv. viðskrh. hefur rakið hér.

Ég held að menn verði að átta sig á því hér á þessum stað — og reyndar hvergi frekar en á þessum stað, að löggjöf um málefni bankanna í þessu landi er ákaflega ófullkomin. M.a. eru engin heildarlög til um svokallaða innri endurskoðun og starfsemi bankanna. Það eru til sérlög um hvern banka fyrir sig, en það eru engin lög til um þær reglur sem fylgja á við uppgjör og reikningsfærslu að því er varðar bankana alla í sameiningu. Það eru engin heildarlög til um eiginfjárstöðu bankanna. Það eru engin heildarlög til um þessa þætti. Á undanförnum árum hafa þó verið gerðar margar tilraunir til að koma á löggjöf í þessum efnum. M.a. var fullbúið í minni tíð í viðskrn. frv. um starfsemi ríkisbankanna sem gerði m.a. ráð fyrir því að tveir þeirra yrðu sameinaðir. Það mál strandaði á því að Alþingi var ekki reiðubúið til að fallast á sameiningu þeirra tveggja banka sem þar var um að ræða, Útvegsbankans og Búnaðarbankans. Ég held að hérna sé í rauninni um eitt brýnasta málið að ræða, sem Alþingi getur yfir höfuð tekið á, þ.e. að semja frv. að heildarlöggjöf um hvers konar starfsemi bankanna. Þar á ég bæði við fjárfestingu bankanna, rekstur þeirra og stjórn. Ég held að þetta mál sé svo brýnt að það megi ekki láta það stranda á ágreiningsatriðum um mál eins og hugsanlega sameiningu tveggja banka. Ég held að það verði að taka út úr þau tæknilegu atriði sem allir ættu að geta verið sammála um og reyna að sigla málinu þannig í gegnum þingið, því að það er auðvitað ólíðandi með öllu fyrir Atþingi að starfsemi bankanna haldi áfram án þess að þar hafi verið settar skýrar lagareglur. Nú er mér kunnugt um að núv. hæstv. viðskrh. hefur framlengt líf nefndar sem skipuð var að ég held á síðasta kjörtímabili um málefni bankanna. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. viðskrh. hvenær hann geri ráð fyrir því að þessi nefnd, sem endurskoðar starfsemi bankanna, ljúki störfum og láta það koma fram sem mína afstöðu í málinu að ég tel að þetta væri eitt af brýnustu verkefnum þingsins að fjalla um, að fá slíka heildarlöggjöf um bankana. Og ég þykist viss um að almennt væru alþm. reiðubúnir til að taka myndarlega á strax og frv. lægi fyrir um þetta efni.

Það er annars margt athyglisvert í þessu, m.a. það að 1ðnaðarbankinn telur sig ekki þurfa að láta í té upplýsingar um þessi efni. Ég vil benda á það að auðvitað er til sá möguleiki að bera fram skriflega fsp. til hæstv. iðnrh. um þessi mál, en málefni Iðnaðarbankans heyra undir hann.

Að lokum vil ég fara fram á það við hæstv. viðskrh. að þær upplýsingar um stofn- og rekstrarkostnað bankanna, sem hér voru lesnar áðan, verði birtar og þeim verði dreift hér á borð alþm.