23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mikilsvert mál út af fyrir sig, þar sem eru gæðamál sjávarafurða og hvernig haga skuli mati á þeim. Hv. 4. þm. Suðurl. Garðar Sigurðsson hefur lýst hér viðhorfum, sem ég get almennt tekið undir í sambandi við þessi efni, þá miklu þýðingu sem það hefur að við náum sem mestu út úr okkar sjávarfangi á öllum ferlinum frá veiðum til markaðar. Og auðvitað skiptir matið og eftirlit þar verulegu máli um hvernig til tekst. Spurningin er um það hversu gildur þáttur það er sem hér er til umræðu og þær breytingar sem hér er verið að leggja til.

Ég vil taka það strax fram að ég er síður en svo á móti því að yfir þessi mál sé farið og menn leiti leiða til þess að bæta það sem menn telja að aflaga fari og gæti horft til heilla í sambandi við það markmið að fá sem mest út úr okkar sjávarafla. Það getur auðvitað enginn haft á móti því. En ég hygg að menn líti nokkuð misjöfnum augum á þær aðferðir sem beita beri og þá stefnu einnig sem dregin er upp að hluta til í þessu frv. í sambandi við Fiskmatsráðið alveg sérstaklega og aukna hlutdeild hagsmunasamtaka í matinu. Ein stærsta breytingin sem hér er á ferðinni varðar að auka hlutdeild og ábyrgð hagsmunaaðila í sjávarútvegi á þessum mátum eins og hv. 4. þm. Suðurl. vék að og fram kom einnig í máli hæstv. ráðh.

Ég er þeirrar skoðunar að meginvandinn í okkar gæðamálum sé ekki í matinu sem slíku, heldur kannske enn írekar og áreiðanlega enn frekar í því hvaða tilhögun er varðandi veiðarnar og hvernig fiskurinn er færður að landi. Auðvitað kemur inn í þetta síðan vinnsluþátturinn, en afurð verður aldrei betri en það hráefni sem á land er fært. Og þá kemur spurningin: Er með breyttum matsreglum hægt að tryggja að við fáum betri afla til úrvinnslu en verið hefur? Ég vil ekki fullyrða neitt um það að ekki sé hægt að ná einhverjum árangri eftir þeirri leið sem hér er um fjallað og sem hefur verið í verksviði Framleiðslueftirlits sjávarafurða

og hjá ferskfiskmatinu, en þeir sem þar hafa starfað hafa talið að þeir byggju ekki við þann aðbúnað sem þyrfti til þess að geta rækt sitt hlutverk sem skyldi. Um þetta hafa staðið nokkrar deilur.

Ég held að menn þurfi að gefa verulegan gaum að tilhögun veiðanna og þeim þáttum sem snerta líkurnar á því að aflinn, sem menn færa að landi, sé í sæmilegu ástandi. Þar hefur skort verulega á á liðinni tíð og er nokkuð ríkur skilningur á því — og ég held vaxandi að þar þurfi að breyta til í ýmsum efnum. Þar nefni ég t.d. tilhögun netaveiðanna og þýðingu þess að virtar séu reglur um netafjölda og hversu lengi net eru í sjó, þannig að menn komi ekki með gallað hráefni að landi úr slíkum veiðiskap.

Sama gildir um úthaldstíma togaranna. Hér hafa ekki verið settar sambærilegar reglur og í Noregi t.d. um úthaldstíma togara, sem veldur því að aflinn er í mörgum tilvikum miklu lakari en skyldi, sem komið er með í land, kannske eftir 9–10 daga úthald. Ég held að Norðmenn miði við svona 6 sólarhringa úthald togara eða ekki miklu meira og hafa sett um það ákveðnar reglur. Við þyrftum að líta til þess að þarna verði á breytingar hið fyrsta.

Sama gildir í rauninni um hámarksafla sem færður er að landi. Við þurfum kannske ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því nú, því miður, eins og horfir með þorskveiðarnar, en þar gildir auðvitað það sama, að eðlilegt er að þar séu ákveðnar reglur settar.

Varðandi veiðibúnað gildir það einnig. Að því þurfa menn að gefa gaum. Nú er til umræðu að stöðva veiðar með flotvörpu og hafa verið gerðar um það tímabærar samþykktir, ég held á þingi LÍÚ, ekki vegna þess að flotvarpa þurfi endilega að skemma eða eyðileggja fisk, heldur vegna þess að hún hefur verið misnotuð og menn hafa tekið þar allt of stór köst og ekki nýtt það tæki sem skyldi. Það er út af fyrir sig ekki hægt að hafa á móti bættri tækni í sambandi við veiðar, en öllu skiptir þá að henni sé beitt þannig að ekki bitni á hráefninu.

