23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls, sérstaklega, í þessu efni, en ég sé mig tilneyddan til að gera hér nokkrar aths. Ég lofa því þó að vera ekki neitt nálægt því eins langorður og hv. 7. þm. Reykv.

Það er rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði að þetta frv. hefur átt sér langan aðdraganda. Ráðh. gat um nefndina sem skipuð var árið 1979, skilaði af sér 1980 og var leyst frá störfum. Hún samdi ekki þetta frv. og hún á ekki annan þátt í því en getið er í grg. sem ráðh. gat réttilega um. Nefndin var skipuð af þáv. sjútvrh., hv. 3. þm. Reykn., vegna harðrar gagnrýni, m.a. frá fjvn. Alþingis undir forsæti 4. þm. Reykn., Geirs Gunnarssonar, vegna fjármála stofnunarinnar og auk þess gagnrýni, endurtekinnar gagnrýni, frá öllum hagsmunaaðilum, frá starfsmönnum, frá mönnum sem gerst þekktu og vísuðu til og skrifuðu bréf í rn. næstum daglega út af stjórn þessarar stofnunar.

stofnun eins og Framleiðslueftirlit sjávarafurða, Ríkismat eða Fiskmat, eða hvað það á að kallast, þarf að vera í tíðri endurskoðun og taka breytingum. Reglur og aðhaldsaðgerðir verða máttlausar og þær mega ekki dofna svo að þær virki svæfandi á þá menn sem þær eiga að veita aðhald. Það þarf að hræra ærlega upp í þessum málum annað slagið og það hefur verið gert á 6–7 ára fresti allt frá stríðslokum að lögum um fiskmat og eftirlit með fiski hefur verið breytt. Það voru nú 9 ár síðan þetta var gert síðast og var sannarlega tími til kominn.

Ég þarf ekki að minna hv. þm. á það að þessi mál hafa verið mjög í fjölmiðlum undanfarið — og ekki að ástæðulausu því miður — vegna eftirlitsleysis með gæðum fiskafurða.

Ég vík þá að nokkrum atriðum í frv. en ég vil þó fyrst undirstrika það, að í heild er frv. að mínu mati mjög til bóta og fyllilega tímabært. Flest af því er að mínu mati mjög til bóta. Að sjálfsögðu taka svona stór frv. breytingum í meðferð þings og nefnda og svo verður eflaust í þessu tilfelli. Það vantar mikið kjöt á þessi bein sem hér eru, þar sem eru reglugerðir og önnur ákvæði sem ráðh. setur samkv. þessum lögum. Mér er kunnugt um, eins og hæstv. forsrh. vék að hér áðan, að reglugerðinni um ferskfiskmat er verið að breyta. Og mér er kunnugt um að þar er mikið starf þegar unnið og á eftir að verða meira. Ég játa það hins vegar, og þykir það þó fremur leitt eftir allt sem á undan er gengið hér, að ég hef vissar efasemdir um 17. gr. frv. Og hún var ekki í okkar tillögum. En það hvarflaði þó ekki að mér að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna ætti þvílíkan bakhjarl hér á Alþingi sem hv. 7. þm. Reykv. er. Þeim veitir víst ekki af þessum samfrosnu að eiga góða talsmenn nú á dögum.

Hinu verða menn svo að gera sér grein fyrir, að 17. gr. er hugsuð sem eftirlit, sem aðhald, sem refsivöndur fyrir þá framleiðendur sem ekki standa í stykkinu. Og þeir hinir sömu sem vilja fella hana út verða að hugsa sér hvað eigi að taka við í stað þessa ákvæðis, að svipta megi menn framleiðsluleyfi. Orðalagið eins og það er er mér ekki að skapi og þyrfti að taka breytingum. En ég vildi þó að hægt væri að stöðva útflutningsframleiðslu sumra aðila sem þá atvinnu stunda í dag. Ég tel að það séu alls ekki allir, hvorki andlega né veraldlega, færir um að stunda útflutningsframleiðslu sem þeir þó gera í dag.

