23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

43. mál, lagmetisiðnaður

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Þetta mál er nú ekki nýtt eins og hér hefur komið fram í umr. Við höfum fjallað um þetta árlega undanfarin ár. Munurinn er sá að í þessu frv. er gert ráð fyrir framlengingu í tvö ár í staðinn fyrir að venjulega hefur þetta verið framlengt, að því er mig minnir, í eitt ár.

Ég hafði mínar efasemdir um þetta mál á sínum tíma en ég held þó að athuguðu máli að ekki sé um annað að ræða en framlengja þetta og spurningin er hvort á að hafa það eitt eða tvö ár.

En ástæðan fyrir því, að ég bað um orðið, var sú að það kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. að það væri ástæða til að íhuga þessi mál vegna þess að við ættum ekki að aðlaga okkur að stjórnkerfum landa eins og t.d. sósíalísku ríkjanna. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að blanda saman viðskiptum og pólitík. Við eigum að selja okkar afurðir þar sem við getum og þar sem hagkvæmast er að selja þær og það eigi ekki að blanda saman viðskiptum og pólitík, a.m.k. ekki of mikið.

Það urðu miklar umr. og blaðaskrif um þessi mál hér á sínum tíma þegar við stóðum fyrir því, við Ólafur Jóhannesson, að gera samning við Ráðstjórnarríkin um viðskiptamál og það hafði talsverð áhrif í stjórnmálunum því að það voru vissir þm. sem sögðu þáv. stjórn upp hollustu. Þ. á m. var hv. þm. Eggert Haukdal eins og alþjóð veit og ég man ekki hvort hæstv. fjmrh. setti þarna amen á eftir efninu. (Iðnrh.: Jú, það er rétt.) Það mun hafa verið svo. Það er leitt að hann skuli ekki vera við en það gefst kannske tækifæri til að ræða þessi mál í betra tómi. (EgJ: Þú hefðir líka átt að segja upp hollustunni þá . . . þá hefði betur staðið á.) Já, þú ert dálítið seinn að átta þig stundum. (EgJ: Ég sagði þú.) Um þessi mál mætti margt segja og það mætti t.d. upplýsa að svona samning eins og gerður var af okkar hálfu höfðu 46 þjóðir gert, allar þjóðir Efnahagsog framfarastofnunarinnar í París, sem eru aðilar að henni, höfðu gert samninga sem fólu í sér miklu, miklu meiri skuldbindingar en þessi samningur gerði á sínum tíma, margfalt meiri skuldbindingar, því að sannleikurinn er sá að þessi samningur er nauðaómerkilegur.

En það, sem ég vildi undirstrika í þessu efni, er þetta að ég álít að við þurfum að leggja áherslu á það að selja okkar afurðir. Það er ekkert auðvelt að selja allar okkar afurðir og ég tek undir það sem kom fram hér áður að vitanlega eigum við að leggja áherslu á markaði sem víðast og í rauninni er ekkert því til fyrirstöðu, þó að þetta fyrirkomulag sé haft gagnvart Austur-Evrópuríkjunum, að leggja áherslu á markaðssetningu í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum; það er raunar ekkert því til fyrirstöðu. En sannleikurinn er sá að við höfum átt undir högg að sækja einmitt með lagmeti sem þó er að flestra dómi kannske sá vettvangur sem á að vera ör framtíð í en við höfum átt í verulegum erfiðleikum sem kannske sumir hverjir hafa verið byrjunarörðugleikar þó að við seljum úr landi verulega mikið af lagmetisframleiðslu.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins undirstrika að ég álít að menn eigi ekki að blanda um of saman stjórnmálum og viðskiptum heldur eigum við að leggja áherslu á að selja okkar vörur eiginlega alls staðar þar sem við getum en auðvitað eigum við ekki að gera það með öðrum kostum en þeim sem fylgja venjulegum viðskiptaháttum.