23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

43. mál, lagmetisiðnaður

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Bara örstutt. Ég tek undir með hv. 4. km. Austurl. að það eigi ekki að blanda öllu saman. Ég held reyndar að hann hafi kannske frekar átt við stjórnarfar en stjórnmál því að ég veit ekki hvað eru stjórnmál ef viðskipti eru ekki stjórnmál því að viðskipti eru einfaldlega það sem ræður og stjórnar okkar lífi að því er ég fæ best séð í dag.

Ég er heldur ekki að halda því fram að það eigi ekki að skipta við alla þá sem til greina koma og það á alveg eins við um austurblokkina eins og Vesturlönd. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að mikil viðskipti við Austurlönd séu m.a. ákveðin leið til þess hreint og beint að koma á friði í þessum heimi sem mjög ríður á núna þessa seinustu dagana.

Aftur á móti er ég þeirrar skoðunar sem ég lýsti áðan að það að binda sig svona eins og gert er með þessum hætti og þessum lögum, þ.e. að gera ekki meiri kröfur til þeirrar framleiðslugreinar sem hér um ræðir en að hún þurfi að aðlaga sig einum markaði, tel ég óhyggilegt og hreint og beint letjandi fyrir þá sömu iðngrein og ætti tvímælalaust með öðrum ráðum að hvetja til þess að auka gæði framleiðslunnar.

Hv. 4. þm. Austurl. kom inn á það að við hefðum átt í örðugleikum með að losna við þessa framleiðslu og allir þeir, sem hér eru inni og hafa opnað íslenska dós, vita í raun og veru hvers vegna það er. Það er einfaldlega vegna þess að gæði framleiðslunnar eru ekki nægileg. Það er það sem mest er um vert og það er með því sem hægt er að selja okkar varning: að gæði hans séu betri en hjá framleiðendum annarra þjóða; því verður ekki náð með þessari löggjöf.