23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. spurði að því í ræðu áðan, hvers vegna ræðumenn í þessari umr. legðu áherslu á að þetta frv. leysti ekki neitt. Það er mjög einföld skýring á því, hæstv. sjútvrh. Þetta frv. leysir ekki neitt af þeim meginvandamálum sem hafa sett svip sinn á gæðamál íslenskra sjávarafurða. Ég fylgdist mjög nákvæmlega með því í framsöguræðu hæstv. ráðh. að hann gat ekki bent á að frv. mundi leysa eitt einasta atriði af þeim vandamálum sem sett hafa svip sinn á gæðaeftirlit í sjávarútvegi, enda kom það mjög skýrt fram hjá hæstv. ráðh. áðan að hann kom ábyrgðinni af þessu frv. á kurteislegan hátt af sér með því að benda rækilega á að málið ætti sér langan aðdraganda. Hér fyrr í umr. kom hinn raunverulegi faðir þessa frv., hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, upp í ræðustólinn og með orðavali og öllum stíl ræðu sinnar gaf hann greinilega til kynna að hann ætti þennan króa.

Það væri rétt, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. væri viðstaddur þessa umr., miðað við það tilkall sem hann gerði fyrr í umr. til að eigna sér þetta frv. og til þess að ræðumenn í þessum umr. geti átt orð við hæstv. forsrh. um gæðamál í sjávarútvegi á undanförnum árum, vegna þess að hann hefur farið með stjórn þeirra mála hér síðan 1980. Öll þörf á endurbótum á þessu sviði hlýtur þá að stafa af því að í hans ráðherratíð hafi ástandið ekki verið sem skyldi. — Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gert ráðstafanir til þess að náð verði í hæstv. forsrh.

Það hefur þegar komið fram í þessum umr., að með þessu frv. er gerð sú meginbreyting á gæðamati sjávarafurða á Íslandi að framleiðendur eiga í senn að annast matið að verulegu leyti og hafa meiri hluta í þeim úrskurðardómstóli sem kveður upp úr með ágreiningsefni á þessu sviði. sagt er að það sé niðurstaða langvinnrar umræðu að þetta sé talið æskilegt form og jafnvel gefið í skyn að þeir sem best þekkja til og mesta reynslu hafa í þessum málum telji að svo sé. Ég fullyrði að það er rangt. Það er til fjöldinn allur af fólki, og ég hef rætt við marga úr þeim röðum sem hafa mikla reynslu af gæðamálum í sjávarútvegi, sem telur það eitt hið versta sem gæti komið fyrir skipan þessara mála að framleiðendunum verði afhent það mikla vald sem hér er gert varðandi gæðamálin.

En svo er reyndar annað í þessu frv. sem ég tel ekki síður vera grundvallaratriði. (Forseti: Hæstv. forsrh. hefur haft samband við mig og hann kveðst vera að mæla fyrir máli nákvæmlega á þessari stundu í Ed.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Við skulum sýna ráðh. umburðarlyndi og vonast til þess að hann komi hingað sem fyrst.

Ég get rætt aðeins um seinna atriðið á meðan, vegna þess að það snýr aðallega að Sjálfstfl. Ég get skilið að Framsfl. standi að því ákvæði í frv., en mér finnst öllu merkilegra að gjörvallur Sjálfstfl. hér á Alþingi og ráðherrar hans í ríkisstj. skuli standa að frv. sem leggur þetta til.

Þetta ákvæði er ósköp sakleysislegt í frv. Það er í raun og veru ekki nema ein lína í frv. og það fer ekki mikið fyrir útskýringum á því í grg. En afleiðingarnar af þessu ákvæði væru þær að færa meira pólitískt vald yfir hagkerfinu á Íslandi í hendur eins manns en nokkur önnur breyting sem hér hefur verið gerð hefur haft í för með sér. Og ég spyr: Er það stefna Sjálfstfl. að færa valdið yfir framleiðslunni í sjávarútveginum eins og hún leggur sig í hendur á pólitískum ráðh. úr Framsfl. eins og hann er núna? (StG: Og vonandi verður.) Og vonandi verður, segir hv. þm. Stefán Guðmundsson. Hann veit nefnilega alveg hvað þetta ákvæði þýðir. Hann veit til hvers Framsfl. ætlað að nota það. (StG: Það er í góðum höndum.) Hann veit til hvers forstjóravaldið í SÍS ætlar að beita þessu ákvæði. Hann segir að það sé í góðum höndum. Það ber að virða svona hreinskilna menn. Þeir eru ekkert að skafa utan af því, hvað þeir ætlast fyrir. Og hvernig er þetta ákvæði í 17. gr. frv.? Jú, þar segir: „Framleiðsla á sjávarafurðum til útflutnings er óheimil án sérstaks leyfis sjútvrh.“ Í grg. kemur skýrt fram að þetta á við alla framleiðslu í sjávarútvegi eins og hún leggur sig, stóra og smáa, í hvaða grein sem er, frystingu, saltfiski og á öðrum sviðum, hvort sem um er að ræða lítið fyrirtæki eða stórt, nýtísku frystihús eða skúrasöltun á saltfiski. Það þarf að sækja um leyfi til sjútvrh. til að fá að framleiða á þessu sviði.

