18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þeim sem fylgst hafa með framvindu þjóðmála undanfarna mánuði og hlustuðu á stefnuræðu forsrh. hér í kvöld er það væntanlega ljósara en áður að mikil og slæm umskipti hafa orðið í stjórnmálum á Íslandi. Strax á síðasta vetri voru skýr teikn á lofti um það að hægri öflin ætluðu sér að ná saman um ríkisstj. að kosningum loknum og segja verkalýðshreyfingunni og öðrum vinnustéttum í landinu stríð á hendur.

Alþb. varaði þá eindregið við þeirri hættu sem samstjórn þessara flokka hefði í för með sér, en þeir voru allt of fáir sem tóku þá aðvörun alvarlega þegar í kjörklefann kom. Umskiptin í þjóðmálum við stjórnarskiptin urðu hins vegar meiri en nokkurn óraði fyrir, einnig stuðningsmenn þeirra flokka sem nú standa að ríkisstj. Þessi umskipti birtast ekki aðeins í afnámi samningsréttar og herför gegn lífskjörum almennings, sem hver og einn launamaður finnur á eigin pyngju. Þau koma ekki síður fram í því hvernig byrðunum er skipt á þegnana. Herjir eru það sem nú eru látnir axla þyngstu byrðarnar og hverjum er sleppt? Jú, byrðarnar eru lagðar á þá sem síst skyldi, þ.e. láglaunafólk, ellilífeyrisþega og öryrkja. Á sama tíma er varla hreyft við þeim sem nóg hafa fyrir sig að leggja og skammta sér sjálfir sinn hlut. Það er sannarlega ráðgáta hvernig tekjulægsta fólkið á að ná endum saman nú, hvað þá þegar nálgast áramót, því að kjaraskerðingin fer vaxandi.

Ég hef aðgang að heimilisreikningi ungrar einstæðrar móður með tvö börn á framfæri. Tekjur hennar á mánuði eru alls 15 500 kr. og útgjöldin fyrir brýnustu nauðsynjum eru 13 500. Eftir eru þá aðeins um 2 000 kr., sem hún hefur til ráðstöfunar, m.a. til að kaupa föt á börnin og sjálfa sig. Inni í heimilisreikningi þessarar konu er ekki rekstur á bíl, ekki einu sinni á sparneytnum bíl, né heldur neitt annað það sem núv. ríkisstj. er búin að dæma sem bruðl hjá almenningi, miðað við þær tekjur sem fólki eru skammtaðar. Hæstv. forsrh., sem sagði nýverið á fundi að hann tæki sjálfur á sig ábyrgðina á aðgerðum ríkisstj. í kjaramálum, þykir þetta dæmi e.t.v. ótrúlegt. En hann gæti vissulega fengið nafn þessarar konu, og auðvitað heimilisfangið, svo og margra fleiri sem svipað er ástatt um. En ansi er ég hrædd um að persónulegt bréf frá hæstv. forsrh. reynist þessu fólki lítil huggun og stæði ekki undir póstburðargjaldinu frá ríkissjóði.

Til viðbótar við lækkandi kaup og skerta samneyslu kemur svo kúvending í fjárfestingar- og atvinnumálum, sem æ betur er að koma í ljós. Þannig er bygging flugstöðvar í Keflavík orðin forgangsverkefni, á kostnað brýnna úrbóta í flugvallarmálum landsbyggðarinnar. Til þessa stórhýsis má taka erlend lán upp á meira en 100 millj. kr. á sama tíma og samtals er aðeins varið um 50 millj. til almennra flugvallarframkvæmda hér á landi. Undirbúningur annarra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli og í Helguvík brunar áfram, enda stendur orðrétt í þjóðhagsáætlun fyrir næsta ár að tekjur af varnarliði muni væntanlega aukast talsvert vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli. Á sama tíma er að því unnið að stækkun álversins í Straumsvík verði forgangsverkefni í iðnaðarmálum.

