23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

43. mál, lagmetisiðnaður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég er ekki formælandi einokunaraðferða og yfirlýsing mín um að lögin yrðu tekin til rækilegrar endurskoðunar á gildistímanum á við að einmitt þetta atriði verði endurskoðað. En ég vil taka það fram að það eru fullyrðingar sem ekki standast að þessi markaður, ef átt er við það, sé okkur ekki mikilvægur. Hann er gífurlega mikilvægur, Rússlandsmarkaðurinn og fiskmarkaðurinn við austantjaldslöndin. Við skulum ekki varpa rýrð á þá staðreynd þótt okkur séu ekki skapfellilegar aðferðir sem gilt hafa um sölu afurðanna.