23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

43. mál, lagmetisiðnaður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. leyfði sér að líta svo á að frv. þetta væri nú borið fram í samræmi við meirihlutaálit iðnn. hinnar háu Ed. trúlega frá 1982, og sú athugun hefði farið fram sem þar var mælst til á þessu máli. Ég trúi að ég hafi skilið þetta rétt. Svo er ekki. Mér er ekki kunnugt um að það hafi í neinu verið farið að þessu áliti nefndarinnar á sínum tíma. A.m.k. hafa engar upplýsingar um það borist í mínar hendur. Ástæðan fyrir því að ég legg nú til tvö át í stað eins áður, sem jafnan var, er að ég vil a.m.k. ekki að það verði kennt um tímaskorti þegar menn kvarta undan því að úttektir hafi ekki farið fram eins og álit manna er að nauðsynlegt sé í þessu máli. Það er hvenær sem er hægt að bera fram frv. sem slítur eldri lögum, þannig að þótt þetta frv. verði að lögum þurfa þau lög ekki að gilda í tvö ár þótt það sé svo afmarkað í frv.

Ég vissi ekki um þetta álit fyrr en ég heyrði um það í umr. í hv. Nd. og mér er ekki kunnugt um að neitt starf hafi verið innt af höndum til að gera úttekt á þessu máli. Ég tók fram að ég er ekki formælandi slíks fyrirkomulags, en margs er þó að gæta í þessu sambandi og til að leiðrétta misskilning skal það tekið fram að aðild að þessum samtökum er ekki lögþvinguð, heldur frjáls þótt þau þurfi að segja henni upp með eins árs fyrirvara, ef þau vilja bregða á það ráð. Og auðvitað keppa íslensk niðurlagningarfyrirtæki á mörgum öðrum mörkuðum.

Um sölumál hefur hér verið rætt og mætti ýmislegt um það segja. Margt var vel unnið á þeim vettvangi það er rétt. En ég veit ekki hversu lengi menn lifa á þeirri fornu frægð. Ég hef rætt þessi mál á opinberum vettvangi eigi alls fyrir löngu og undirtektir orðið allverulegar á ýmsa vísu, jafnvel tekið undir í fjöllunum. Sú umr. staðfesti fremur en hitt að ég hefi haft rétt fyrir mér þegar ég taldi að margs væri vant í þeim efnum og menn þyrftu að stórbæta ráð sitt. Það er óhagganleg skoðun mín og gæti ég, ef ástæða væri til undir þessari umr., rakið það í miklu ítarlegra máli.

Þegar menn gagnrýna fyrirkomutagið á sölu fiskafurða okkar í Bandaríkjunum þá er líka margs að gæta. Menn gera sér væntanlega grein fyrir því að eitt sem við eigum örðugast við að eiga í samkeppni, er fjarlægð okkar frá mörkuðum og sá mikli kostnaður sem fylgir því að flytja vörur okkar á markaðinn. Það er mikill munur á að flytja síld niðurlagða í dósum eða í heilum tunnum, eða þorsk í blokkum eða í neytendaumbúðum og þess vegna er það aðallega sem menn hafa brugðið á þetta ráð að verka fiskinn frekar, stórauka verðmæti hans með erlendum vinnukrafti eftir að hann hefur verið fluttur á markaðinn í ásigkomulagi sem er miklu ódýrara að flytja hann í en ella. En það þarf auðvitað að vera keppikefli okkar að skilja eftir sem mest verðmæti af vörunni í landinu, framleiðsluverðmæti í vinnu og öðru sem að framleiðslunni lýtur.

Ég orðlengi ekki þetta, en ég ítreka yfirlýsingu mína um að ég muni þegar í stað hefja athugun á og úttekt á þessu fyrirkomulagi og ef að bestu manna yfirsýn sýnist rétt að bregða á það ráð að breyta þessu þá verður komið til hins háa Alþingis þegar í stað með slíkar breytingar.