23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

11. mál, launamál

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um launamál sem er staðfesting á brbl. sem sett voru 27. maí s.l. og voru þáttur í víðtækum ráðstöfunum núv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Eins og hv. þm. er öllum kunnugt voru horfur í efnahagsmálum ákaflega alvarlegar í maí s.l., jafnvel á mælikvarða okkar Íslendinga. Eins og í ljós kom við útreikninga á framfærsluvísitölu 1. júní s.l. reyndist verðbólga frá mars til maí vera 131% og fór reyndar vaxandi og mun hafa nálgast 150% eða þar um bil reiknað á ársgrundvelli. Einnig kom í ljós að erlendar skuldir höfðu aukist umfram það sem gert var ráð fyrir. Við nánari athugun reyndust þær vera orðnar um 60% þjóðarframleiðslu. Við þessar aðstæður hygg ég að allir hafi verið sammála um að grípa varð til róttækra ráðstafana til að forða þjóðinni frá þeirri holskeflu verðbólgu, stöðvunar atvinnuvega og atvinnuleysis ásamt erlendri skuldasöfnun sem við blasti.

Það frv. sem hér er fjallað um og er flutt til staðfestingar á einum af fimm brbl. sem sett voru fjallar um launamál. Eru aðalgreinar frv. tvær. 1. gr. fjallar um verðbætur á laun. Samkv. henni er bannað með lögum að binda verðbætur á laun við vísitölu frá 1. júní 1983 til og með 31. maí 1985 og ákveðið jafnframt að engar slíkar tengingar skuli heimilaðar á þessu tímabili. Ég þarf út af fyrir sig ekki að fara mörgum orðum um vísitölubindingu launa. Vísitala hefur verið til umræðu m.a. hér á Alþingi mjög oft. Ég hygg að flestar eða allar ríkisstjórnir á undanförnum árum hafi sett sér að gera nokkrar breytingar á vísitölubindingu launa. M.a. starfaði á vegum síðustu ríkisstj. nefnd að þessum málum lengi og hélt mikinn fjölda funda. Samkomulag náðist þó því miður ekki og leiddi það til þess að hæstv. þáv. forsrh. flutti á eigin vegum frv. hér á Alþingi um þetta mál. Ég hygg jafnframt að flestir geti verið sammála um það að breytingu varð að gera á þessu vísitölukerfi. Ég fyrir mitt leyti harma að samstaða náðist ekki fyrr um nauðsynlegar breytingar til að draga úr þeirri víxlverkun sem varð og verður með svo víðtækri vísitölubindingu sem við höfum búið við.

Við þær mjög alvarlegu aðstæður sem sköpuðust taldi ríkisstj. ekki um annað að ræða en að afnema þessa vísitölubindingu að öttu leyti tímabundið eins og ég sagði til 31. maí 1985. Í stjórnarsáttmála er fram tekið að gert er ráð fyrir að viðræður hefjist á milli aðila vinnumarkaðarins um vísitölu á laun eftir þetta tímabil, eða hvort æskilegt er yfirleitt að hafa slíka vísitölubindingu.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um niðurstöður slíkra viðræðna, en ég vil þó lýsa þeirri persónulegu skoðun minni að vísitölubinding launa verði að vera með allt öðrum hætti en við höfum búið við undanfarin ár, ef slík vísitölubinding á að vera við lýði.

Í 2. gr. frv. er jafnframt ákveðið að hækkanir á grunnlaun skuli vera 8% 1. júní 1983, en þó 10% á lægstu laun, og 4% 1. okt. 1983. Í tveimur síðustu málsgreinum frv., eins og það var upphaflega lagt fram, var jafnframt gert ráð fyrir því að frekari hækkanir yrðu óheimilar frá 25. maí 1983 til 31. jan. 1984 og jafnframt voru allir samningar framlengdir, sem gildandi voru og síðast gildandi, til 31. jan. 1984.

Í meðferð málsins í Nd. hefur þessum tveimur síðustu málsgr. verið breytt að tillögu ríkisstj. þannig, að þetta bann við frekari hækkun grunnlauna er fellt niður. Hins vegar er jafnframt ákveðið að allir samningar skuti lausir frá og með gildistöku þessara laga og þær hækkanir sem um hafi verið samið og áttu að koma til framkvæmda á tímabilinu falli niður. Ástæðum fyrir þessari tillögu ríkisstj. gerði ég grein fyrir í tilkynningu í Sþ. og þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Í fáum orðum vil ég þó nefna að fyrst og fremst liggur til grundvallar betri árangur í hjöðnun verðbólgu en menn þorðu að vona. Við teljum okkur geta staðfest nú að verðbólga verði komin niður fyrir 30% í lok þessa árs. Er það reyndar orðið ef reiknað er á grundvelli framfærsluvísitölu þriggja síðastliðinna mánaða.

