23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Mér gafst ekki kostur á að sitja fundi fjh.- og viðskn. svo að ég tel rétt að ég láti mína skoðun hér í ljós. Ég hef reyndar lýst minni afstöðu til þessa frv. áður hér og fór í taugarnar á einhverjum með því að kalla innihald laganna brandara. Ég styð brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. svo langt sem hún nær. Það er erfitt að bæta um betur þegar lög eru í raun jafn vitlaus og þessi lög eru.

Ég tek undir orð hv. 11. þm. Reykv. Ég þarf ekki á persónuafslætti upp á 1400 kr. að halda. Ég á barn undir 7 ára aldri og ég þarf ekki á barnabótum upp á 3000 kr. að halda og sama má segja um marga fleiri í þessu þjóðfélagi að þeir gætu vel lagt af mörkum til þess að hjálpa þeim sem bágust kjörin hafa. Ég leyfi mér, eins og ég sagði áðan, í upphafi þessarar umr. í byrjun vetrar að kalla þessi lög brandara og e.t.v. hefði meiri hl. fjh.- og viðskn. verið tilleiðanlegri til þess að endurskoða þessi lög ef hann hefði gert sér grein fyrir einstökum bröndurum í þessum lögum, eins og m.a. þeirri hjákátlegu staðreynd að 1400 kr. persónuafsláttur á ári er að krónutölu til nákvæmlega nægilega miklir peningar til þess að kaupa eina tankfyllingu á sparneytinn jeppa.