23.11.1983
Efri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Þau réttindi sem skapast fyrir ríkissjóð og landið í heild til lántöku samkv. þessari kvótahækkun verða notuð innan ramma lánsfjáráætlunar og þeirra laga sem Alþingi kemur til með að samþykkja þegar frv. til lánsfjárlaga verður lagt fyrir þingið. Hér er um að ræða mjög hagstæð lán og ég geri ráð fyrir að þau verði nýtt eftir því sem talið verður rétt þegar að því kemur. Það hefur áður gerst að við höfum fengið lánafyrirgreiðslu í sambandi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það gerðist á árunum 1967–1968, aftur 1974–1976 og síðast 1982. En hér er um að ræða lánamöguleika sem koma til með að verða innan þess ramma sem Alþingi kveður á um þegar frv. til lánsfjárlaga hefur verið samþykkt.