22.11.1983
Sameinað þing: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að tala lengi að þessu sinni, því kannske hefur verið talað nægilega mikið í þessum álmálum undanfarin ár. Umr. hefur verið oft á dagskrá og margar ræður haldnar og miklar bókmenntir út gefnar, þannig að ég sé ekki ástæðu til að gera þingtíðindin miklu þykkari af þessu tilefni. En mér finnst ákaflega einkennilegt þegar góður og gegn hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson kemur hér í stólinn og flytur eins undarlega ræðu og hann flutti áðan. Þó ég hlustaði vandlega gat ég ekki heyrt nema þrennt í hans máli: Í fyrsta lagi heldur ómerkilegt skens um fyrrv. hæstv. iðnrh. og í öðru lagi lagði hann sig mjög fram um að finna einhver lögfræðileg rök í álmálinu fyrir Alusuisse og gegn íslenskum hagsmunum, gegn möguleikum Íslendinga til einhliða aðgerða, ef samningaleiðin reyndist óviðunandi fyrir okkur. Eins og hann hlýtur að vita eru fordæmi fyrir því í heiminum að þjóðir hafa gripið til einhliða aðgerða þegar forsendur hafa breyst mjög. Í þriðja lagi var það eitt aðalatriðið í ræðu hv. þm. að reyna að finna dæmi þess, hvar væri ódýrust orka til handa stóriðjufyrirtækjum og dæmi um það, (Gripið fram í.) hverjir byðu auðhringunum bestu kostina og lægst rafmagnsverð, eins og í Kanada þar sem hann nefndi 6–7 mills og það er auðvitað rétt munað. — Ég þarf ekkert aðstoð landbúnaðarsérfræðinga af Austurlandi til að koma þessu frá mér. Ég er alveg einfær um það.

Einnig benti hv. þm. á að ýmsir aðilar úti í löndum hefðu boðið auðhringunum ekki aðeins upp á mjög lágt rafmagnsverð, heldur einnig upp á alls kyns fríðindi, skattfríðindi og alls konar styrki og aðstoð við fjárfestingar. Ég spyr hv. þm.: Á þetta að verða okkar stefna, Íslendinga, að halda raforkuverðinu eins lágu og hann nefndi í sínum dæmum, og er þetta tal allt til stuðnings okkur í samningum við Alusuisse? Ég held að það sé þvert á móti. Svona ræður hjálpa þeim sem við eigum að fara að ganga til samninga við og gera okkar samningsstöðu verri, því miður. Ég tel að þessi ræða hefði betur verið látin liggja í handriti og flutningnum sleppt.

Hv. þm. Gunnar G. Schram flutti hér merkt erindi, en hann leiddist einnig út í þá villu að nefna einungis þá staði þar sem raforkuverðið væri lægst. Ég ætla að vona að það bætist ekki margir íhaldsþingmenn í þennan kór, því að hæstv. iðnrh. hefur lýst yfir því að hann stefni að því að reyna að ná sem hæstu raforkuverði út úr þeim Alusuisse-mönnum, og ég ætla að vona að það verði stefna Sjálfstfl. en ekki úrtölumannsins Birgis Ísi. Gunnarssonar. Við vitum nefnilega hversu hátt raforkuverð langflestar álverksmiðjur þurfa að greiða. Og þeir hefðu alls ekki átt að fara inn í frumskóginn í Ghana til að finna þar dæmi sem líktist okkar mest, því að villimennirnir þar sömdu af sér svo hroðalega fyrir mörgum árum, eins hroðalega og Jóhannesi Nordal tókst á sínum tíma. Samlíkingin er svo sem ekki skemmtileg fyrir þá herramenn.

Herra forseti. Það hefur ekki gengið vel á undanförnum árum að fá þetta raforkuverð hækkað og það skal viðurkennt að niðurstaða síðustu fimm ára í þessum efnum er ekkert of glæsileg, þar sem við höfum ekki fengið raforkuverð hækkað um eitt einasta mill og þar sem kwst. er nú aðeins seld á 1 cent þeim Alusuissemönnum, en var ekki nema 60% af þessu sama centi áður en núverandi hækkun varð með bráðabirgðasamkomutagi. En á síðasta kjörtímabili vannst þó heilmikið í þessum málum, þrátt fyrir að ekki næðist árangur, og verður að viðurkenna það, því að það var leitt í ljós á þessu tímabili með gagnmerkum könnunum, sem margir ágætir menn áttu þátt í að raforkuverðið sem við fengum frá Alusuisse væri mjög óeðlilegt og alltof lágt. Af einhverju er það sem allir vilja hækka nú. Það eru nefnilega allir farnir að átta sig á því að það var rétt að raforkuverðið væri alltof lágt, og það hefur þá áunnist. Ég er hræddur um að ef þessi vinna hefði ekki skilað þó þessum árangri væru menn ennþá þeirrar skoðunar að þetta væri bara þokkalegt raforkuverð og skilaði okkur hagnaði á öðrum sviðum, sem er auðvitað rétt. Við höfum gagn af því að hafa slík atvinnufyrirtæki starfandi hér. Það fer ekkert hjá því að þetta veitir vinnu o.s.frv. og kemur með peninga inn í landið, en við eigum ekki þrátt fyrir það að sætta okkur við að selja orku okkar á þriðjungi af framleiðslukostnaðarverði. Við eigum ekki að sætta okkur við það.