Það er í þessa átt sem þarf að beina athyglinni jafnframt og alveg sérstaklega í sambandi við gæðamál í þeim afla sem að landi er færður. Auðvitað getur verðlagning og flokkun á fiski í verðflokka hjálpað til, ef þar er eðlilega á haldið, en það þarf engan veginn að vera samræmi á milli flokkunar fisks í mismunandi verðflokka og þess sem síðar kemur út úr vinnslunni. Það er engin trygging fyrir því.

Hins vegar held ég að það hafi verið mistök, sem gerð voru hér fyrir tveimur árum, að minnka verðbil milli flokka, það hafi horft til öfugrar áttar, og vissulega skiptir ferskfiskmatið og flokkunin þar einnig máli. En ferskfiskmatið hefur sérstaklega verið grundvöllur í sambandi við hlutaskipti, í sambandi við verðið til sjómanna, og meira þjónað þeim tilgangi en að vera bein trygging fyrir því að góð afurð fengist á lokavinnslustigi.

Ég ætla hér, herra forseti, ef leyft verður, að vitna til ummæla manns sem hefur látið sig þessi efni mikið skipta um langt skeið og skrifað öðrum mönnum meira um gæðamál í íslenskum sjávarútvegi. Það er Jóhann Kúld, sem allir þekkja, a.m.k. þeir sem um þessi mál eitthvað hugsa og þeir sem lesa Þjóðviljann, því að hann hefur skrifað þar um langt skeið greinar um fiskimál. Þann 16. ágúst s.l. birtist þar grein eftir Jóhann Kúld um gæði íslenskra fiskafurða og markaði.

Ég vil leyfa mér hér að vitna til orða hans og lesa hluta af þessari grein hans. Hann segir:

„Þrátt fyrir margs konar mistök við fiskveiðar og vinnslu, þá hefur okkur Íslendingum ennþá tekist að vera yfirleitt með gæðavöru á freðfiskmörkuðum. Þetta ber tvímælalaust að þakka sameiginlega Framleiðslueftirliti sjávarafurða og eftirlitsmönnum sölusamtaka frystihúsanna og góðri samvinnu þarna á milli. Verði slakað á hinu opinbera eftirliti þarna, þá veikist um leið aðstaða eftirlits sölusamtakanna. Þetta er lögmál sem ekki verður komist fram hjá. Því segi ég þetta, að í grg. með frv. sem Steingrímur Hermannsson lét semja á meðan hann var sjútvrh.“ — ég skýt því inn að ég held að þetta sé í öllum meginatriðum sama frv. sem hér er á ferðinni og það sem kynnt var fyrir takmörkuðum hópi manna á s.l. vori — „og leggja á fyrir næsta Alþingi; þar er gert ráð fyrir því að útgjöld við útflutningsmat verði skorin niður um helming. Yrði þetta frv. samþykkt, þá tel ég að verið væri að stofna fiskmörkuðum okkar í mikla tvísýnu hvað freðfiskinn áhrærir. Þau mistök sem gerð hafa verið á síðustu árum í saltfisk- og skreiðarmati hef ég áður rakið til þeirrar reglugerðarbreytingar þegar fiskeigendur fengu að stórum hluta húsbóndavald yfir matsmönnum sem hjá þeim vinna,“ en um þetta fjallar hann fyrr í sömu grein og fyrri þáttum.

„Umrætt frv. Steingríms Hermannssonar er ekki aðeins afturför frá núgildandi lögum, heldur líka hættulegt gagnvart okkar fiskmörkuðum að mínum dómi. En núverandi fiskmörkuðum er okkur ekki aðeins lífsnauðsynlegt að halda, heldur þurfum við að geta aukið söluna þar á allra næstu tímum. Aðalbreyting frá núgildandi lögum sem felst í frv. er sú að opinbert eftirlit á útflutningsmati sjávarafurða á að minnka frá því sem nú er, en í staðinn á að koma aukið eftirlit framleiðenda. Þeir eiga líka í raunveruleika að fá í sínar hendur yfirstjórn þessarar nýju stofnunar sem á að heita samkv. frv. „Ríkismat sjávarafurða“. En þrátt fyrir nafnið, þá yrði hér ekki lengur um raunverulegt ríkismat að ræða, heldur framleiðendamat ef frv. yrði samþykkt. Nú er það svo, að sumir framleiðendur eru mjög vandaðir gagnvart sinni framleiðslu, en aðrir eru það ekki í jafnríkum mæli og markaðsþörfin krefur. Það er fyrst og fremst gagnvart þessum hluta framleiðenda sem ríkismatið hefur oft orðið að standa sem óháður dómari og kveða upp sinn úrskurð til þess að koma í veg fyrir að óhæfar afurðir færu á markað. Þetta segja „spekingarnir“ sem sömdu frv. að hægt sé að gera með því að gera hvern framleiðanda ábyrgan fyrir sinni vöru. Þetta hljómar að vísu fallega, en reynslan af framleiðendamati þeirra þjóða, sem reynt hafa, er bara allt önnur en góð.