Ég bið hv. þm. að hlusta vel, sérstaklega þm. Sjálfstfl., og sérstaklega sérstakan talsmann minnkandi ríkisafskipta, hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson, vegna þess að þótt honum tækist nú að krukka í eitt og eitt ríkisfyrirtæki er þetta frv., sem hann hefur hér flutt, tillaga um meiri ríkisafskipti í íslensku hagkerfi en nokkru sinni hafa þekkst. Þetta ákvæði hefur í för með sér, að um leið og þessi lög taka gildi yrði sérhver af þeim hundruðum einstaklinga og fyrirtækja í sjávarútvegi á Íslandi, sem hann stunda í dag, að skrifa bréf til Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. sjútvrh., og Halldór Ásgrímsson, hæstv. sjútvrh., hefði þá í hendi sér að grisja þennan skóg. Ég er ekki að segja að hann ætti að gera það, en hann gæti t.d. samkv. þessum lögum lagt niður, svo ég noti orð hæstv. fjmrh., með einu pennastriki öll frystihús Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eins og þau leggja sig. Með þessu frv. er ráðh. veitt vald til að leggja niður öll frystihús Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna með einu pennastriki. Og hann getur líka tekið úr umferð alla einstaklinga sem fást við fiskverkun með einu pennastriki svo að Sambandið standi eitt sér. Að þessu stendur Sjálfstfl. (Gripið fram í: Ert þú á móti því?) Já, ég er á móti þessu ákvæði. Og ef þið hafið ekki manndóm í ykkur til að flytja brtt. um þetta ákvæði mun ég gera það. Að þessu stendur sú ríkisstj. sem hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson er fulltrúi fyrir. Og svo er verið að sviðsetja einhvern grínleik um að selja Umferðarmiðstöðina á höfuðborgarsvæðinu eða Landssmiðjuna eða einhver minni háttar fyrirtæki, á meðan Framsfl. smyglar því inn í stjfrv. pent og rólega að nú þurfi vottorð frá hæstv. sjútvrh. Halldóri Ásgrímssyni til að mega reka frystihús á Íslandi. Ég bið hv. þm. að taka eftir því, að í frv. eru engin ákvæði sett um hvernig ráðh. skal beita þessu valdi, ekki eitt einasta ákvæði. Hann hefur algjörlega í hendi sér hvernig hann beitir því. Og enginn annar aðili í þjóðfélaginu gæti gert neitt ef honum líkaði ekki hvernig ráðh. beitir þessu valdi. Ég fullyrði að ekki í einu einasta lagafrv. sem hér hefur sést í áratugi hefur verið lagt til að jafnmikið pólitískt vald yrði skapað yfir hagkerfinu á Íslandi, flokkspólitískt ráðherravald. Og að þessu standa frjálshyggjupostularnir sjálfir. (Fjmrh.: Fjármálaráðherrann.) Fjármálaráðherrann játar núna að hann stendur að þessu. Það er gott að eiga það í þingskjölunum að hæstv. fjmrh. hafi aldrei slíku vant vitað hvað hann var að gera þegar hann stóð að því að flytja þetta stjfrv., að hann þurfi ekki í þessu tilviki að skrifa bréf til sjútvrh. eins og hann þurfti að skrifa bréf til Seðlabankans til að fá að vita hvað væri í frv. Þannig liggur alveg skýrt fyrir að það er stefna Alberts Guðmundssonar, hæstv. fjmrh., eins og hann var að játa fyrir einni mínútu og kemur aftur til að endurtaka játninguna, að pólitískur ráðh. eigi að fá vald til að leggja niður Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eftir hádegi 2. jan., ef þessi lög taka gildi 1. jan., því varla verður hæstv. sjútvrh. svo bráðlátur að hann byrji á þessu 1. jan.

E.t.v. kalla menn þetta ýkjur, en þetta eru engu að síður ákvæði þessa frv. (Gripið fram í: Ekki úr þessari átt.) Frá ríkisstj.? (Gripið fram í: Nei, þeirri átt sem það kom úr.) Þetta er kannske líka stefna Alþfl. Það væri nú óskandi að formaður Alþfl. kæmi upp á eftir og upplýsti þm. um hvort það er líka pólitísk stefna Alþfl., og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gerði það líka vegna þess að maður treystir því ekki nema báðir játi því, að færa slíkt vald yfir grundvallaratvinnuvegi landsmanna á eina hendi.

Ég verð að segja eins og er, að ég skil ekki hvaða tilgangi það á að þjóna í þessu frv. um ríkismat sjávarafurða að skjóta inn í það þessu ákvæði. Það hefur ekkert með þessi vandamál að gera, það hefur ekkert með gæðaumræðuna að gera og það geta ekki verið annað en einhverjar annarlegar pólitískar ástæður þarna að baki.

Herra forseti. Í raun og veru má segja að það séu nokkur höfuðatriði sem setji svip sinn á þetta frv. Og ég hef aðeins vikið að fyrstu tveimur.

Það er í fyrsta lagi varðandi hagsmunaaðilana í sjávarútvegi. Ég vek reyndar athygli á því að í frv. er hvergi að finna nákvæma skilgreiningu á því hverjir þessir hagsmunaaðilar eru, hún er ekki til í frv., heldur er líka lagt á vald ráðh. eins að skilgreina hverjir það eru. Hann á að velja fulltrúa hagsmunaaðilanna. Hagsmunaaðilarnir eiga ekki að gera það sjálfir, heldur á pólitískur fulltrúi flokks sem hefur fengið rn. til meðferðar í það og það sinn að velja úr hinum fjölmenna hópi hagsmunaaðila í sjávarútvegi þá sem hann telur góða og gilda og veita þennan mikla rétt. En þótt það sé mjög nákvæm skilgreining á því í 1. gr. frv. hvað sé fiskur, mjög nákvæm og skýr, er hvergi að finna skilgreiningu í frv. á því hvað sé hagsmunaaðili, þótt það sé samkv. frv. meginþáttur þess gæðaeftirlits sem þetta frv. á að lögleiða. — Ég sé að hv. þm. kann illa við sig í ráðherrastólnum og er raunar búinn að flytja sig aftarlega í salinn, og það er ágætt.

Annað atriðið, sem ég hef þegar vikið að, er hið mikla pólitíska vald yfir því hverjir fá að framleiða í sjávarútvegi á Íslandi, sem er gert algjört með þessu frv.

Þriðja atriðið er það, að hér er haldið í þveröfuga átt við það sem helstu keppinautar okkar eru að gera í sjávarútvegi. Kanadamenn og Norðmenn, sem eru helstu keppinautar okkar í sjávarútvegi, hafa yfirleitt unnið að því á undanförnum misserum að efla óháð mat opinberra aðila, þar sem framleiðsluaðilar fá ekki úrskurðarvald. Og þeir hafa, sérstaklega í Kanada, litið á Ísland, þar sem slíkt kerfi hefur verið ríkjandi, sem fyrirmynd í þessum efnum. Sú sterka staða sem Kanadamenn hafa smátt og smátt verið að fá á Bandaríkjamarkaðnum og ógnar nú mjög stöðu íslensks sjávarútvegs á þeim markaði, og það er nauðsynlegt að þingheimur geri sér grein fyrir því, er m.a. fengin með því að þeir hafa tekið að beita hliðstæðum aðferðum í mati á gæðum sjávarafurða og við höfum beitt hér. En þegar þeir eru að styrkja markaðsstöðu sína með því að fylgja okkar aðferðum ætlum við að fara að kollvarpa okkar kerfi og taka upp þær leiðir og aðferðir sem helstu keppinautar okkar hafa hafnað.