Það hefur einnig verið talað hér um þá till. sem gerð var af atvmn. Sþ. í fyrra. Ég átti sæti í þeirri nefnd og vissi auðvitað ósköp vel hvernig það gekk allt fyrir sig. Ég gat ekki skilið eða gat alls ekki lesið út úr þeirri till. að hún væri vantrauststillaga á hæstv. fyrrv. iðnrh. Það sem mátti lesa út úr þeirri till. var ósköp einfaldlega það, að þeir aðilar sem að henni stóðu voru tilbúnir að mynda stjórn í landinu. Þarna var verið að sýna fyrir fram hverjir ætluðu sér að taka völdin í landinu eftir kosningar, ósköp einfaldlega. Þarna lá hinn nýi meiri hluti fyrir.

Ég sé heldur ekkert óeðlilegt við það þó að þessir aðilar flyttu till. Hún var auðvitað í rökréttu samhengi við þeirra skoðanir og ekkert við það að athuga að mínum dómi og gat varla og alls ekki komið ríkisstj. á neinn hátt illa, vegna þess að hún var að fara frá. Og það eina undarlega við þessa till. var e.t.v. að hún var sýnilega alltof seint fram komin, því að stjórnin var að lognast út af og gat auðvitað ekkert gert meira í þessum hlutum þegar komið var fram á síðari hluta vetrar í fyrra. Það var ósköp einfalt mál. Það er staðreynd og um það þarf ekki að rífast.

Nú hefur verið gerður bráðabirgðasamningur — og ég legg áherslu á að þarna er um bráðabirgðasamning að ræða. Ég trúi því ekki að þetta uppkast eða þessi bráðabirgðasamningur sé það sem eigi að gilda í framtíðinni, enda er það tekið fram. Þarna er aðeins um bráðabirgðasamkomulag að tefla og á þeim tíma sem það stendur eiga menn að glíma við að reyna að ná samningum. Ég tel að nauðsynlegt sé að reyna að ná þarna samningum og þess vegna ekki óeðlilegt að bráðabirgðasamningur sé gerður. Hitt er annað mál, að það eru í þessum samningi að mínum dómi nokkrir óæskilegir hlutir. Þar er að mínum dómi gefið alltof mikið undir fótinn með það að stækka þessa verksmiðju, jafnvel svo mikið að afkastageta hennar tvöfaldist. En á hinn bóginn finnst mér ekki óeðlilegt þó að það sé nefndur sá möguleiki í þessum bráðabirgðasamningi að verksmiðjuna megi stækka. Við vitum að verksmiðja af þessu tagi þarf auðvitað að hafa ákveðna stærð og ákveðna afkastagetu til þess að hún verði rekin með nægilegri hagkvæmni. Við getum ekki búist við því að fá mjög mikið út úr þessum rekstri meðan verksmiðjan er ekki rekin á nægilega hagkvæman hátt. En tvöföldun á stærð þessarar verksmiðju þýðir auðvitað að við verðum að leggja út í alltof miklar fjárfestingar í orkuverum til að geta skilað verksmiðjunni allri þeirri orku sem hún þarf. Og það er auðvitað ekki sama hversu mikið verður leyft að stækka þessa verksmiðju. Það er mikil spurning. En í samningnum finnst mér hins vegar heldur mikið sagt varðandi þessa stækkun. Þetta atriði á ásamt öðrum atriðum að vera samningsatriði en ekki á að lofa neinu um það fyrir fram eða segja of mikið til þess að hafa eitthvað upp í erminni þegar við setjumst við samningaborðið með þessum mönnum. En það er auðvitað ljóst að það þarf eitthvað að vera meira en raforkuverðið eitt ef um einhverja samninga á að vera að tefla. Það er ekki nægilegt að segja: Þið getið komið hér og gengið að okkar kröfum. Það eru ekki samningar. Þetta mál er að sjálfsögðu mjög vandmeðfarið og þar mega menn, þegar til stykkisins kemur og alvörunnar, meta alla þá þætti sem þar koma til greina.

Þetta bráðabirgðasamkomulag hefur þó þann kost að geyma að þar hefur verðið verið hækkað til bráðabirgða um liðlega 50%. Mér er engin leið að koma því inn í höfuðið á mér að almenningur þurfi að borga meira með þessum verksmiðjurekstri eftir hækkun en áður. Þvert á móti. Það er auðvitað kostur. Ég skil ekki heldur þær röksemdir þegar menn finna að því að þetta bráðabirgðasamkomulag sé uppsegjanlegt. Ekki hefði ég viljað binda mig þannig í báða skó að geta ekki sagt samningnum upp. Eðli málsins samkvæmt hefði það verið mjög rangt.

Aðrir þættir vega auðvitað mjög þungt í þessum efnum, en ég lofaðist til að tala hér stutt og verð því að sleppa mörgum efnisatriðum sem ástæða væri til þess að ræða. En ég tel að við bætum okkur ekkert á því að vera að rífast um þetta eins og einhverjir unglingsstrákar á þessari samkomu þjóðarinnar og vera sífellt að nudda hver öðrum upp úr því hvernig gengið hafi frá upphafi þessa máls fyrir allmörgum árum, heldur verðum við að mínum dómi að leggjast allir á eitt til að við getum fengið sem farsælasta lausn á þessu erfiða máli. Ég vil leyfa mér að trúa því að hæstv. iðnrh sé ekki búinn að beygja sig fyrir þessu stóra fyrirtæki og ég vona það og ég trúi því að hann geri allt sem hann getur til þess að við höfum sem mest út úr viðskiptum við þetta fyrirtæki í framtíðinni.