Norðmenn bjuggu í fjölda ára við svipað útflutningsmat og frv. Steingríms vill innleiða hér. Þetta leiddi til lélegri framleiðslu en markaðirnir vildu fá, og þar með til þjóðhagslegs skaða. Það var eftir þessa reynslu sem Norðmenn tóku upp óháð mjög strangt ríkismat á öllum útfluttum sjávarafurðum. Eftir breytinguna hafa gæði norskrar fiskútflutningsframleiðslu stórbatnað og njóta þeir nú góðs álits á fiskmörkuðum. Sá maður sem vildi færa norskt útflutningsmat í fyrra horf mundi tæpast vera talinn með öllum mjalla þar í landi. Svipaða sögu er hægt að segja frá Kanada. Þar hafa framleiðendur haft of mikil áhrif á útflutningsmat fiskafurða. Þetta hefur leitt til þess, að þeirra freðfiskur er lægra metinn á Bandaríkjamarkaði heldur en okkar fiskur eða fiskur frá öðrum löndum við Norðvestur-Atlantshaf, enda greitt fyrir fisk Kanadamanna mun lægra markaðsverð. Það er sagt að stjórnvöld í Kanada hafi nú hug á því að breyta þessu og þá helst að hafa Norðmenn sér til fyrirmyndar.

Það er því nauðsynlegt að bæði fiskframleiðendur og alþm.“, segir Jóhann Kúld, „kynni sér vel þetta mál, áður en þetta vanhugsaða frv. verður lagt fyrir Alþingi á komandi hausti, en það hefur verið boðað. Hvers vegna er óháð ríkismat nauðsynlegt? Það hefur tvennan tilgang. Það á að vera óháður fulltrúi jafnt kaupenda sem seljanda vörunnar og tryggja að gæði hennar standist. Þá á slíkt óháð ríkismat fiskafurða einnig að hafa það hlutverk að tryggja sjálft þjóðfélagið gegn fjárhagslegum skaða sem verður ef fiskafurðir sem ekki uppfylla gæðakröfur markaðanna eru framleiddar og fluttar út. Fiskafurðir eru í flestu formi vandmeðfarin og viðkvæm verslunarvara. Þess vegna beita jafnt hægrisinnaðar sem vinstrisinnaðar ríkisstjórnir óháðu ríkismati við fiskútflutning til að verja þjóðfélagið fyrir skakkaföllum“.

Ég taldi ómaksins vert, herra forseti, að kynna viðhorf þessa reynda manns, sem hefur látið sig gæðamál íslensks sjávarafla og íslenskra sjávarafurða meira máli skipta en flestir aðrir. Ég vek alveg sérstaklega athygli á því sem hann segir varðandi reynslu nágrannaþjóða og tilhögun t.d. Norðmanna í sambandi við mat á sjávarafurðum. Ég inni eftir því, ég held að það væri rétt að fá það fram hjá hæstv. ráðh., hvort litið hafi verið á reynslu nágrannaþjóða í þessum efnum, mér finnst að vísu mjög ósennilegt annað en að það hafi verið gert við undirbúning jafnþýðingarmikils máls og þessa, og hvaða ástæður liggi fyrir því að ætla að taka hér upp annan hátt á en gildir í Noregi, eftir því sem fram kemur hjá Jóhanni Kúld í því sem ég vitnaði til í hans máli.

Ég vil svo að endingu aðeins segja það, að mér finnst sjálfsagt að líta á mál af þessu tagi í nefnd og líta af velvilja á allt sem til betri vegar getur horft í svo þýðingarmiklu máli, og ekki vil ég útiloka að eitthvað leynist til bóta í því frv. sem hér er lagt fyrir, en ég dreg verulega í efa að það sé feitan gölt að flá í þeim breytingum sem þar er verið að leggja til í sambandi við að auka afrakstur okkar sjávarafurða, en á því er vissulega mikil þörf.

Fjárveitingar í þessu skyni þurfa auðvitað að vera þannig sniðnar, að það eftirlit sem lög bjóða sé framkvæmt og framkvæmanlegt og farið sé ofan í þær reglugerðir og þau fyrirmæli sem matsmönnum eru gefin og er ætlað að vinna eftir. Það skiptir vissulega máli. Ég hygg að þar mætti margt bæta frá því sem nú er en ætla ekki að orðlengja þetta frekar hér og nú.