Annað atriði, sem e.t.v. þarf að lagfæra í frv., eru menntunarkröfur til starfsmanna. Þetta er smávægilegt atriði en ég hefði getað svarið fyrir það að háskólamenn ættu þvílíkan talsmann eins og 4. þm. Suðurl. Garðar Sigurðsson er. Það getur vel verið að það sé fleira sem þarf að athuga, ýmis minni háttar atriði sem ég hefði kosið að sjá breytt eða sjá ekki eða ég sakna. En ég sakna þess þó töluvert mikið að sjá ekki lagðar til þær höfuðbreytingar sem við í fyrri nefndinni vildum gera, þ.e. að láta ferskfiskmatið vera að mestu á ábyrgð sjómanna og fiskkaupenda, láta þá aðila sem sitja í verðlagsráði ljúka verðlagningunni með því að verðleggja fiskinn eftir gæðum. Ríkismatið ætti ekki að þurfa að vera nema eins konar áfrýjunardómstóll í deilumálum um gæði landaðs afla. Þeir hv. þm. sem einungis lesa Þjóðviljann sér til trausts og halds í þessum efnum ættu að taka eftir því að þessu er einmitt þannig farið í Noregi. Þar er allur fiskur fyrsta flokks þegar hann kemur upp úr sjónum, eins og reyndar hér víðast hvar. Allur fiskur er fyrsta flokks þar til kaupandinn hefur fundið að honum. Þá er hann dæmdur niður. Kaupendur meta fiskinn þegar þeir kaupa hann — áður en þeir kaupa hann. Mat á ferskum fiski er eingöngu á ábyrgð kaupenda og seljenda með áfrýjunarrétti til ríkismats ef þarf. En það kostar peninga og það er ekkert mjög mikið um það. Og einmitt sama ferskfiskmatskerfi eru Kanadamenn að taka upp. Þeir láta kaupendur og seljendur um það að meta fiskinn. Þeir geta svo áfrýjað ef þeir vilja. En ég veit og viðurkenni það, að í atvinnugreininni hér eru ekki slíkar forsendur, menn eru ekki tilbúnir til að taka upp þessa starfshætti nú. Það bíður síns tíma og ég er sannfærður um að það verður endurskoðað síðar.

Ég verð að víkja nokkrum orðum að gagnrýni þeirra Alþb.-manna, sem einhverra hluta vegna, eins og hér var vikið að áður, virðast mjög verja óbreytt ástand á framleiðslueftirliti sjávarafurða. Ýmislegt af þeirra málflutningi hefur verið að mínu viti eingöngu til þess að tefja tímann, drepa málinu á dreif. Sumt af því hefur hins vegar verið með þeim hætti að það er ekki hægt að komast hjá því að gera við það nokkrar athugasemdir.

Fiskmatsráð var þeim þyrnir í augum. Hvers vegna? spyr ég. Er ekki sjálfsagt að þessi ríkisstofnun, eins og reyndar flestar eða allar aðrar, hafi stjórn til ráðuneytis framkvæmdastjóra? Ég get getið þess að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem fer með þó nokkuð af eftirlitskerfi sjávarafurða, t.d. eftirlit með útfluttu fiskmjöli, eftirlit með meðalalýsi, eftirlit með niðursoðnum og niðurlögðum fiskafurðum, hefur sína stjórn og enginn finnur neitt athugavert við það. Sú stjórn er líka skipuð hagsmunaaðilum. Hvers vegna ekki að láta hagsmunaaðila tengjast þessum stofnunum? Ég sé ekkert athugavert við þetta atriði. Ég held þvert á móti að það verði til góðs og skapi vissa ábyrgð hjá einmitt þessum sömu hagsmunaaðilum að hafa þarna tögl og hagldir í stjórn þessarar stofnunar og bera á henni vissa ábyrgð.

