23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

43. mál, lagmetisiðnaður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 51 frá 1982, um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins. Frv. þetta felur í sér að 1. kafli umræddra laga verði framlengdur um tvö ár, þ.e. í stað orðanna „31. des. 1983“ komi „31. des. 1985“.

Stjórn Sölustofnunar lagmetis hefur óskað eftir því að framangreind lög verði framlengd og telur áríðandi að nú þegar verði framlengd núverandi starfsréttindi stofnunarinnar, sem felst í lögum þessum, en eins og fram kemur falla þau úr gildi um næstu áramót. Sölustofnunin telur sérstaklega mikilvægt að halda áfram einkarétti til að annast sölu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum til landa þar sem ríkisstofnun, ríkið sjálft eða aðili fyrir þess hönd er aðalkaupandinn.

Rök fyrir einkarétti eru m.a. þau að í löndum Austur-Evrópu er einn kaupandi og því ekki um neina samkeppni kaupanda megin að ræða. Þessi einkakaupandi væri því í aðstöðu til þess áð fara milli seljenda á Íslandi og freista þess að fá verðið lækkað ef ekki væru ákvæði sem kæmu í veg fyrir slíkt háttalag. Einhliða samkeppni kaupenda megin verður að teljast seljendum í óhag. Rétt er að bregðast við þessu með einkarétti seljenda megin og jafna þar með samningsaðstöðu seljenda og kaupanda, er álit stjórnar sölustofnunar lagmetis.

Iðnrn. hefur farið yfir málið og telur rétt, eins og nú standa sakir, að framlengja einkarétt Sölustofnunarinnar eins og fram kemur í frv. Ríkisstj. hefur fallist á þau sjónarmið sem fram eru borin með þessu frv. og hv. Nd. hefur lokið við afgreiðslu frv. Ég vænti þess að það verði lögfest á þessu þingi fyrir áramót, enda um mjög einfalt mál að ræða í raun. Samstaða hefur náðst um að framlenging þessi yrði til tveggja ára að þessu sinni, en rétt er að taka fram að stjórn Sölustofnunar lagmetis óskaði eftir framlengingu til fimm ára. Ég vil taka það fram að ég mun beita mér fyrir rækilegri endurskoðun á þessum lögum á gildistímanum ef hið háa Alþingi felst á þetta lagafrv.

Virðulegi forseti. Ég legg til að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og iðnn.