18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Á Alþingi fer nú fram umræða um stefnu ríkisstj. Þegar störf og stefna stjórnarinnar eru metin þarf fyrst og fremst að hafa þrennt í huga. Hvar stóðum við í vor, hvar stöndum við í dag og hvert stefnum við í næstu framtíð?

Sérhvert þjóðfélag hvílir á ákveðnum meginstoðum. Stólpar okkar þjóðfélags eru að sjálfsögðu auðlindirnar; hafið, landið, orkan og atgervi og þekking þjóðarinnar sjálfrar. Á þessum meginstoðum hvíla atvinnuvegir þjóðarinnar og frá atvinnulífinu kemur uppspretta lífskjara okkar. Til að þjóðfélagið geti dafnað og framfarir orðið þarf undirstaðan að vera sterk.

Hver var staðan þegar ríkisstj. tók við völdum? Vegna langrar sjálfheldu í stjórnmálum og óraunsæis Alþb. í fyrri ríkisstjórn blasti við stöðvun atvinnuveganna. Afli hafði dregist saman, verðbólgan geisaði með meiri eyðileggingarmætti en nokkru sinni fyrr. Í þessari stöðu var ekkert annað að gera en horfa framan í kaldar staðreyndir og grípa til þeirra aðgerða sem illnauðsynlegar voru. Þetta hefur ríkisstj. gert og þar með forðað því að við lentum út í botnlaust skuldafen og hringiðu verðbólgu, sem aðeins er kunn í stríðshrjáðum ríkjum eins og Ísrael eða vanþróuðum ríkjum herforingjastjórna.

En hvar stöndum við í dag? Þótt atvinnuvegirnir hvíli enn á fremur veikum fótum, þá ríkir þar sókn í stað vonleysis. Vissulega hefur almenningur einnig þurft að færa fórnir. En minnumst þess að atvinnuleysi hefur verið forðað og framtíðin er bjartari en áður.

Enn er staða sjávarútvegsins þó mjög erfið. Útgerðin býr við verulegan taprekstur vegna aflaleysis og hækkandi kostnaðar. Fiskvinnslan á við mikla markaðserfiðleika að etja og aukna birgðasöfnun. Þessir aðilar skilja hins vegar jafnt og allur almenningur í landinu að eina leiðin til að byggja upp lífskjör þjóðarinnar er að draga úr gegndarlausri verðbólgu og erlendri skuldasöfnun.

Enginn mælir á móti því að ríkisstj. hefur þegar náð verulegum árangri í að tryggja undirstöður efnahagslífsins og þar með lífskjara til framtíðar, en þrátt fyrir allt er aðalatriðið hvert við stefnum. Við höfum heyrt hér hvert stjórnarandstaðan stefnir. Málflutningur hennar, sérstaklega Alþb., er því miður, eins og oft áður, í litlu samræmi við raunveruleikann. Þeir segja: Við viljum bæta hag fólksins með stórhækkuðum launum. Þeir segja í reynd: Okkur varðar ekkert um afkomu atvinnuveganna og mögulega nýtingu auðlindanna. Þeir segja: Við viljum auka fjárveitingar og framlög á vegum hins opinbera. Hvernig peninganna er aflað skiptir þá ekki máli. Þeir krefjast eyðslu án tekna. Með því að krefjast framlaga og aukins eyðslufjár án tillits til þess hvað þjóðfélagið aflar setja þessir menn í reynd fram kröfur um stórkostlega erlenda skuldasöfnun. Krafan er því ný íslensk flotkróna. Slík kröfugerð er að sjálfsögðu gegn hagsmunum launþega, enda hefur Alþb. í reynd aldrei varið kjör þessa fólks. Þeir hafa látið slagorðin nægja eins og glöggt kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar.

Einn af foringjum Alþb. sagði í sjónvarpinu í gær að í undirbúningi væri gengisbreyting. Ég fullvissa ykkur um að sá undirbúningur á sér ekki stað hjá ríkisstj. Stjórnin telur að forsenda stöðugs efnahagslífs sé stöðugt gengi. Þessi undirbúningur á sér hins vegar stað hjá stjórnarandstöðunni, sem krefst þess að ráðstafað verði peningum sem ekki eru til. Við verðum öll að sýna þá staðfestu að standast slík innantóm gylliboð. Við skulum því ekki láta blekkjast af fagurgala stjórnarandstöðunnar, sem þýðir í reynd verðbólgu og rýrnun þjóðartekna. Við skulum frekar láta raunsætt mat ráða viðhorfum okkar og stefna jafnt og þétt að auknum þjóðartekjum. Það eitt getur bætt hag okkar sem heildar og tryggt félagslegan jöfnuð.

Sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein sem mestu skilar í gjaldeyrisöfluninni, eða um 77% á næsta ári. Þar fer nú fram verulegt starf til að bæta meðferð sjávaraflans og auka verðmæti, þannig að sjávarútvegurinn geti lagt enn meir af mörkum. Það er einnig unnið að því að endurbæta þann flota sem fyrir er í landinu og leitað leiða til þess, þannig að hann geti komið með betri afla að landi, í stað þess að byggja sífellt dýrari og dýrari skip sem enginn fær séð hvernig skuli greidd.

Við gerum okkur að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að arðbær fjárfesting er það sem meginmáli skiptir um kjör þjóðarinnar í framtíðinni. En fjárfestingin skilar sér ekki í auknum tekjum fyrr en síðar. Góð fjárfestingarstjórn byggist á framsýni, en það að bíða eftir árangri krefst þolinmæði. Sjávarútvegurinn væntir skilnings í þjóðfélaginu, þannig að hann geti nú sem fyrr verið undirstaða þjóðfélagsins og haldið áfram að fjárfesta þjóðinni til heilla.

Hér í umr. hafa verið settar fram kröfur um að kjarasamningar væru frjálsir. Slíkt er sjálfsagt og eðlilegt. En við verðum jafnframt að vera þess minnug undir hvaða kringumstæðum var gripið inn í og að lýðræðislega kjörinn meiri hluti verður að hafa svigrúm til að grípa til neyðaraðgerða séu aðstæður með þeim hætti. Annars verður þjóðfélaginu ekki stjórnað.

Á næstunni þurfa að fara fram kjarasamningar. Þeir samningar verða að sjálfsögðu að taka tillit til þeirrar stöðu sem við nú stöndum frammi fyrir. Þar þarf fyrst og fremst að stefna að því að innbyrðis samkomulag geti orðið um skiptingu raunverulegra þjóðartekna. Þar þarf að taka tillit til þess að hinir lægst launuðu verða að bera meira úr býtum þegar illa árar. Það er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins beini sjónum sínum að þessari staðreynd í stað þess að hrópa sífellt á skiptingu einhvers sem ekki er til. Þetta leiðir til þess að hinir verr settu verða alltaf undir, eins og reynslan sannar ótæpilega.

Við Íslendingar stöndum vissulega á tímamótum — tímamótum sem geta orðið örlagarík. Þar mun framtíð þjóðarinnar ráðast og þá er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að menn afneiti lýðskrumi og upphrópunum, eins og við höfum orðið að nokkru leyti vitni að í kvöld. Hvernig tekst til er undir okkur sjálfum komið. Ég bið þig, hlustandi góður, að íhuga í fullri alvöru: Hvar stóðum við í vor og hvar stöndum við í dag? Íhugir þú svörin við þeim spurningum gaumgæfilega, þá veit ég að þú kemst að þeirri niðurstöðu að ríkisstj. stefnir í rétta átt, fram á veg. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.