Þetta kemur einnig fram í miklu minni hækkun á byggingarvísitölu, sem er jafnvel töluvert fyrir neðan þessi 30% verðbólgumörk sem sett voru. Einnig kemur þetta að sjálfsögðu fram í lækkun vaxta. Vextir hafa nú verið lækkaðir þrisvar sinnum og eru þegar orðnir u.þ.b. 30%, að sjálfsögðu breytilegir eftir innlánum og útlánum og eftir tegundum lána. Ég get jafnframt upplýst að horfur eru góðar á næstu mánuðum og fastlega gert ráð fyrir að fjórða vaxtalækkun verði upp úr miðjum desembermánuði n.k.

Einnig gerði ég grein fyrir því í þessari tilkynningu til Alþingis að horfur í efnahagsmálum eru stórum verri en áður var gert ráð fyrir, fyrst og fremst vegna tillagna Hafrannsóknastofnunar um aðeins 200 þús. tonna þorskafla. Þetta krefst að mati ríkisstj. náins samráðs við aðila vinnumarkaðarins en umrætt ákvæði um bann við hækkun grunnlauna hefur staðið í vegi fyrir slíku. Ríkisstj. vildi því ryðja slíkum þröskuldi úr vegi. Ég get upplýst að ég hef þegar hafið viðræður við formenn launþegasamtaka og vinnuveitenda og munu formlegar viðræður við þessa aðila hefjast strax og frv. er orðið að lögum.

Loks telur ríkisstj. að við núverandi aðstæður sé minni hætta á því að einstakir hópar brjótist út úr og hækki laun langt umfram það sem þeir lægst launuðu hafa hlotið.

Ríkisstj. er fyllilega ljóst að þær aðgerðir sem hér um ræðir þýða verulega kjaraskerðingu. Þær tölur hafa verið birtar og hafa verið vandlega metnar af Þjóðhagsstofnun og aðilum vinnumarkaðarins. Þó að þar beri nokkuð á milli er það þó kannske minna en vænta mátti. Einkum virðist bera á milti í mati þessara aðila á skerðingu ráðstöfunartekna sem Þjóðhagsstofnun telur vera miklu minni en skerðing kauptaxta. Sjálfur er ég ekki í nokkrum vafa um að ráðstöfunartekjur endast stórum betur í minnkandi verðbólgu en í meiri verðbólgu, þ.e. af hlutfalli, sem kemur kannske gleggst fram í því að 15–20% verðbætur á laun voru yfirleitt horfnar út í veður og vind á 2–3 vikum í verðlagshækkunum. Sátu menn þá óbættir eftir í tvo mánuði eða meira af þremur mánuðum verðlagstímabilsins. Fleira slíkt mætti rekja sem reyndar hefur einnig verið rökstutt af forustumönnum launþegasamtaka.

Ég vil upplýsa hér að Hagvangur hf. hefur nýlega gert vandaða könnun á viðhorfum manna til þessarar kjaraskerðingar með tilliti til hjöðnunar verðbólgu. Í könnun Hagvangs, sem framkvæmd er fyrir ýmsa aðila, var jafnframt svohljóðandi spurning: „Ef kjaraskerðing getur haft áhrif til lækkunar á verðbólgu ertu þá sjálfur tilbúinn eða ekki tilbúinn að launahækkanir verði ekki umfram það sem ríkisstj. hefur boðað á næstu 12 mánuðum?“ Menn voru síðan beðnir að merkja við fjóra kosti: 1. Já. 2. Nei. 3. Ef allir gerðu það. 4. Veit ekki.

Meginniðurstöður voru eftirfarandi:

1. Yfirgnæfandi meiri hluti svaraði spurningunni játandi, eða 65.4%. Á móti voru einungis 16%. 11.4% svöruðu „ef allir gerðu það“ og óákveðnir, þ.e. svöruðu „veit ekki“, voru 7.2%.

2. Fólk úti á landi er ívið reiðubúnara til að taka á sig tímabundna kjaraskerðingu til að ná árangri í baráttunni við verðbólguna. Af íbúum höfuðborgarsvæðisins svöruðu 60.6% aðspurðra með jái. Í þéttbýli úti á landi var sama hlutfall 71.3% og í dreifbýli 74.4%.

Viðhorf fólks til þessarar spurningar var einungis að litlu leyti háð kyni, aldri, tekjum, húsnæði, menntun og fleiri þáttum sem athugaðir voru. Niðurstaða þessarar könnunar gefur því ótvírætt til kynna að allur þorri fólks styður ákveðnar aðgerðir, sem beinast gegn verðbólgunni, þó að það þurfi tímabundið að fórna nokkru í því skyni.

