18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Því er stundum haldið fram að allt sé eins í pólitíkinni. Stjórnmálaflokkarnir séu hver öðrum líkir. Pólitíkin sé spurning um menn, en ekki málefni. Þar skipti engu máli hvaða skoðanir menn hafi. Á þetta er síðan spilað og ekki er mér grunlaust um að slíkur áróður hafi fest rætur hjá fólki.

Á síðustu áratugum hafa hreyfingar jafnaðarmanna hvarvetna um heim beitt sér fyrir uppbyggingu velferðarþjóðfélaga, hvar hver einstaklingur er tryggður frá vöggu til grafar, hvar einstaklingurinn þarf ekki að óttast um afkomu sína, hvar heilbrigðir hjálpa þeim sjúku, hvar hinir ungu hjálpa þeim öldnu. Þessar skoðanir hafa átt það mikið fylgi að andstæðingarnir hafa ekki vogað sér að láta andstöðu sína í ljós. Þeir hafa þagað þunnu hljóði. Jú, þeir hafa talað um verðbólgu og almenn efnahagsmál, en að öðru leyti breitt yfir miðaldahugsanagang með þögninni. Maður hefði haldið að verkalýðshreyfing og jafnaðarmenn þyrftu ekki lengur að kljást við andstæðinga velferðarkerfisins. Nú hefur komið í ljós að þeir eru í fullu fjöri. Þar eru þeir í gervi umskiptinga — manna sem segja eitt en gera annað.

Það hefur berlega komið í ljós að nú hyggst ríkisstj. skera niður hvers konar félagslegar framkvæmdir, skera niður heilbrigðisþjónustuna, skera niður framlög til aldraðra samborgara okkar. Á sama tíma og þetta er útgefið fer forsrh. í nokkurs konar helreið um landið og minnir fólk á að tólf ára stjórnarferill Framsóknar hafi verið botnlaus mistök og plat. Þar hafði allt verið rangt gert, verðbólga aukist risaskrefum, erlendar lántökur tröllaskrefum og stefnan í sjávarútvegsmálum mistekist.

Það vill svo til að hæstv. forsrh. var ráðh. í síðustu ríkisstjórn — þeirri ríkisstjórn sem hann deilir nú hvað ákafast á. Hvernig er hægt að trúa svona fólki? Hvernig er mögulegt að taka svona fólk alvarlega? Og hæstv. forsrh. lætur líta svo út að það hafi verið einhver ágreiningur um það, hvort gera ætti eitthvað í efnahagsmálum. Slík framsetning er í hæsta máta óvönduð og óheiðarleg.

Í raun var öllum ljóst hverjar voru afleiðingar stjórnarsetu Framsfl. og reyndar Sjálfstfl. líka, sem átti þrjá fulltrúa í þeirri ríkisstjórn-, ríkisstjórn sem skildi eftir sig 130% verðbólgu, rýrnandi kaupmátt og minnkandi lánstraust erlendis. Öllum var ljóst að það þurfti á stórfelldum uppskurði á þjóðfélaginu að halda.

Alþfl. lýsti því yfir fyrir kosningar að hann vildi gjarnan taka þátt í slíku viðreisnarsamstarfi. Hann hafði allt síðasta kjörtímabil varað við stjórnarstefnunni. Alþfl. sá það fyrir að stjórnleysi og kjarkleysi mundi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér, lífskjör þjóðarinnar voru í hættu og atvinnuvegirnir staddir á hengiflugi.

Hins vegar var verulegur ágreiningur um hvað ætti að gera. Framsfl. hafði enga skoðun á því hvað ætti að gera. Hann átti sér aðeins eina hugsjón — þá hugsjón að vera í ríkisstjórn. Það var þess vegna sem Sjálfstfl. gat matað framsóknarmenn á sínum skoðunum, beygt þá í duftið og leyft þeim að hafa forystu um framkvæmd leifturstríðs, leiftursókn gegn lífskjörunum, gegn öldruðum, gegn öryrkjum og fötluðum samborgurum okkar.

Og nú er fjárlfrv. komið fram. Þar birtist það svart á hvítu hvað á að gera. Þeir ætla að taka upp þá reglu að láta sjúklinga greiða vistgjöld á sjúkrahúsum, þeir ætla að draga stórlega úr elli- og örorkulífeyri og þeir ætla að draga úr lyfjagjöf á sjúkrahúsum. Á sama tíma er gert ráð fyrir hækkun tekjuskatta um 26.5% og hækkun eignarskatta um 25.9%. Á sama tíma ætla þeir að kúga verkalýðshreyfinguna til að una aðeins við 15% launahækkun. Ja, það er ekki furða þó þessir kallar boði skattalækkanir fyrir kosningar.

Þessi ríkisstj. hefur einnig boðað undarlegan sparnað. Hvernig er það gert? Ég hvet alla þá landsmenn sem mögulega geta komist yfir fjárlagafrv. til að lesa boðskapinn. Þar segir að önnur rekstrargjöld, eins og það er kallað, eigi að hækka hvorki meira né minna en um 564%. Framlag til skrifstofu hæstv. utanrrh. hækkar um 113% og til skrifstofu hæstv. landbrh. um lítil 225% til viðbótar. Svo má lengi telja. Frv. er allt í þessum dúr.

Því er lýst yfir að 2.2% af þjóðarframleiðslu eigi að renna til vegagerðar, en hvergi sést hvar á að afla nema þá hluta þess fjár. Þar vantar 500 millj. Auðvitað er það með ráðum gert. Þess verður aflað með lántökum. Þá verður þjóðarbúið skuldugra en nokkru sinni fyrr.