Hv. 3. þm. Vestf. talaði um þá hættu, að eftirlit sölusamtaka frystiiðnaðarins veiktist ef ekki væri sterkt óháð ríkismat, eins og hann kallaði það. Hvers konar virðingu heldur hann að útlendir kaupendur beri fyrir ríkismati eða ríkisstofnun, framleiðslueftirliti sem aldrei hefur í sögunni viðurkennt mistök af sinni hálfu og aldrei borið neina ábyrgð á þeim mistökum sem sannanlega hafa þó verið til og valdið tjóni? Þau hafa valdið tjóni útflutningsaðilunum sem borið hafa skaðann. Það þarf meira en litla blindu til þess að halda að útlendir kaupendur hafi einhverja tiltrú á þess háttar stofnun. Það er einmitt lykilatriði í þessu frv. að framleiðendur og samtök þeirra eigi að bera meiri ábyrgð á gæðum. Þeir borga brúsann hvort sem er og þeim ber að standa að gæðaeftirliti og þeir eiga framvegis ekki að geta skotið sér á bak við eitthvert ríkistryggt gæðamat, afurðamat, sem hefur oft og tíðum verið platað, viljandi eða óviljandi. Ég bið hv. þm. að hugsa um það, sérstaklega þá sem hafa lýst ótta sínum við það að hagsmunaaðilar muni ekki valda þessu hlutverki, að okkar langþýðingarmesti útflutningur, frysti fiskurinn, er einmitt háður þessu eftirliti, nákvæmlega þessu eftirliti. Þetta eftirlit með hraðfrystum fiski, það er það sem hefur aflað okkar fiski viðurkenningar um allan heim.

Árið 1980 hafði Framleiðslueftirlit sjávarafurða fjóra og hálfan mann til að líta eftir útflutningi með frystum fiski. Sölusamtökin höfðu 30–40 manns við sömu störf. Framleiðslueftirlitið hafði þá samtals um 100 starfsmenn á sínum snærum, en í þessum langþýðingarmesta lið var eftirlitið fjórir og hálfur maður. Og samt hafa skaðar og tjón af völdum útflutnings á frystum fiski verið sáralitlir og vart teljandi — þeir hafa verið svo litlir að bankastjóri Landsbankans, Jónas Haralz, fann einu sinni ástæðu til þess að geta sérstaklega um það í ræðustóli hvað við hefðum sloppið vel við áföll af tjóni á útflutningi á frystum fiski. (Gripið fram í: Hefur það allt komið hingað heim?) Það má benda þessum hv. þm. á það að þegar keppinautar okkar eru að dást að eftirliti okkar Íslendinga eru þeir að hugsa um þetta eftirlit með freðfiski. Það er einmitt freðfiskmatið sem hefur viðgengist svona lengi óbreytt og það er svo þegar Kanadamenn eru nú að auglýsa gæði á kanadískum fiski, þá draga þeir Ísland vestur yfir Atlantshafið til að sýna að Nýfundnaland og vatnið þar sé í nágrenni við Ísland þaðan sem góði fiskurinn kemur. Þegar þessir Kanadamenn og reyndar Bandaríkjamenn eru að líta hingað í von um að finna fyrirmynd að góðu fiskeftirliti, þá eru þeir að horfa á eftirlit með freðfiski, ekki annað fiskmat.

Þá kem ég að þeirri staðlausu, hættulegu staðhæfingu, sem hér hefur komið fram hvað eftir annað í kvöld og dag, að Kanadamenn og Norðmenn, okkar helstu keppinautar, eins og orðað var, séu að breyta sínu eftirliti í átt að meira ríkismati. Þetta er rangt, þetta er bókstaflega rangt, staðlausir stafir og hættulegir og það er hreint furðulegt að menn skuli leyfa sér að lesa þetta hér upp úr Þjóðviljanum. Ég hef hér skýrslu frá ríkisstjórninni í Kanada, sjávarútvegsráðuneytinu, sem hefur verið kölluð Kirby Report eftir höfundinum og fjallar um nýskipan sjávarútvegsmála þar í landi. Þar á bls. 99 og 100 stendur í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta:

„Til að framkvæma afurðamat er lagt til að útflytjendur fái útflutningsleyfi, ef þeir geta sýnt fram á möguleika á að sjá um afurðamatið“, og það er lagt til að það leyfi verði tekið af þeim ef þeir geti ekki sýnt fram á að þetta eftirlit sé í lagi.

Í norsku lögunum segir í paragraffi 2 á þá leið að starfsmenn framleiðenda fari með sjálft matið, en eingöngu yfirmat sé á vegum ríkisins alveg eins og hér er lagt til.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka það, að það er ábyrgðarhluti að fara með svona staðlausa stafi hér í þessum ræðustóli. Mér finnst það sem nýkomnum þm. ábyrgðarhluti.

Ég hef lokið máli mínu.