22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

400. mál, bankaútibú

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér virðist hæstv. viðskrh. hafa farið mikið aftur frá því að hann var óbreyttur þm. og þorði að hafa skoðun. Nú virðist það vera breytt. Ég minnist þess a.m.k. að meðan núv. hæstv. viðskrh. var í stjórnarandstöðu undanliðið þing hafði hann skoðun á málum og lét hana í ljós úr ræðustól á Alþingi. Nú eru viðhorf breytt og hæstv. ráðh. kominn í þá aðstöðu að það er best að segja sem minnst, segir hann. Ég tek þó þögn hans á þann veg, að honum sé farið að verða um og ó um þá þróun sem hann var hér sjálfur að lýsa með upptalningu þeirri sem við heyrðum áðan. Ég hygg, og raunar veit það, að hæstv. viðskrh., svo greindur sem hann er, óar við þróun eins og hefur átt sér stað, — ég tala nú ekki um eins og stefnir í ef ekki verður spyrnt við fótum í þessum efnum. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. vaxi kjarkur eftir því sem á líður stjórnarsetuna og að hann geti tekið upp sömu vinnubrögð og hann hafði sem óbreyttur þm. og þori að segja þingheimi og þjóðinni sína skoðun, því hann hefur skoðun á málinu, annað dettur mér ekki í hug að halda.