Í frv. er gert ráð fyrir 9 millj. kr. afgangi. Það er létt að sýna afgang á pappírnum þegar stórum fjárhæðum er sleppt. Sannleikurinn er sá, að rekstrarhalli verður upp á 490 millj. a.m.k.

Það væri rangt af mér að halda því fram að hvergi eigi að spara. Eitthvað verða blessaðir mennirnir að hafa til að fjármagna ráðherrabílana, jafnvel þá sem eyða ekki baun. Til dæmis er framlag til fræðslusýninga um fötluð börn strikað út. Framlag til að styðja munaðarlausa, vanrækta eða fatlaða unglinga strikað út. Efnahagsstefnan er ein allsherjar árás á velferðarkerfið í landinu. Þetta er atlaga að þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Allt er þetta gert í nafni verðbólgunnar — þess verðbólgubáls sem núverandi forustuflokkur ríkisstj. á mestan þátt í að kynda.

Það hefur fleira verið gert. Velferðarkerfið er ekki aðeins skert peningalega, heldur troðið á mannréttindum. Samningsréttur verkalýðshreyfingarinnar er afnuminn um tíma og kaupgreiðsluvísitalan er afnumin næstu tvö árin.

Það er mikill misskilningur að ætla að þetta gerræði leysi nokkurn vanda. Það skapar meira ósætti og sundurlyndi með þjóðinni en þekkst hefur áður. Við Íslendingar þurfum að vinna saman að uppbyggingu landsins. Við erum ekki fleiri en það að mögulegt ætti að vera að lifa sem ein fjölskylda — fjölskylda sem hefði skilning á þörfum þeirra sem verst eru settir, þeirra sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.

Fyrir síðustu kosningar var mikið rætt um vísitölu. slík umræða var vissulega eðlileg því fyrri ríkisstjórn hafði skert þessa vísitölu 14 sinnum. Allar ríkisstjórnir hafa skert vísitöluna. Samt hafa þessar skerðingar ekki forðað þjóðfélaginu frá óðaverðbólgu.

Guðfræðingar miðalda deildu ákaft um það hvort hafði verið á undan eggið eða hænan. Eins er deilt um vísitöluna. Verkafólk hefur samið um vísitölu til að vernda kaupmáttinn. Ekki verður með neinum rökum haldið fram að kjarasamningar verkalýðshreyfingarinnar hafi gert síðustu ríkisstjórn erfitt fyrir. Sannleikurinn er sá, að há kaupgreiðsluvísifala skapaðist af of mikilli dýrtíð. Hún var afleiðing stjórnleysis og kjarkleysis þeirra er sátu á valdastólum, ekki öfugt.

Alþfl. sagðist skýrt og skorinort fyrir kosningar vilja ræða nýja vísitölu. Við vildum taka upp kerfi sem gæti í raun varið kaupmáttinn. Það var og er skoðun okkar að það sé niðurlægjandi fyrir verkalýðshreyfinguna að hafa vísitölu sem öllum stjórnmálamönnum þætti eðlilegt að skerða. Við erum hins vegar ekki þeirrar skoðunar að vísitöluskerðing ein eða afnám hennar gæti bjargað efnahagsástandinu.

Alþfl. átti þess kost að gerast aðili að þessari ríkisstj. Við höfnuðum því þegar við sáum upp á hvaða býti var boðið. Við viljum taka á öllum þáttum efnahagslífsins. Það þarf uppstokkun á kerfinu. Við búum við úrelta landbúnaðarstefnu sem er í engu breytt. Sjávarútvegurinn er að fara í sama far. Þar má vissulega stokka upp. Bankakerfið leikur lausum hala og fjárfestingarmál eru eitt kviksyndi. Að ekki sé talað um húsnæðislánakerfið sem er beinlínis villimannlegt. Meðan ekki er tekið á þessum málum er ekki von á góðu.

Árásir á velferðarkerfið, árásir á samningsréttinn og þau vinnubrögð sem bera keim af einræðisherrunum í Póllandi og Suður-Ameríku munu ekki koma að liði við lausn á íslenskum vanda. Við verðum að ná sáttum. Við verðum að vinna okkur út úr vandanum. Þá tekst okkur að komast alla leið.

Verkalýðshreyfingin hefur sýnt biðlund. Hún hefur boðið fram útrétta hönd. Þar er vilji til að leysa vandann, komast að niðurstöðu án ruddalegra vinnubragða þeirra sem valdið hafa.

Á fundi Verkamannasambands Íslands, sem haldið var í Vestmannaeyjum um síðustu helgi, var samþykkt ályktun sem bendir á nýjar leiðir — leiðir sem boða betri tíð fyrir hinn fátæka verkamann og verkakonu sem nú eru að sligast vegna þess kaupráns sem framið hefur verið og vegna þeirra dýrtíðar sem yfir dynur. Ekki er vafi á því að verði kalli Verkamannasambandsins sinnt verður sýnd meiri biðlund en ella. Árásir á velferðarkerfið sýna að það skiptir máli hvaða skoðanir menn hafa. Það skiptir máli hvort beitt er úrræðum jafnaðarmanna eða stefnumörkun frjálshyggjupostulanna í Sjálfstfl. Það skiptir máli fyrir hinn vinnandi mann, fyrir þá öldruðu, þá sjúku, fyrir öryrkja og fatlað fólk í þjóðfélaginu. Það skiptir líka máli fyrir þig, sem nú hlustar.

Nú þurfa allir frjálshuga Íslendingar að sameinast í baráttunni gegn árásum á velferðarkerfið, sameinast í baráttunni fyrir betra þjóðfélagi, réttlátara og traustara. Við eigum samleið í þeim efnum. — Góða nótt.