Í fjórða lagi er í þessu frv. lagt til að taka upp hliðstætt innra skipulag á starfsemi þeirrar stofnunar sem um þessi mál á að fjalla og tíðkaðist fyrir einum og hálfum áratug, en menn voru þá sammála um að leggja niður. (Forseti: Mig langar að spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi langan tíma eftir af ræðu sinni.) Herra forseti. Ég á alla vega eftir þann kafla sem var sérstaklega ætlaður hæstv. forsrh. og fyrrv. sjútvrh. (Forseti: En hugmyndin er sú að fresta þessum fundi þangað til kl. hálfníu í kvöld. Svo verður að vera, vegna þess að það er búið að boða þingflokksfundi, og því verður nú fundi frestað ef hv. ræðumaður vill fresta ræðu sinni þangað til.) Já, með ánægju fresta ég umr. þangað til. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar þingfundi var frestað fyrr í dag hafði ég vikið að nokkrum megingöllum á því frv. sem nefnt er frv. um ríkismat sjávarafurða en er í reynd rangnefni miðað við innihald frv. Væri nær að frv. bæri heitið: frv. til l. um framleiðendamat sjávarafurða, því innihald frv. felur í sér að afnema hið óháða ríkismat á afurðum sem hér hefur verið við lýði.

Ég ætla í upphafi ræðu minnar hér í kvöld að endurtaka með fáeinum orðum þau meginatriði sem ég hafði vikið að til að samhengi fáist í umfjöllun málsins.

Í fyrsta lagi hafði ég bent á að hvorki í grg. frv. né í framsöguræðu hæstv. sjútvrh. væri að finna greiningu á því hver væru meginvandamálin varðandi gæðaeftirlit sjávarafurða á Íslandi og þaðan af síður væri leitast við í grg. frv. né heldur í framsöguræðu hér að skýra á hvern hátt þetta frv. leysti þau meginvandamál sem þar væri við að glíma.

Í öðru lagi hafði ég vakið athygli á því, að bæði núv. hæstv. sjútvrh. og fyrrv. hæstv. sjútvrh., núv. forsrh., gáfu greinilega til kynna í ræðum sínum að í reynd væri hér um að ræða frv. frá fyrrv. sjútvrh. og núv. hæstv. forsrh. — Og skil ég reyndar ósköp vel, eins og ég mun koma að síðar, hvers vegna jafngreindur, raunsær og athugull maður og núv. sjútvrh. vill greinilega koma því að í umfjöllun um málið að hann eigi takmarkaðan höfundarrétt að þessu frv. Því ég efast ekki um að ef hann hefði haft jafnlangan tíma og fyrrv. hæstv. sjútvrh., rúm þrjú ár, til þess að skila af sér frv., þá hefði það verið öðruvísi en það sem hér liggur fyrir.

Í þriðja lagi hafði ég bent á að með þessu frv. er verið að veita hagsmunaaðilum í landinu verulegt vald yfir gæðamálum sjávarútvegsins með því að gera þá að meirihlutaaðila í stjórn og dómstól þessarar stofnunar — ég endurtek: í dómstól gæðamatsins sjálfs — og einnig með því að veita fulltrúum framleiðenda verulegan aðgang að matinu sjálfu hvað snertir störf yfirmatsmanna, ennfremur með því að gefa framleiðendum og hagsmunaaðilum verulegan íhlutunarrétt um ráðningu manna til að stjórna þessari stofnun.

Í fjórða lagi hafði ég vakið athygli á því, að með þessu frv. er verið að veita ráðh., póltískum fulltrúa, meira vald en nokkru sinni fyrr í sögu íslenskra atvinnumála. Reyndar fullyrti ég, og bið hv. alþm. að reyna að afsanna það ef þeir geta, að það hefði ekki komið fram hér á þingi í áratugi tillaga eins og sú sem er að finna í einni setningu í 17. gr. frv., um að gera pólitískan aðila jafnallsráðandi í framleiðslu- og markaðskerfi landsins og hér er lagt til. Fingraleikfimi núv. hæstv. fjmrh. um breytingar á ríkisfyrirtækjum verður nánast eins og vasapóker í samanburði við (Gripið fram í.) þær stórfelldu breytingar sem hér eru lagðar til hvað snertir gífurlega aukningu á áhrifavaldi ríkisins í íslenska hagkerfinu.

Í fimmta lagi benti ég á að í þessu frv. er hvergi að finna skilgreiningu á þeim hagsmunaaðilum sem þó eiga samkv. frv. að vera aðalhreyfiafl gæðamatsins sjálfs. Er það sérkennilegt ef tillit er tekið til þess, að í 1. gr. frv. er að finna mjög nákvæma skilgreiningu á því hvað sé fiskur. Ráðh. á samkv. frv. að fá ótakmarkað vald til að velja úr og skilgreina þá hagsmunaaðila sem eiga skulu aðild að gæðamatinu. Bæði á ráðh. að geta skilgreint hvað sé hagsmunaaðili, í öðru lagi á hann að geta valið þau samtök sem þar koma til greina og í þriðja og síðasta lagi á hann að velja einstaklingana sem eiga að vera fulltrúar þessara samtaka. Og ég spyr: Er til nokkurt annað svið í þessu þjóðfélagi þar sem ráðh. er falið annað eins vald yfir starfsemi hagsmunasamtaka á Ístandi? Ég fullyrði að svo er ekki. Hér er verið að gera hagsmunasamtökin í landinu að þrælasviði sjútvrh. á hverjum tíma. Mig undrar, og ég endurtek það, að þm. Sjálfstfl. og ráðh. Sjálfstfl. skuli standa að slíku frv. Og ég spyr, vegna þess að það er nauðsynlegt að það komi hér fram: Er þetta stefna Sjálfstfl.? Er þetta stefna Matthíasar Bjarnasonar? (Gripið fram í.) — Ég heyri að hæstv. fjmrh. spyr í hliðarsal: Hvað er hér verið að tala um? Þetta er greinilega ekki eina málið sem hæstv. ráðh. veit ekki um hvað snýst. Hann gæti kannske fylgt fordæmi sínu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðsmálinu og sent hæstv. sjútvrh. bréf og óskað eftir nákvæmum svörum um hvað í þessu felst.

En ég spyr þm. Sjálfstfl. hér: Er það virkilega stefna Sjálfstfl. að fela pólitískum ráðh. svo þríþætt afgerandi vald yfir hagkerfinu á Íslandi? Sá ráðh. sem fær sjávarútveginn í greip sína með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir er orðinn slíkur kommissar yfir hagkerfinu í landinu að litlu kommissararnir við Rauðarárstíg eru hreinir dvergar samanborið við það.

Í sjötta lagi benti ég á að samkvæmt þessu frv. er gengið í þveröfuga átt við það sem helstu samkeppnisaðilar okkar hafa gert, Norðmenn og Kanadamenn. Þessar tvær þjóðir hafa á undanförnum árum kappkostað að skapa sér sterka markaðsstöðu og hafa nú náð slíkum árangri að markaðsstaða Íslendinga á dýrmætasta fiskmarkaði okkar er í verutegri hættu. Og hvernig hafa þeir gert það? Jú, þeir hafa gert það m.a. með því að taka til fyrirmyndar þær aðferðir og það kerfi við uppbyggingu gæðamats á sjávarafurðum sem við höfum beitt hér í landinu. Þegar samkeppnisaðilar okkar eru að ná slíkum árangri ætlum við allt í einu að umturna öllu. Með hvaða rökum? Með engum sjáanlegum rökum um það, á hvern hátt þetta kerfi kunni að leiða til bætts eftirlits.

