18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það var um margt athyglisverð stefnuræða, sem hæstv. forsrh. flutti hér fyrr í kvöld, athyglisverð bæði hvað snertir innihald og ekki síður fyrir það hvenær hún er flutt. Það er athyglisvert að heyra ræðu flutta nú þann 18. okt. sem stefnuræðu,. Henni er ætlað að skýra þá stefnu sem þessi ríkisstj. hefur hugsað sér að framfylgja næsta árið. Stingur þetta. ekki hrapallega í stúf við það sem við heyrðum fyrir kosningar? Heyrði einhver hæstv. forsrh. eða einhvern annan úr hv. stjórnarliði flytja þennan boðskap fyrir kosningar? Hvað var það sem þeir sögðu þá? Minnist einhver þess að hafa heyrt einhvern þeirra segja eitthvað sem gaf vísbendingu um að samningsréttur yrði afnuminn? Eða að kaupmáttur launa yrði svo skertur sem nú er orðið. Að ekki yrði svigrúm til almennra kjarabóta. Nei, ég leyfi mér að efast stórlega um það, að nokkur þeirra hafi látið orð falla í þá átt. Ég efast, vegna þess að ég heyrði ekki þessa stefnu boðaða í útvarps- og sjónvarpsþáttum fyrir kosningar, og ég ætla að það sama gildi um kosningafundi þeirra.

Þá er mér spurn: Hver kaus yfir sig þá stjórnarstefnu sem hæstv. forsrh. mælti fyrir hér áðan? Svarið er einfalt og skýrt. Enginn. Vegna þess að enginn heyrði stjórnarliðana segja frá því á kosningafundum að þeir hygðust, fengju þeir til þess aðstöðu, beita þeim gerræðislegu vinnubrögðum og aðferðum sem dunið hafa yfir frá valdatöku þessarar stjórnar. Ég reikna aftur á móti með því að almenningur hafi kosið þessa menn í góðri trú, trú á það að þeir ætluðu sér að framfylgja þeirri stefnu sem þeir lofuðu fyrir kosningar. Það er lykilatriði, að fólk fái að vita um það fyrir fram, hvaða stefna og hvaða stjórn það er sem það er að kjósa sér til handa. Það að einhver svokölluð stefna nýmyndaðrar ríkisstj. skjóti upp kollinum eftir dúk og disk, eftir að stjórnin hefur verið mynduð, getur ekki samræmst vinnubrögðum og hugsanagangi í lýðræðislandi. Þjóðin á að fá að kjósa um það sjálf hvaða stefnu og hvaða aðgerðum hún treystir sér til að standa undir.

Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1984 kemur það fram að lífskjör þjóðarinnar hlutu að skerðast, og að um væri að ræða tímabundna en ekki síður nauðsynlega kaupmáttarfórn, ásamt því að ekki er svigrúm til almennra kjarabóta. Þess er einnig getið að ríkisstj. kunngeri tímanlega með afdráttarlausum og ákveðnum hætti stefnu sína að því er varðar gengi, ríkisfjármál, lánskjör og peningamál til þess að aðrir aðilar geti tekið sínar eigin ákvarðanir í því ljósi. Þetta undirstrikar bara enn betur þau ummæli, sem ég viðhafði fyrr, að þjóðin verður að fá að kjósa sér sjálf hvaða stefnu og hvaða aðgerðum hún treystir sér til að standa undir.

Í þjóðhagsáætluninni er þess getið að ríkisstj. vill láta fólk vita tímanlega um stefnuna. Er það kallað tímanlega að láta stefnuna uppi eftir hálft ár? Í þjóðhagsáætlun segir ennfremur að með því geti aðrir aðilar tekið ákvarðanir í peningamálum. Hvaða ákvarðanir? Hver á að taka ákvarðanir? Eru það hjónin með þrjú börn, sem standa uppi með 5 þús. kr. eftir að hafa reitt af hendi skatta og skyldur, afborganir og vexti og eiga þá eftir að greiða rafmagns- og hitareikninga ásamt fæðiskostnaði, að ekki sé minnst á lúxus eins og fatnað. Er ákvörðunarrétturinn, sem ríkisstj. færir fólkinu, í því fólginn að það megi sjálft ákveða hvort það eigi áð borga svimandi háa orkureikninga, sem hafa hækkað um 140% á einu ári á meðan laun hafa einungis hækkað um 40% á sama tíma, eða hvort það eigi að kaupa sér mat? Ég segi nú bara, sér er hver ákvörðunarrétturinn.

Bandalag jafnaðarmanna vill að fólk fái að kjósa um það hvaða og hvernig ríkisstj. og stefnu það fellir sig við. Ríkisstj. sem það getur treyst, ríkisstj. sem hefur opinberað stefnu sína fyrir fram og kemur ekki aftan að fólki eftir á. Þá hefur ríkisstj. fengið vald sitt beint frá þjóðinni og getur þannig í krafti þess valds, sem það veitir henni, beitt þeim efnahagsaðgerðum sem hún fyrir kosningar áleit nauðsynlegar til að tryggja hag þjóðarinnar svo sem best verði á kosið.

