23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

64. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á l. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, en hv. Ed. hefur afgreitt mál þetta. Það er flutt samkv. beiðni stjórnar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins vegna þeirra erfiðleika sem nú eru varðandi sölu á skreið í landinu. Gert er ráð fyrir því að það komi til verulegra greiðslna á verðbótum vegna óseldrar skreiðar og ógreiddrar. Inneign skreiðarinnar í Verðjöfnunarsjóðnum er nú um 220 millj. kr. Það þykir rétt að reyna að hraða þessum greiðslum, þ.e. greiðslum upp í væntanlegar verðbætur vegna þessara sérstöku erfiðleika. Til þess hefur stjórn sjóðsins ekki heimild nema hún verði veitt sérstaklega í lögum. Því er þetta frv. flutt.

Ég vænti þess að hæstv. sjútvn. leiti frekari upplýsinga um mál þetta og hraði afgreiðslu eftir föngum, því að nokkuð er beðið eftir því af þeim aðilum sem hér eiga hlut að máli að hægt verði að greiða fyrir þessari framleiðslu.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hæstv. sjútvn.