Ég vil svo bæta við hvað þetta efni snertir, að það væri æskilegt ef höfundur þessa frv., núv. hæstv. forsrh., gæti skýrt frá því hvort helstu kaupendur okkar í Bandaríkjunum og Evrópu muni viðurkenna það matskerfi sem hér er verið að leggja til. Liggur eitthvað fyrir um að sterkustu kaupendur íslenskra sjávarafurða muni sætta sig við kerfi sem verður eins háð framleiðendum eins og hér er lagt til? Og það mætti spyrja: Ef á að fara inn á þá braut að taka ríkið út úr matinu sjálfu með jafnafgerandi hætti og hér er gert og veita framleiðendunum réttinn, væri þá ekki rökréttast að veita kaupendunum hann líka til þess að þeir teldu sig þá hafa sæmilegt eftirlit með því að rétt væri unnið? Það er ekki lagt til og ég er ekki heldur að leggja það til. En það sýnir hina sérkennilegu þversögn þessa frv. að það er eingöngu lagt til að framleiðendurnir sitji við þetta borð.

Í sjöunda lagi benti ég á að í innri stjórn þessarar stofnunar er nú lagt til að taka upp kerfi sem allir voru sammála að væri úrelt og úr sér gengið fyrir 15 árum. Í innri uppbyggingu og deildaskiptingu stofnunarinnar eru stigin spor 15 ár aftur í tímann án nokkurra sýnilegra raka, án nokkurrar greinargerðar um hvers vegna það kerfi eigi að gefast betur nú en það gerði fyrir 15 árum. Það er eins og hér séu litlir strákar að leika sér í kubbaleik og reyna jafnframt að blekkja þjóðina til að halda að þeir séu að gera eitthvað þegar þeir hafa ekki í 3–4 ár tekið á hinum raunverulegu vandamálum sem felast í gæðaeftirliti íslensks sjávarútvegs, eins og ég mun koma að á eftir. Þessi kubbaleikur núv. hæstv. forsrh. og fyrrv. sjútvrh. er stundaður í blekkingarskyni til að telja þjóðinni trú um að lagauppstokkun og valdsuppstokkun af því tagi sem hér er lögð til sé raunveruleg aðgerð til að bæta gæðamat í sjávarútvegi á Íslandi, til að fela það að núv. hæstv. forsrh. og fyrrv. sjútvrh. hrinti ekki í framkvæmd einni einustu af þeim þeim yfir 20 tillögum um úrbætur í gæðamálum sem hann fékk samhljóða frá þeirri nefnd sem hann skipaði sjálfur 1981.

Það er algjörlega rangt, sem ráðh. sagði fyrr í dag, að nefndin hefði verið ósammála. Það liggur fyrir skjalfest að hún skilaði af sér samhljóða og af einingu 22 tillögum. Ég skal lesa þær fyrir ráðh. á eftir, ef hann er búinn að gleyma þeim, svo að hv. þm. geti séð hvað eru raunverulegar tillögur um, úrbætur í gæðamálum og hæstv. fyrrv. sjútvrh. en núv. forsrh. geti svarað þingheimi því hér lið fyrir lið hvers vegna hann framkvæmdi þetta ekki.

Hér er mikið alvörumál á ferðinni, e.t.v. eitt stærsta alvörumál okkar Íslendinga, því ef við töpum gæðaforskotinu í sjávarútvegi töpum við sjálfum grunninum að efnahagslegu sjálfstæði okkar. Og þeir menn sem bera stjórnarfarslega ábyrgð á gæðamálum sjávarútvegsins og hafa vanrækt að hrinda í framkvæmd sameiginlegum tillögum þeirra sem best til þekkja bera mikla ábyrgð á því persónulega hvernig komið er fyrir efnahag Íslendinga og markaðsstöðu okkar erlendis.

Í áttunda lagi má svo benda á að það er eitt af sérkennum þessa frv., samanborið við núgildandi lög, að afnumið er það bann, sem er í gildi í núverandi lögum, að rekstraraðili í sjávarútvegi geti einnig verið matsaðili. Í núverandi lögum er þeim einstaklingum sem fást við útgerð og fiskvinnslu bannað að vera sjálfir starfandi á sviði gæðamats. Og í núverandi lögum er það talin óhjákvæmileg trygging fyrir því að ekki sé blandað saman hagsmunum. Í þessu frv. er það bann afnumið og samkv. því geta nú sömu einstaklingarnir farið að hræra því saman hjá sjálfum sér að vera í senn rekstrar-, framleiðslu- og matsaðilar í byggðarlaginu. Það getur sérhver sagt sér að slíkt kann ekki góðri lukku að stýra í okkar litla þjóðfélagi.

Í níunda lagi má færa að því sterk rök að með þessu frv. muni kostnaður ríkisins við gæðamatið stórlega aukast án þess að árangurinn eða gæðin aukist að sama skapi. Hæstv. núv. sjútvrh. var mikill áhugamaður um það meðan hann var formaður í fjh.- og viðskn. hv. Nd. á undanförnum árum að áður en stjfrv. væru lögð væri fylgt því ákvæði Ólafslaga að gera úttekt á því hvern aukinn tilkostnað frv. hefði í för með sér. Ég vænti þess að núv. hæstv. sjútvrh. hafi ekki skipt um skoðun í þessum efnum, þótt hann hafi skipt um stól í þingsalnum. Hann var mjög ötull talsmaður þess meðan hann var formaður fjh.- og viðskn. að fylgt væri þessu ákvæði, þó að illa gengi, og ég reyndi að leggja honum lið í þeirri baráttu frá deildinni hér efra. Þess vegna spyr ég nú: Getur hæstv. ráðh. lagt fram kostnaðaráætlun, sem samkv. lögum á að fylgja þessu frv., eða hefur það kannske gleymst í óðagotinu við að leggja fram þetta afkvæmi núv. forsrh.'og þess vegna geri hvorki rn. né þingheimur sér grein fyrir því á hvern hátt er verið að auka við báknið án þess að ná auknum árangri?

