22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

102. mál, Íslandssögukennsla í skólum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka þann áhuga sem fram kemur í fsp. hv. þm. Svar mitt við spurningu hans er: Nei, öldungis ekki. Ég tel sögukennslu byggða á samfelldri rás atburða Íslandssögunnar mikilsverða undirstöðu sjálfsvitundar okkar sem þjóðar.

Í spurningunni felst að skólarannsóknadeild hafi tekið ákvörðun um þetta efni. Staðreynd er hins vegar sú að ákvörðun var tekin með námsskrá um samfélagsfræði árið 1977 og hún byggðist á nefndaráliti frá 1971. Í námsskránni segir m.a. á bls. 9 þar sem fjallað er um svonefnda samþættingu sögu og landafræði, með leyfi hæstv. forseta:

„Um leið og saga verður grein á meiði samfélagsfræði er brýnt að sjónarhorn hennar verði víkkað og efnismeðferð dýpkuð frá því sem verið hefur. Meginmarkmið hennar verður ekki lengur bundið við það að rekja atburðarás í réttri tímaröð, heldur að lýsa gerð þjóðfélaga á tilteknu tímaskeiði og leita skýringa á félagslegri og menningarlegri þróun þeirra.“

Síðar á sömu bls. þar sem fjallað er um heimildaleit nemenda, segir:

„Til þess gefst hins vegar ekki svigrúm nema vikið verði frá þeirri kröfu að nemendur fái á þessu stigi“ — sem er á síðustu námsárum í grunnskólanum — „eins konar yfirlit yfir helstu atburði sögunnar í heild. Val sögulegra viðfangsefna hlýtur vissulega að orka tvímælis og vera háð ríkjandi hefðum.“

Ég vil taka það fram að þetta atriði er ekki að fullu komið til framkvæmda enda segir svo í grg. deildarstjóra skólarannsóknadeildar menntmrn. sem hann gerði fyrir mig í tilefni af þessari fsp., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil byrja á því að undirstrika að fsp. byggist á misskilningi þar sem aldrei hefur staðið til að hætta „að mestu leyti að kenna Íslandssögu í skólum landsins“. Í þau ár, sem ég hef veitt skólarannsóknadeildinni forstöðu, hef ég aldrei heyrt um þetta talað og ég þekki engan sem ekki vill að Íslandssagan skipi þann sess í námsefni grunnskólans sem henni ber. Það er frekar unnið að því að efla kennslu í Íslandssögu í grunnskólum en að afnema hana.“

Hér lýkur þessari tilvitnun. Og herra forseti, ég legg áherslu á það að þetta efni er vissulega umdeilt eins og sést af þessari tilvitnun í grg. deildarstjórans því að aftur á móti segir í námsskránni frá 1977, sem ekki er komin til framkvæmda, að sinna beri kennslu á tilteknum tímaskeiðum eins og fyrr er frá greint.

Enn fremur segir í grg. deildarstjóra skólarannsóknadeildar:

„Námsefni það, sem kennt var... hefur verið að mestu óbreytt hvað inntak varðar í marga áratugi og í nokkrum tilvikum hefur sama námsefni verið notað lítið breytt frá því á fyrstu áratugum þessarar aldar.“

Og síðar: „Rétt er að benda á að aðeins lítill hluti þess námsefnis, sem áætlað hefur verið í Íslandssögu, er komið út og ekki hefur verið ákveðið nema í grófum dráttum um gerð þess efnis sem eftir er að semja og gefa út. Allar áætlanir um nýtt námsefni eru stöðugt til skoðunar og er lögð mikil áhersla á að fá fram athugasemdir kennara eða annarra sem áhuga kunna að hafa á viðkomandi námsgrein.“

Hér verð ég enn að fella úr, herra forseti, þar eð grg. er mun lengri en rúmast innan þess ræðutíma sem forseti hefur ákveðið fyrir svar við fsp. Enn segir í grg. deildarstjórans:

„Það er því fjarri öllum sanni að dregið hafi verið vísvitandi úr kennslu í Íslandssögu fyrir tilverknað skólarannsóknadeildar. Sé Íslandssaga kennd í minni mæli nú en áður er það af öðrum orsökum og ég vil því stuttlega gera grein fyrir skiptingu kennslustunda milli námsgreina í grunnskólum og fleiri atriðum sem ráða því hvað einstakar greinar eru kenndar margar stundir á viku.“

Nú felli ég úr þar sem gerð er grein fyrir því sem stendur í 42. gr. grunnskólalaga en tek næsta atriði þar sem segir:

„Menntmrh. ákveður með auglýsingu — samkv. 42. gr. grunnskólalaga hvernig kennslustundum skuli skipt milli námsgreina. Þessi auglýsing var síðast gefin út árið 1979 og samkvæmt ósk núv. menntmrh. er hún nú í endurskoðun m.a. vegna áætlana um aukna kennslu í heimilisfræði. Samkvæmt núgildandi auglýsingu hafa einstakir skólar nokkurt frelsi um það hvað þeir verja mörgum stundum til kennslu í einstökum greinum þannig að nokkur munur er á milli skóla hvað hver grein fær marga tíma... Samkvæmt fyrrnefndri auglýsingu eru nemendastundir nú 266–270 á viku. Fyrir 1979 voru þessar stundir nokkru fleiri en var þá fækkað skv. ákvörðun þáv. menntmrh... vegna erfiðrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Þar sem fjárhagsstaðan virðist lítið hafa batnað enn sem komið er hefur ekki þótt fært að fjölga þeim aftur.“

Ég vík svo að lokakafla í þessari grg., herra forseti, og hann hljóðar svo:

„Staða greinarinnar nú.

Við gerð áætlunar um endurskoðun námsefnis og kennslu í samfélagsfræði árið 1971 var við það miðað að heildarendurskoðun efnisins yrði lokið árið 1978. Fjárskortur hefur mjög tafið framgang þessarar áætlunar en námsefnissamning er kostuð af ríkissjóði samkv. fjárlögum ár hvert. Miðað við það fé, sem fengist hefur á undanförnum árum, þykir það sýnt að heildarendurskoðun náms og kennslu í samfélagsfræði í íslenskum skyldunámsskólum muni ljúka á síðasta áratug þessarar aldar. Þessu fylgja margvíslegir skipulagsörðugleikar þar sem skólar verða að nota samhliða það nýja námsefni sem út er komið og eldra efni sem fyrir löngu er orðið úrelt.“

Þar lýkur tilvitnunum í grg. deildarstjóra skólarannsóknadeildar en ég mun fúslega láta hv. þm. grg. í heild í té. Vegna niðurlagsorða í grg. um heildarendurskoðunina og gang hennar vil ég láta þess getið að ég tel endurskoðun námsefnis vera tímabundið verkefni í sjálfu sér og takist ekki að ljúka því á tilsettum tíma getur vel verið tilefni til að endurskoða það að nýju. Svo stendur á um þetta efni sem hér er til umr. að það byggist á nefndaráliti sem út var gefið 1971 þar sem m.a. er vikið að því að þekkingarmarkmið og viðhorfa og tilfinningamarkmið séu lögð að líku í samfélagsfræði. Ég vil láta þess getið að ég tel að þekkingarmarkmiðin eigi að sitja í fyrirrúmi. Ég tel það markmið kennslunnar að efla sjálfstæða hugsun nemenda, byggða á miðlun staðgóðrar þekkingar, þekkingar á staðreyndum. Ég tel að varast eigi að láta staðreyndakennslu víkja fyrir viðhorfakennslu. Þetta er meginatriði. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að staðreyndir, svo vel sögulegar sem aðrar staðreyndir, halda áfram að vera staðreyndir þótt þjóðfélagið breytist.

Ég hygg þá, herra forseti, að fsp. sé svarað.