23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

43. mál, lagmetisiðnaður

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til að lýsa því yfir að ég er gersamlega andvígur þessu frv. og tel það í raun og veru óhæfu með öllu að íslensk ríkisstj. sé að flytja inn erlenda þjóðhætti, þ.e. að réttlæta einkasölu hér á landi með því að einkasala sé fyrir hendi í því — ja, illræmda — landi sem þessi verslun fer fram við. Ég legg miklu fremur til að menn reyni að beina markaðsöflun sinni að öðrum mörkuðum, mörkuðum sem reyndar krefjast yfirleitt meiri gæða og meiri fjölbreytni en reyna þá um leið meira á íslenskan iðnað. Í því sé ég miklu augljósari vaxtarbrodd en að mæla með þessari áframhaldandi einokun.