Þetta eru aðeins nokkrir, herra forseti, af þeim megingöllum sem á þessu frv. eru. En til þess að hv. alþm. hafi grundvöll til að ræða þetta frv. og bera það saman við aðrar tillögur ætla ég að gera nokkra grein fyrir þeim tillögum sem fyrr var vikið að í umr. í dag og er að finna í skýrslu sem fyrrv. sjútvrh., Steingrími Hermannssyni, barst fyrir tveimur og hálfu ár. Hverjir skyldu hafa unnið þessa skýrslu? Voru það einhverjir viðvaningar í sjávarútvegi? Voru það einhverjir sem ekki þekkja til? Nei. Í þessari nefnd voru einstaklingar sem eru í allra fremstu röð forsvarsmanna í íslenskum sjávarútvegsmálum. Nefndina skipuðu: Árni Benediktsson, sem fyrrv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson hefur hvað eftir annað lýst yfir að hann treysti manna best í málefnum íslensks sjávarútvegs. Í nefndinni var einnig Hjalti Einarsson, einn traustasti og virtasti forstöðumaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Í nefndinni var einnig Jóhann Guðmundsson, sem veitt hefur forstöðu Fiskmatsstofnun ríkisins um áraraðir. Í nefndinni voru einnig Guðjón Kristjánsson, tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Guðmundur Vigfússon, tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands, og Þórarinn Guðbergsson, tilnefndur af LÍÚ. Allir eru þeir valinkunnir menn á þessu sviði. Og hver var formaður nefndarinnar? Ráðuneytisstjórinn sjálfur, Þórður Ásgeirsson. (Gripið fram í: Hvenær varð hann ráðuneytisstjóri? Hann hefur aldrei verið ráðuneytisstjóri.) Það má vel vera að Þórður Ásgeirsson hafi aldrei verið ráðuneytisstjóri og hafi gegnt skrifstofustjórastöðu í rn., og er sjálfsagt að leiðrétta það, en ég held þó að hann hafi ærið oft farið með störf ráðuneytisstjóra í rn. þegar ráðuneytisstjórinn var fjarverandi. Og ég er viss um að hann hefur meiri kunnugleika á þeim málum en sá maður sem núv. sjútvrh. hefur sótt yfir í fjmrn. af einhverjum sérkennilegum ástæðum, sem væri nú fróðlegt að fá upplýst einhvern tíma, til að gegna ráðuneytisstjórastöðu í sjútvrn. um skeið. (Fjmrh.: Fjölhæfur maður.) Þær eru nokkuð forvitnilegar allar þessar hreingerningar sem Framsfl. er alltaf að stunda í embættunum í kringum sig, en gaman að heyra þm. Sjálfstfl. ljá því lið eins og gert var áðan.

Þessi nefnd var skipuð mönnum sem hafa áratugareynslu af því að fjalla um vandamál íslensks sjávarútvegs. Þeir skiluðu ítarlegri skýrslu í allmörgum meginköflum. Ég vil mælast til þess við hæstv. núv. sjútvrh. að hann afhendi á morgun öllum alþm. þessa skýrslu, svo að þingheimur fái skýran og greiðan aðgang að þeim tillögum sem þáverandi starfshópur lagði til, en þáv. sjútvrh. fór ekki eftir.

Í fyrsta lagi var í þessari skýrslu fjallað um togtíma og sett fram sú skoðun, að langur togtími og stór höl væru aðalorsök skemmda á töluverðu magni af fiski. Meiri hluti nefndarinnar var þeirrar skoðunar — og telur reyndar að sú skoðun sé nokkuð almenn — að aldrei ætti að draga botnvörpu lengur en í u.þ.b. þrjár klst. og auðvitað miklu skemur eftir aðstæðum. Nm. telja æskilegt, og eru það allir nm., að botnvarpa sé við venjulegar aðstæður ekki dregin lengur en í 200 mínútur og leggja til að ákvæði þar að lútandi verði sett í reglugerð. Gerði fyrrv. sjútvrh. það? Fór hann að þessari tillögu, skýrri, nákvæmri, afgerandi tillögu, í gæðamálum íslensks sjávarútvegs? Nm. lögðu til að til að auðvelda eftirlit með þessu verði gert skylt að skrá upphaf og lok togsins í þar til gerðri skrá ásamt áætluðu aflamagni. Auk þess er á það bent að væntanlega sé tæknilega kleift að hanna tiltölulega ódýran búnað til sjálfvirkrar skráningar á því hvenær trollið er tekið inn, og mælir nefndin með því að það verði athugað nánar með það fyrir augum að slíkur búnaður verði gerður að skyldu síðar. Hæstv. fyrrv. sjútvrh. var að láta liggja að því fyrr í dag að sér hefði ekki verið bent á aðferðir til að framkvæma þessa tillögu. Ég leyfi mér að fullyrða að þeir menn sem skipuðu þessa nefnd hafi meira vit á því hvað sé framkvæmanlegt um borð í íslenska flotanum en fyrrv. hæstv. sjútvrh.

Í öðru lagi greinir frá því í áliti nefndarinnar að miklar umr. hafi orðið um blóðgun og slægingu afla um borð. Nefndin vitnar í skýrslu sem Kristján Kári Jakobsson samdi fyrir Fiskeri-háskólann í Tromsö í Noregi og byggðist á athugunum sem gerðar voru um borð í íslenskum togurum sumarið 1980. Í þeirri skýrslu var fyrst og fremst leitast við að svara spurningunni um hvort gæðamunur væri á fiski sem blóðgaður væri og slægður um leið og á fiski sem blóðgaður væri fyrst og síðan ekki slægður fyrr en honum hefði blætt út, eins og 45. og 46. gr. reglugerðar nr. 55/1970 gera ráð fyrir. Er vitnað í það, að niðurstaða þessarar skýrslu hafi verið sú, að á gæðum fisks væri ekki sjáanlegur marktækur munur af þessum sökum, en hins vegar væri allt að því helmingsmunur á því hve afköst við að ganga frá fiski um borð væru meiri ef blóðgað væri og slægt í sama handtaki. Í þessu sambandi er þess að geta, að nm. þótti ástæða til að vefengja þá aðferð sem notuð var við mat á gæðum fisks í þessari tilraun.

Þá var einnig í nefndinni lögð fram lausleg könnun sem Framleiðslueftirlit sjávarafurða hafði látið gera á þessu sama og benti til þess að mismunandi aðferðir leiddu til mjög ólíkra gæða þótt það kæmi ekki endilega fram.

Niðurstaða af ítarlegum umr. í nefndinni var sú, að ekki var mælt með því að svo stöddu að reglugerðinni væri breytt í þessu efni. En nefndin lagði hins vegar til að sjútvrn. hlutaðist þá þegar til um að Framleiðslueftirlit sjávarafurða ásamt einum fulltrúa frá kaupendum og einum frá seljendum léti gera nákvæma sjálfstæða könnun um borð í skuttogurum við ferskfiskmat, við vinnslu og við útflutningsmat á fiski, hvort og þá hvaða gæðamunur væri á þeim fiski sem blóðgaður er og slægður um leið og þeim sem látið er blæða út fyrir slægingu. Það sýnir nú árangurinn af vinnubrögðunum, að þegar loksins er gerð fræðslumynd um þetta efni á vegum sjútvrn. upphefjast samstundis deilur um hvaða aðferðir séu sýndar í myndinni.