Bandalag jafnaðarmanna er andvígt afnámi samningsréttar. Slíkt afnám er alrangt mat á aðstæðum og leiðir ekki til góðs. Slíkt afnám er misbeiting valds, rétt eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði réttilega þann 22. okt. 1981, þá stjórnarandstæðingur, þegar hann var að mæla til Svavars Gestssonar þáv. félmrh. En við hann sagði hv. þm. Pétur Sigurðsson, með leyfi forseta:

„Hann á nokkra skoðanabræður í Póllandi sem eru þar við völd. Þeir halda verkafólki í járngreipum ófrelsis og þeir hafa herlið sér til stuðnings: Sovétherlið grátt fyrir járnum á landamærum Póllands til þess að hindra frjálsa verkalýðshreyfingu í að ná mannsæmandi kjörum.“

Þetta er rétt og þetta er voðalegt. En hvaða aðgerðum stendur hv. þm. Pétur Sigurðsson nú fyrir ásamt skoðanabræðrum sínum hér á Íslandi? Það vantar sjálfsagt ekkert nema hervaldið. Bandalag jafnaðarmanna telur að betri og varanlegri árangri verði náð með því að gefa samninga frjálsa, þar sem fólk semur um þau verðmæti sem eru til, og að einstaklingar og samtök þeirra beri fulla ábyrgð á þeim samningum sem samið hefur verið um. Eftirleikurinn verður mun auðveldari og raunhæfari þegar fólki eru búnir möguleikar til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt. Það næst raunhæfari árangur með því að hafa samvinnu við fólk í stað þess að fótumtroða grundvallarmannréttindi þess.

Það var mikið rætt um erfiðleika í þessari stefnuræðu, og að allir almennir launþegar þurfi að leggja sinn skerf af mörkum svo að hægt verði að vinna bug á þessum erfiðleikum. Staðreyndin er bara sú, að erfiðleikana er nú þegar að finna á heimilum hins almenna launþega. Það ríkir kreppa í heimilisbókhaldi flestra heimila. Þar ná endarnir engan veginn saman. Samt sem áður vill hæstv. forsrh. að launþeginn taki enn meira en orðið er á sig af því litla sem hann hefur til umráða, svo að unnt reynist að lagfæra ríkisbókhaldið þannig að ríkisvaldið með helstu skjólstæðinga sína, atvinnurekendur, undir verndarvæng sínum geti vel við unað. Þetta sannfærir okkur enn betur en áður um það, að inngrip ríkisvaldsins í gerða samninga er gersamlega ábyrgðarlaus aðgerð. Víðtækar samstilltar aðgerðir er vinsælt hugtak hjá ríkisstj. um þessar mundir. En hvaða víðtæku samstilltu aðgerðir eru þeir að tala um? Jú, það er komið upp á yfirborðið. Það eru launþegarnir, sem að mati ríkisstj. hafa lifað um efni fram og eiga nú að hafa með sér víðtæka, samstillta samstöðu um að borga upp verðbólgubrúsann á svo skömmum tíma sem verða má, svo að ríkisstj. geti fengið sér rós í barminn og hreykt sér að því loknu. En það gengur bara ekki upp að hægt sé að láta heimilisbókhaldið borga brúsann einhliða. Ríkisbókhaldið verður að taka sinn skerf af því á sig. Jú, jú, mikil ósköp, það hafa fallið mörg orð í þá átt hvernig ríkisvaldið ætlar að spara og draga saman seglin. En þau orð stemma bara ekki við fjárlagafrv. sem var lagt fram hér á Alþingi fyrir helgina. Þar ætla allflest ráðuneytin sér t.d. mjög auknar tekjur til sinna umsvifa á meðan launþeginn verður að herða sultarólina. Það hefur líka mikið verið rætt um það að ríkið ætli ekki að ráða í þær stöður sem losna. Það sannast best hve mikið er að marka þessi orð þegar lesnar eru auglýsingar helgarblaðanna þar sem fjmrn. auglýsir eftir fulltrúa. Ekki á að láta þá stöðu óráðna.

Svona væri lengi hægt að telja. Þetta eru því miður bara orðin tóm. Það hefði verið gott að geta trúað því að undir þessum orðum fælist sannur ásetningur um það að gera vel, en dæmin sanna því miður að svo er ekki.

Annað er og uppáhaldsorðatiltæki hæstv. ríkisstj.: að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar sé teflt í tvísýnu. Er hægt að trúa því að þessir menn geri sér ekki grein fyrir því, að með þessum einhliða aðgerðum tefla þeir efnahagslegu sjálfstæði hins almenna launþega í tvísýnu? Þegar sjálfstæði einstaklingsins er brotið niður, þá tekur við niðurlægingin - niðurlægingin yfir því að geta ekki með nokkru móti staðið við skuldbindingar sínar, niðurlægingin yfir því að þurfa að ganga eins og bónbjargamenn milli lánastofnana til þess að bæta gráu ofan á svart með enn einu láninu, niðurlægingin yfir því að geta ekki séð sér og sínum farborða þrátt fyrir gífurlegt vinnuálag. Þegar svo er komið, að einstaklingum þessa þjóðfélags er stillt þannig upp við vegg, fer maður að spyrja sig að því, hvort það geti verið réttlætanlegt og hvort það geti verið að tilgangurinn helgi meðalið.

Ég þakka áheyrnina.