23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það skal vera stutt sem ég segi hér því að ég talaði hér um þetta við 1. umr. og ekki er ástæða til að orðlengja neitt frekar um það. Ég vil fagna því sem fram kom í máli hv. 5. landsk. þm. hér áðan, frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., um þröngan hag heimilanna í landinu. Hann hefur greinilega betri skilning á þessu en hæstv. ráðherrar sem telja að allt sé í himnalagi. Aðvaranir hv. þm. Eyjólfs Konráðs eða varnaðarorð um kreditkortin og þá vissu hættu, sem af þeim stafar, tek ég einnig undir. Það getur orðið býsna dýrt magnyl fyrir marga.

Menn spyrja eðlilega fyrst og fremst hverra lífskjör hafi átt að vernda og í hverra hlut hinar mildandi aðgerðir hafi átt að koma. Um það er búið að fjalla hér og ástæðulaust að eyða í það tíma. Það hefur verið spurt um skattaafsláttinn, fyrir þá skattlausu, ekki þá sem eru það vegna galla á skattalögum eða öðru, heldur þá sem eru skattlausir með réttu.

Brtt. sem minni hl. fjh.- og viðskn. flytur eru vissulega í rétta átt. En ég vildi kannske spyrja hér hæstv. forsrh. því að hann er genginn í salinn. Nú þrengir svo að mörgum öryrkjum og öldruðum að til neyðarástands má sums staðar telja. Hyggst ríkisstj. gera einhverjar ráðstafanir til þess að koma sérstaklega til móts við þetta fólk? Ég bendi alveg sérstaklega á það að tekjulausir öryrkjar og aldraðir á stofnunum fá nú í svokallaða vasapeninga 1430 kr. á mánuði. samkv. lögum um fatlaða er gert ráð fyrir verulegri hækkun þessara vasapeninga. Fyrsti áfanginn að því marki hefur komist til framkvæmda, að vísu eftir dúk og disk. Ég hlýt að spyrja vegna þessara aðila, er meiningin hjá hæstv. ríkisstj., að 2. áfangi þeirrar hækkunar taki gildi nú á næstunni? Ég trúi ekki öðru en svo verði gert. Mig minnir að samkv. reglugerð frá í vor hafi þetta átt að gerast 1. okt. s.l. og hefði ekki af veitt, og ég hlýt því að spyrja hæstv. forsrh.: Er ætlunin, þó ekki sé í öðru en þessu, að bæta hér úr, eða á að halda þessum vasapeningum aldraðra og öryrkja í því lágmarki sem er í dag, sérstaklega miðað við þá þröngu og erfiðu stöðu sem ég veit og allir hér vita að þetta fólk er í?