23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

43. mál, lagmetisiðnaður

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa langt mál um það frv. sem hér er á ferðinni. Mér er þetta mál nokkuð kunnugt vegna umfjöllunar þingsins undanfarin ár. Það hefur ætíð komið til kasta iðnaðarnefndar að fjalla um það. Í þessu sambandi vil ég minna á — en geri það ekki vegna þess að ég beri brigður á réttmæti þess að fram komi einn aðili gagnvart einum aðila þar eystra vegna sölu umræddra afurða — nál. iðnn. frá árinu 1982 þar sem kemur fram að meiri hl. iðnn. á þeirri tíð lagði áherslu á það að fyrirkomulag þessara sölumála verði endurskoðað að frumkvæði iðnrh. og sjútvrh. í samráði við þá aðila sem starfa í lagmetisiðnaði.

Nú geri ég ekki öðru skóna en því að þessi athugun hafi farið fram og að þeirri athugun lokinni hafi sú málsmeðferð, sem hér hefur verið greint frá, framlenging umrædds kafla laganna, að sjálfsögðu verið lögð til á grundvelli þessarar athugunar; ég geri ekki ráð fyrir öðru.