Nú er við margháttaða erfiðleika að etja í frumvinnslugreinum í landbúnaði og sjávarútvegi, sem eru undirstaða atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum. Þar kreppir að sökum óhagstæðs árferðis og samdráttar í afla. Við þeim aðstæðum þurfti að bregðast m.a. með því að ýta undir vaxtarsprota í þessum greinum með því að auka úrvinnslu afurða, hlúa að fjölþættum iðnaði sem víðast á landinu. Í þeim efnum var búið að undirbúa jarðveginn af fyrrv. ríkisstj., m.a. með starfsemi iðnráðgjafa og stuðningi við iðnþróun úti í landshlutunum. Sjóðir iðnaðarins voru jafnframt stórefldir, t.d. Iðnrekstrarsjóður, sem ætlað er að styðja við innlendan nýiðnað. Það er vissulega táknrænt fyrir stefnu núv. ríkisstj. að framlag til þessa sjóðs og annarra sjóða atvinnuveganna er saxað niður eða þurrkað út samkvæmt fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Á sama tíma er stóriðjunefnd ríkisstj. á þönum eftir erlendum auðhringum til að bjóða orkulindir okkar Íslendinga fatar á útsöluverði, orkulindir sem við Íslendingar eigum að nýta sjálfir og hafa full yfirráð yfir.

Og svo er það samneyslan. Blessaður hjartahlýi forsrh. sagði í ræðu sinni hér í kvöld að í skólastarfi verði lögð áhersla á að auka tengslin við fjölskyldulíf og á samheldni og samveru foreldra og barna. Þessi orð Steingríms Hermannssonar eru í fullu samræmi við splunkunýtt fjárlagafrv. ríkisstj. hans, þar sem allt bendir til að á nokkrum stöðum á landinu verði foreldrar á næstunni að sjá um kennslu barna sinna sjálfir. Má í því sambandi benda á áætlað fjárframlag ríkis til byggingar fjölbrautaskóla á Selfossi, sem jafngildir því að framkvæmdir við hann stöðvist. Og eins horfir með rekstur margra skóla. Með því að draga þannig saman fjárveitingar til menntamála stuðlar hæstv. ríkisstj. vissulega að aukinni samveru fjölskyldunnar. En væntanlega á annan og harðneskjulegri hátt en almenningur kysi.

Sama markmiði virðist ríkisstj. einnig ætla að ná með niðurskurði á fjárveitingu til dagvistarstofnana og stórfelldum samdrætti á sviði heilbrigðis- og tryggingamála. Sparnaður í opinberum rekstri getur átt fullan rétt á sér. En á þessum dæmum má sjá hverjir það eru sem ríkisstj. telur að mestu valdi um verðbólgu og þenslu í landinu. Það eru ekki þeir sem mest hafa fyrir sig að leggja, ekki óráðsían í fjárfestingu og milliliðastarfsemi, heldur almenningur, verkamaðurinn, öryrkinn, einstæðir foreldrar og aldraðir. Aðgerðum ríkisstj. var beint að þessum hópum og öðru láglaunafólki í landinu. Þar eru konur í meiri hluta. Skerðing launa og niðurskurður til félagsmála bitnar harðar á þeim en öðrum og lokar leiðum í jafnréttisbaráttunni.

Herra forseti. Erfiðleikar hafa oft steðjað að í íslensku efnahagslífi. Enga greindi á um það fyrir síðustu kosningar, né heldur að grípa þyrfti til aðgerða gegn verðbólgunni. Alþb. lagði fram sínar tillögur og var reiðubúið að axla ábyrgð og eiga hlut að því að hver og einn tæki nokkuð á sig eftir efnum og ástæðum. Alþb. hvatti til samfylkingar vinstri aflanna í þjóðfélaginu og hafnaði alfarið leiftursókn gegn lífskjörum. Framsfl. gerðist hins vegar umskiptingur eina ferðina enn og tók höndum saman við íhaldið um ómengaða hægri stefnu. Þess vegna búum við í dag við ríkisstj. sem virðir að engu rétt almennings í landinu til frjálsra samninga og mannsæmandi lífs. Verkefnið nú á komandi vetrarmánuðum er að hrinda þessari stjórnarstefnu. Til þess þarf órofa samstöðu manna til sjávar og sveita. Samfylking vinstri manna um lýðræði og jafnrétti í landi okkar má ekki aðeins vera hugsjón, heldur þurfum við að gera hana að veruleika hins daglega lífs. Ég þakka þeim sem hlýddu.