23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

62. mál, húsaleigusamningar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Frv. það til l. um breyt. á lögum nr. 44 frá 1. júní 1979, um húsaleigusamninga, sem hér er lagt fram, er samið af nefnd er skipuð var af þáv. félmrh. 28. sept. 1978 til að semja frv. til l. um húsaleigusamninga. Það frv. varð að lögum eins og áður segir í júní 1979. Eins og fram kemur í aths. við þetta frv. óskaði þáv. félmrh. eftir því haustið 1980 við fyrrgreinda nefnd að hún gerði athugun á reynslunni af lögunum frá árinu 1979 og sendi síðan brtt. við þau ákvæði þeirra sem hún teldi að betur mætti fara.

Þegar nefndin hafði lokið störfum sínum lagði hún fyrir þáv. félmrh. frv. til l. um breytingar á lögum um húsaleigusamninga nr. 44/1979. Nefndarmennirnir Ragnar Aðalsteinsson og Sigurður E. Guðmundsson voru sammála um brtt., en einn nefndarmaður, páll S. Pálsson, skilaði séráliti.

Málið var síðan tekið til frekari úrvinnslu í félmrn. eins og það er orðað í aths. við lagafrv. og m.a. leitað til Leigjendasamtakanna um væntanlegar lagabreytingar. Niðurstaða þeirrar vinnu er frv. þetta um breyt. á lögum nr. 44/1979, um húsaleigusamninga. Nefndin hagaði störfum sínum að ofangreindu verkefni á þann veg að hún hafði samband við allar húsaleigunefndir í kaupstöðum landsins, sem kjörnar höfðu verið samkv. 76. gr. laganna og óskaði eftir áliti þeirra á efni laganna og reynslunni af framkvæmd þeirra. Enn fremur voru nefndunum sendar ýmsar brtt. nefndarmanna og óskað umsagnar um þær. Svör nokkurra nefnda bárust. Auk þess átti nefndin fund með húsaleigunefnd Reykjavíkurborgar og einnig með fulltrúum húsaleigunefnda í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi og Seltjarnarnesi. Á fundum þessum var fjallað um reynsluna af lögunum og það sem betur mætti fara. Beinar ábendingar komu fram frá ýmsum húsaleigunefndum um ágreiningsefni sem þær töldu að vert væri að taka til athugunar. Af hálfu margra húsaleigunefnda var einnig lagt sjálfstætt mat á brtt. þær sem nefndin hafði sent þeim.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að tefja umr. hér með því að fara yfir greinar frv. Það fylgja ítarlegar athugasemdir um allar greinar frv. sem eru lagðar fram. Það er von mín að frv. þetta hljóti skjóta afgreiðstu hér í hv. deild. Ég leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til félmn. þessarar hv. deildar og 2. umr.