Í þriðja lagi var fjallað um hámark fisks í kassa. Var það álit nm. að almennt mundu það leiða til vandaðri meðferðar á fiski og betri gæða ef kaupendur fylgdu því allir fram að greiða ekki kassabætur í ákveðnum tilvikum. Lagði nefndin þess vegna til að bannað yrði með reglugerð að setja meira magn fisks í kassa en verðlagsráð gerði ráð fyrir, eða 60 kíló fisks í 90 lítra kassa og sama þungahlutfall miðað við rúmmál í kössum af öðrum stærðum. Ætti slíkt bann, segir nefndin, a.m.k. að leiða til þess að kaupendur hættu að greiða kassabætur ef út af þessu brygði og væntanlega verða til þess að sjómenn hættu alveg að setja of mikið í hvern kassa.

Í fjórða lagi fjallar nefndin um lágmark íss í kassa og gerir nákvæmar tillögur um breytingar á reglugerðarákvæðum hvað það snertir, rökstyður þær breytingar ítarlega og mælir einnig með því að gerðar verði breytingar á þvotti á fiski um borð í skipum, á vinnslurásum og búnaði.

Þau atriði sem ég hef hér vikið að sýna hvernig á raunsæjan, nákvæman og afdráttarlausan hátt eigi að taka á gæðavandamáti sjávarútvegs á Íslandi, ekki með því að vera að leika sér með skipurit í einhverjum nýjum stofnunum, stokka þær upp innbyrðis eftir deildum og velta því fyrir sér hver eigi að fá að ráða forstjórann, hvaða vald ráðh. eigi að hafa, hvaða vald hinn eigi að hafa og leika sér þannig með valdið fram og aftur í þessu kerfi. Kollegar mínir stjórnmálafræðingarnir hefðu örugglega gaman af slíkum leik, en hann hefur því miður ósköp lítið með gæðamálin á fiskinum að gera.

Þær till. sem hér voru lagðar til voru hins vegar kjarnatill. um breytingar hvað snertir gæðamál í sjávarútvegi og engin þeirra var framkvæmd af fyrrv. sjútvrh. Steingrími Hermannssyni. Því er spurt hér: Hvers vegna ekki? Hvers vegna framkvæmdi fyrrv. sjútvrh. í tvö ár ekki þessar till? Hann sagði hér fyrr í dag: Það var ágreiningur í nefndinni. Nál. sýnir skýrt og greinilega að um þessi atriði var ekki neinn ágreiningur. Ráðh. skuldar þinginu og þjóðinni skýringar á því hvers vegna hann hafnaði þessum till. Hann skuldar sjómönnum skýringar á því. Hann skuldar ... (Gripið fram í: Miklu fleira.) Já, það er alveg rétt. Hann skuldar þeim skýringar á miklu fleira. Ég vona að hv. þm. Pétri Sigurðssyni gangi betur en mér gekk, meðan ég studdi fyrrv. hæstv. sjútvrh. í embætti sjútvrh., að fá fram skýringar á því. Má í því sambandi minna á að það kostaði Alþb. töluvert átak í umr. um efnahagsmál sumarið 1982 að fá á þann efnahagsaðgerðalista, sem þáv. ríkisstj. var sammála um, sérstakt eftirrekstrarákvæði um gæðamál til þess að geta beitt því gagnvart þáv. hæstv. sjútvrh. Við töldum málið komið í svo illt efni um mitt ár 1982 að það var eitt meginatriðið sem við lögðum áherslu á í frágangi þeirra aðgerða að fá inn skýr og skorinorð ákvæði sem skylduðu þáv. hæstv. sjútvrh. til að framkvæma raunverulegar aðgerðir á þessu sviði. — Ég sé, herra forseti, að sjútvrh. fyrrv., núv. hæstv. forsrh., hefur gengið úr salnum. (Gripið fram í: Er það furða.) (Forsrh.: Ég heyri til hans.) Það er gott að heyra að ráðh. er þarna í hliðarherbergi.

En það var fleira sem þessi nefnd lagði til og það var fleira sem ráðh. framkvæmdi ekki. Fjallaði nefndin m.a. sérstaklega um dagmerkingar afla um borð í veiðiskipum. Vegna þess hvílíkt lykilatriði þetta er í gæðamálum sjávarútvegs ætla ég að lesa upp hvað nefndin sagði um þetta atriði og var öll sammála um, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og síðar verður gerð nánari grein fyrir í þessari skýrslu gerir nefndin ráð fyrir því að sett verði ný ákvæði í reglugerð um hámarkstíma sem líða má frá því að fiskur er veiddur og þar til að hann er unninn. Vegna þessa og raunar einnig annarra ákvæða þykir nefndinni nauðsynlegt að settar verði ákveðnar reglur um dagmerkingar. Nefndin hefur fengið upplýst að allur gangur sé á því hvort fiskur er dagmerktur t.d. um borð í skuttogurum. Hjá sumum útgerðarfélögum er mjög góð regla á dagmerkingum, og eru í þeim hópi bæði félög sem gera út eitt skip og stærstu útgerðarfélög landsins. Þeir sem dagmerkja ekki bera því við að merki þau sem á boðstólum eru séu óhentug og eigi það til að fjúka um alla lest og valda þannig ruglingi. Auk þess munu margir kaupendur ekki ætlast til þess að fá fiskinn dagmerktan. Víðast er föst regla á því hvernig fiski er raðað í skipin og síðan í móttökufrystihúsin, þannig að tryggt ætti að vera að elsti fiskurinn sé unninn fyrst og yngri fiskurinn síðast. Þetta segir þó auðvitað ekki til um aldur fisksins og leggur því nefndin til að eftirfarandi ákvæði verði sett í reglugerð.“

Síðan er tilgreint nákvæmlega hvernig eigi að breyta reglugerðinni. En gerði fyrrv. sjútvrh., núv. hæstv. forsrh., það? Framkvæmdi hann þær till. sem allir þessir menn voru sammála um að væru höfuðatriði ef það ætti að bæta gæðamálin í sjávarútveginum? Nei hann framkvæmdi þær ekki. Hvers vegna ekki? Það væri æskilegt að hæstv. ráðh. upplýsti það. Í staðinn hóf hann þennan skipulagsleik, þennan kubbaleik með vald og deildir og stofnanir í því skyni að telja einhverjum sem lítt þekkja til trú um að það væri lausnin á vanda sjávarútvegsins.