Fram kemur m.a. að brúttóúrtak var 1 300 manns, nettóúrtak var 1 167, þar sem náðist ekki í suma, sumir fjarverandi o. s. frv. Svarprósenta af brúttóúrtaki var 76.9% og 85.7% af nettóúrtaki.

Mér virðist að könnun þessi hafi verið mjög vel unnin og vel að henni staðið og tölfræðilega marktæk, eftir því sem venjubundið mat segir til um í þeim efnum. (Gripið fram í.) Niðurstöður þessarar könnunar fékk ég í hendurnar núna fyrir tveimur dögum og fékk heimild Hagvangsmanna til að birta þessar tölur sem ekki hafa verið birtar áður. En ég get aflað þm. nánari upplýsingar um það. Ég er satt að segja með í töskunni tölvuútskrift og fleira sem kann að upplýsa það.

En þrátt fyrir þessar mjög jákvæðu undirtektir, sem svo sannarlega sýna að fólk gerði sér grein fyrir því að svo gat ekki fram haldið sem var með vaxandi verðbólgu og erlenda skuldasöfnun og bera vitanlega vott um mikinn þroska Íslendinga á þessu sviði sem vonandi öðru, þá er ríkisstj. fullkomlega ljóst að þessar aðgerðir hafa orðið þyngstar fyrir þá sem lægstu launin hafa. Skal ég þá víkja að þeim nokkrum orðum sérstaklega vegna spurningar hv. þm. Helga Seljans hér áðan.

Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því, að í því frv. sem var til meðferðar hér áðan er gert ráð fyrir viðbótarhækkun á uppbótum tekjutryggingar og ýmsum öðrum slíkum þáttum. Heimilistryggingar um 5% ef ég man rétt (Gripið fram í: 1. júní.) 1. júní eingöngu, það er rétt. Í öðru lagi hefur ríkisstj. átt viðræður, eins og fram hefur komið, við aðila vinnumarkaðarins og lýst þeirri skoðun sinni að það svigrúm sem er til kjarabóta eigi að nota fyrir þá sem lökust kjörin hafa. En ríkisstj. hefur gert meira en að lýsa því yfir. Ríkisstj. hefur jafnframt samþykkt að veita nokkru fjármagni til að kanna hve stór þessi hópur er og hvernig högum manna er háttað.

Ég hef því látið fara fram athugun á skattaframtölum. Ný forrit hafa verið útbúin og gerð tilraun til að einangra betur en áður hefur tekist í skattaframtölum þá sem undir þessa skilgreiningu mundu falla, þ.e. vera í hópi láglaunafólks. Jafnframt hefur verið samið við kjararannsóknarnefnd um — við getum sagt vettvangsathugun á þessu sviði. Ég get upplýst að ég átti í morgun fund með fulltrúum þeirra stéttarfélaga sem helst teljast í láglaunahópi þar sem ég kynnti þessar aðgerðir ríkisstj. og m.a. hvernig kjararannsóknarnefnd hyggst standa að þessum málum. Og mér er kunnugt um það að kjararannsóknarnefnd mun ræða við fulltrúa. þessara hópa núna alveg næstu daga. Ég held að það byrji í fyrramálið.

Áhersla er lögð á að hraða þessari úttekt svo að hún geti orðið grundvöllur hæði fyrir aðila vinnumarkaðarins, sem hefja viðræður og samninga um kaup og kjör, og sömuleiðis fyrir hugsanlegar aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til þess að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Ég vil taka það fram að að sjálfsögðu er í þessum hópi fólk eins og öryrkjar, ellilífeyrisþegar, einstæðir foreldrar og fleiri. En það er einnig í þessum hópi fólk sem er í lægstu launaflokkum og kann, miðað við erfiðara ástand í þjóðfélaginu, ekki að eiga kost á eins mikilli aukavinnu og áður var.

Ég held því að það sé ákaflega mikilvægt jafnframt að reyna að halda atvinnuöryggi sem bestu og sem mestri atvinnu svo að allir þeir geti fengið atvinnu sem óska og jafnvel eitthvað meiri en lögbundna dagvinnu.

Frá þessu vildi ég skýra, að þetta er sem sagt núna í mjög ítarlegri athugun. Um niðurstöður get ég að sjálfsögðu ekki fjallað, en legg áherslu á að það er fullur vilji hjá ríkisstj. að nota það svigrúm sem er, bæði innan ríkissjóðs, hugsanlega með einhverjum tilfærslum, til lagfæringa á þessu sviði og stuðla að því að aðilar vinnumarkaðarins geti unnið eftir sömu vísbendingum. Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni

þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.