23.11.1983
Efri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

11. mál, launamál

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Því miður hef ég ekki þær upplýsingar sem hv. þm. Árni Gunnarsson bað um, um inneign Aðalverktaka. Hlutur ríkissjóðs í því fyrirtæki, hygg ég, að sé í höndum utanrrh. og það má vel vera að hann geti útvegað þær upplýsingar. Það hefur verið fróðlegt að heyra hér um þessi miklu ítök sem við framsóknarmenn erum taldir eiga í hinum og þessum stórframkvæmdum. Ég kannast ekki við það. Við styðjum samvinnuhreyfinguna heils hugar, teljum hana heilbrigt rekstrarform, og viljum að hennar viðgangur sé mikill. En það erum ekki við sem ákveðum hvort hún byggi nýtt verslunarhús á Selfossi eða Osta- og smjörsölu o.s.frv., (Gripið fram í.) Ýmis samtök á hennar vegum ákveða það að sjálfsögðu algerlega án þess að við höfum þar nokkra hönd í bagga. Vitanlega má deila um slíkar fjárfestingar út af fyrir sig, eins og fjölmargar aðrar í þjóðfélaginu. Ég efa ekki að stjórnendur þessara fyrirtækja, sem eru yfirleitt fulltrúar þeirra sem eiga þar stærstra hagsmuna að gæta, fulltrúar bænda, hafi talið þetta nauðsynlegt. Ég get ekki upplýst það, ég á þar ekki aðild að. A.m.k. í sumum tilfellum hefur tekist ágætlega til. Ég fagna því t.d. mjög hvað ostaframleiðslunni hér hefur farið mikið fram og er orðin til fyrirmyndar. Ég veit hvergi í heiminum betri framleiðslu heldur en þá sem við fáum hér nú. En því miður þá er ég ekki fær um að ræða þá fjárfestingu í neinum smáatriðum. Hinu má svo vitanlega velta fyrir sér, að ef öll slík fjárfesting er með einhverjum ráðum bönnuð þá dregur mjög úr atvinnu byggingarmanna. Ég held að fara eigi dálítið varlega í það að miðstýra slíku, og fellur nú varla undir það frjálsræði sem ýmsir tala um.

Sem sagt, því miður hef ég ekki svar við þeirri einu spurningu, sem til mín var beint ef ég tók rétt eftir, en þeirra upplýsinga má eflaust afla.