Í nál. er einnig rætt mikið um geymslu og meðferð á fiski um borð í skipum og í vinnslustöðvum. Settar eru fram nákvæmar tillögur um kældar hráefnisgeymslur og breytingar í þessum efnum og gæðaskoðun afurðanna fyrir vinnslu. Þessar till. eru jafnítarlegar og jafnvel rökstuddar og þær sem ég hef áður vikið hér að, þó að ég ætli ekki að lengja tíma hv. deildar með því að lesa það nákvæmlega í trausti þess að núv. hæstv. sjútvrh. sjái til þess að öllum þm. verði afhent þessi skýrsla á morgun, og vænti ég þess að hæstv. fyrrv. sjútvrh. hafi engar athugasemdir við það að gera.

Það var einnig í þessu áliti að finna till. um hámarkstíma.sem liða má frá því að fiskur er veiddur og þar til hann er unninn. Og ég veit að það þarf ekki að útskýra það með mörgum rökum fyrir hv. alþm. að þetta er höfuðatriði. En þessi tími er of langur. Það er alveg nákvæmlega sama hvaða stofnanaleikur er stundaður í Stjórnarráðinu, hvernig menn stokka upp deildir eða skipa valdinu, það hefur engin áhrif á gæði sjávarafurðanna. Í þessu efni lagði nefndin einnig til nákvæmar breytingar, skýrar og afdráttarlausar breytingar, sem ráðh. hefði getað framkvæmt með einu pennastriki svo notað sé þekkt orðalag, en hann gerði það ekki. Hvers vegna ekki? Það veit enginn. Þ6 hefði þessi breyting ein getað leitt af sér meiri umskipti í gæðamálum íslensks sjávarútvegs en nokkurt það ákvæði sem er að finna í því frv. sem hér er til umr.

Í lok þessa nál. eru settar fram till. um breytingar á reglugerðum. Nákvæmar, skýrar og afdráttarlausar breytingar sem hefðu á svipstundu skapað gjörbreytingu í gæðamálum íslensks sjávarútvegs ef þær hefðu verið framkvæmdar. En það voru þær ekki. Hvað eru þessar till. margar? Ekki tvær, ekki þrjár, ekki fjórar, ekki tíu, ekki fimmtán, þær eru 22. Hér eru 22 nákvæmar og skýrar till. um úrbætur sem Árni Benediktsson, Hjalti Einarsson, Jóhann Guðmundsson, Guðjón Kristjánsson, Guðmundur Vigfússon, Þórarinn Guðbergsson og Þórður Ásgeirsson leggja til í sameiningu. Og hvað gerði sjútvrh.? Ekki neitt. Hvaðan kom ráðh. það vald og sú viska að hafna þessum till.? Ég spyr. (Gripið fram í: Gerði hann það ekki í fyrrv. ríkisstj.?) Nei, hann gerði það ekki í fyrrv. ríkisstj., alveg hárrétt. Þess vegna sagði ég áðan að ég ætti hv. þm. vini mínum Pétri Sigurðssyni þá ósk að honum gengi betur að leiða ráðh. á réttan veg en mér gekk á sínum tíma, en Alþb. gekk þegar það var hvað eftir annað í viðræðum um efnahagsmál og atvinnumál í ríkisstj. að reyna að fá þennan hæstv. ráðh. til að gera eitthvað, til að gera eitthvað raunhæft, til að hætta kubbaleiknum, til að hætta spilverkinu með valdið, til að hætta þessum tilraunum til að skapa Framsfl. betri oddaaðstöðu í kerfinu.

Það er náttúrlega það sem þetta frv. snýst um í raun og veru, þegar öllu er á botninn hvolft, að skapa SÍS-forstjórunum betri aðstöðu í kerfinu. (Gripið fram í.) Það verður gaman að sjá þm. Sjálfstfl. greiða því atkv. Það verður gaman að sjá þá ganga inn í salinn að lokinni umfjöllun í n., ljúfa og þæga eins og lömb og samþykkja frv. sem veitir sjútvrh. Framsfl. meira vald til að styrkja forstjóraveldið í SÍS í sjávarútvegi en nokkru sinni hefur verið veitt nokkrum aðila í þessum grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar. Það eina sem þm. Sjálfstfl. hafa sér til afsökunar í þessu máli er að þeir hafi ekki haft hugmynd um hvað var í frv. Og það eina sem ráðh. Sjálfstfl. hafa sér til afsökunar er að þeir hafa ekki vitað það heldur, því ég trúi því ekki fyrr en hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason kemur hér upp í ræðustólinn og segir það ... (ÓÞÞ: Hann sér ekki um kirkjumál.) Um Kirkjumál? (ÓÞÞ: Varstu ekki að tala um trú?) Ég skil vel að hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni detti helst í hug guð almáttugur þegar hann heyrir Erlendar í SÍS getið. En í augum okkar hinna er Erlendur í SÍS ekki ennþá kominn í guða tölu. Og sambandsveldið á Íslandi, forstjóraveldið í SÍS, heyrir ekki undir dóms- og kirkjumálarn., ekki ennþá a.m.k. Það gæti gert það samkv. nýju stjórnarráðstillögunum, ég hef ekki kynnt mér þær, en það má vel vera. — En ég endurtek: Ég trúi því ekki fyrr en Matthías Bjarnason kemur upp í ræðustólinn og lýsir því yfir að hann sé sammála öllum þeim ákvæðum sem í frv. eru. (KP: Af hverju endilega Matthías?) Vegna þess að hann er sá maður í núv. ríkisstj., að öllum hinum ólöstuðum, sem mest vit hefur á sjávarútvegsmálum og það vitum við báðir, hv. þm. Karvel Pálmason. (Gripið fram í.) Hann gerði nú aðallega úr Fagranesið, en það fiskaði ekki mikið. (Forseti: Ekki samtal.) (Gripið fram í: Ekki iðnrh.? Það gera nú fleiri út.) Það er alveg rétt að hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson á mikið í útgerð, en þekking hans á útgerðarmálum hefur aðallega miðast við sjónarhornið úr forstjórastólnum við Rauðarárstíginn. Og það hefði ég haldið að Sjálfstfl. hefði hingað til ekki talið horfa best við atvinnulífinu í landinu, a.m.k. ekki hv. þm. Friðrik Sophusson.

Herra forseti. Ég hef vikið hér að ærið mörgum atriðum sem ættu að verða þeirri n. sem fær þetta frv. til umfjöllunar ríkulegt tilefni til að fara rækilega ofan í saumana á þessu frv. Og ég veit að núv. hæstv. sjútvrh. getur ekki, eftir því sem ég þekki til hans, ætlast til þess að þm. trúi því að hann haldi að þetta frv. bæti eitthvað ástandið í gæðamálum íslensks sjávarútvegs. Þess vegna þarf hv. sjútvn. þessarar deildar að sameinast um að finna aðrar leiðir, betri leiðir, raunhæfari leiðir, leiðir sem skila árangri strax, til að bæta gæðamál íslensks sjávarútvegs og hætta þeim skipulags- og valdsleik sem felst í þessu frv. Það væri gaman að vita hvaða valdapotarar það eru sem standa í raun og veru á bak við þetta frv. Vald hvers á það að styrkja? Hvers vegna er verið að setja ákvæði í frv. um að forstjórinn eigi ekki að hafa neina menntun? Hvers vegna? Hver eru rökin fyrir því að það þurfi enga menntun til að stjórna veigamestu stofnun í sjávarútvegi á Íslandi? Eru það kannske sömu rökin og Bjarni heitinn Benediktsson færði fyrir ráðherraembættinu. (Gripið fram í: Hvaða menntun ertu að tala um?) Einhverja menntun, sérmenntun, þekkingu, þjálfun. (Gripið fram í: Stjórnmálafræði?) Nei, ekki stjórnmálafræði og ekki heldur flokksskírteini í Framsfl. Ég er að tala um mælikvarða á hæfni manns. Allar aðrar stjórnunarstöður í þessari stofnun eru þeim skilyrðum háðar í frv. að þar eigi að vera slíkur mælikvarði. Hv. þm. ætti bara að lesa frv. til að kynna sér hvaða mælikvarði er þar lagður til.

Það mætti nefna fjölmörg önnur atriði í gæðavandamálum sjávarútvegs sem þetta frv. snertir ekki á. Það má spyrja t.d. um netaveiðarnar. Við vitum það allir hér, að sú staðreynd að aðeins 50 til 60% af netafiskinum fer í 1. flokk er eitt meginvandamálið í gæðastjórnun sjávarútvegsins. Er einhver till. í frv. til að ráða bót á því vandamáli? Nei. Hefur núv. sjútvrh. einhverja till. í þeim efnum? Það væri fróðlegt að heyra það. Fyrrv. hæstv. sjútvrh. voru gefnar ýmsar till. um það efni, en hann fór ekki eftir þeim. Það er eitt af stóru vandamálunum í gæðamálum íslensks sjávarútvegs hvernig eigi að ráða bót á hinni lélegu flokkun ferskfisks sem kemur úr netum. Og það má nefna togaraflotann. Þær till. sem nefndin lagði til hefðu þegar á árinu 1981, ef þáv. hæstv. sjútvrh. hefði framkvæmt þær, gert það að verkum að nú byggjum við við allt annað ástand. Og ég endurtek: Þeir menn og sá ráðh. sem hafnaði þeim till., og reynir nú að skjóta sér á bak við einhvern ágreining sem hvergi er skjalfestur og hvergi er til, nema e.t.v. einhvers staðar í hans eigin huga, bera mikla ábyrgð á því ástandi sem hér hefur orðið.

Hæstv. sjútvrh. sagði áðan að þetta frv. væri niðurstaða af löngu starfi. Það var eiginlega það eina sem hann sagði, þegar hann kom upp í ræðustólinn í annað sinn til að biðja menn að samþykkja þetta frv., að þetta væri niðurstaðan af löngu starfi. En þetta er ekki niðurstaðan af hans starfi. Ég hef þá trú og ég hef það traust þrátt fyrir allt, að núv. hæstv. sjútvrh. geti gert betur en þetta frv. sýnir. Og þess vegna held ég að þingið eigi að gefa honum tíma, gefa honum tóm í samvinnu við sjútvn. þessarar hv. deildar og sjútvn. Ed. til að finna leiðir og koma með raunhæfar aðgerðir vegna þess að hvorki stjórnin né þingið, hvað sem líður ágreiningi milli stjórnar og stjórnarandstöðu, getur fríað sig ábyrgð í þessum málaflokki. Hann er svo hátt yfir allan stjórnmálaágreining hafinn að menn verða í sameiningu að finna þær lausnir sem skynsamlegastar eru í þessum efnum.

Herra forseti. Ég vænti þess að núv. hæstv. sjútvrh. verði við þeirri ósk minni að afhenda þm. á morgun þá skýrslu sem ég hef gert hér að umræðuefni. Ég vænti þess að fyrrv. hæstv. sjútvrh. og núv. forsrh. komi og svari lið fyrir lið fyrir þau 22 atriði sem lögð voru til með nákvæmu orðalagi, en hann framkvæmdi ekki. Ég sé að hæstv. ráðh. er búinn að fá skýrsluna í hendur, svo ég þarf ekki að lána honum hana en það er óhjákvæmilegt að hann komi í ræðustólinn og geri grein fyrir því lið fyrir lið hvers vegna hann hafnaði hverri till. sem þarna er að finna og þó sérstaklega þeim sem ég hef vikið að í ræðu minni og allar snerta höfuðþætti í gæðamálum íslensks sjávarútvegs.

Svo að lokum, hæstv. forseti, ætla ég að vona að þm. Sjálfstfl. og ráðh. Sjálfstfl. fari að skoða þetta frv. og fari að átta sig á því hvað það er sem Framsfl. er að biðja þá að samþykkja. (ÓÞÞ: Þú þyrftir að stjórna Sjálfstæðisflokknum. ) Það er alveg rétt. Það hefur verið visst ófremdarástand í stjórn Sjálfstfl. á undanförnum árum. En ég hef nú þá trú á Friðrik Sophussyni, varaformanni flokksins, sem starfaði fyrir Stjórnunarfélagið í mörg ár, og Þorsteini Pálssyni núv. formanni, sem gekk á mörg námskeið hjá sama félagi í stjórnun, að þeir geti í sameiningu a.m.k. ráðið við þann einfalda vanda að þm. og ráðh. Sjálfstfl. átti sig á því hvað er verið að leggja til hér í frv. og þeir taki þannig ákvörðun um að koma í veg fyrir að yfir höfuðatvinnuvegi þj6ðarinnar verið skapað stærra og afdrifaríkara pólitískt vald en nokkru sinni hefur verið rætt um fyrr í þessu landi. Þetta frv., þótt saklaust sé að ytra borði, felur einum ráðh. slíkt vald yfir höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, framleiðslukerfi hans og allri vinnslu, að kommissararnir við Rauðarárstíginn eru eins og pínulitlir dvergar hjá þeim risavaxna kommissar og yfirdrottnara efnahagslífsins á Íslandi sem sæti í sjútvrn. þegar búið væri að samþykkja þetta frv.