19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

24. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja hér fram stjfrv. til l. um breyt. á lögum nr. 120 frá 31. des. 1976, um tollskrá o.fl., með síðari breytingum.

Frv. það, sem hér er tekið til 1. umr., er lagt fram til staðfestingar á brbl. þeim sem sett voru 28. júní s.l. um breyt. á lögum nr. 120 frá 1976, um tollskrá o.fl., með síðari breytingum. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. frá 26. maí var ákveðið að hrinda í framkvæmd ýmsum aðgerðum til að draga úr verðbólgu og koma í veg fyrir víxlgengi launa og verðlags, sem leiddi af þágildandi tilhögun launa- og verðlagsákvarðana. Til þess að ná því markmiði var nauðsynlegt að nema úr gildi ákvæði laga og samninga um verðbætur á laun frá

1. júní 1983 til 1. júní 1985. Voru því sett brbl. þar að lútandi, m.a. um launabreytingar 1. júní og 1. okt. s.l. Samhliða var hafinn undirbúningur að ýmsum beinum aðgerðum til að draga úr röskun þeirri sem í fyrstu hlaut að fylgja afnámi verðbóta á laun, þ.e, til verndar kaupmætti, einkum til þess að bæta hag þeirra sem við lökust kjör búa. Var í því sambandi m.a. ákveðið að lækka skatta og tolla á ýmsum nauðsynjavörum til heimilanna. Voru því þegar í lok júní sett brbl. til að koma tollalækkunum til framkvæmda.

Tollalækkanir þær, sem felast í brbl., taka einkum til búsáhalda og heimilistækja ýmiss konar, en á vörum þessum voru tollar almennt lækkaðir um helming eða úr 80% í 40%. Þessi stórfellda tollalækkun, sem leiddi jafnframt óbeint ti11ækkunar söluskatts, hafði í för með sér lækkun smásöluverðs um nær fjórðung eða 22%. Ekki þarf að hafa mörg orð um lækkun sem þessa á gjöldum af heimilistækjum, en ljóst er að hún felur í sér verulegar hagsbætur fyrir heimilin í landinu, en er þó ekki hvað síst búbót fyrir yngri kynslóðina, sem í framtíðinni hyggur á stofnun heimilis og þarf að verja stórum hluta launa sinna til kaupa á nauðsynlegum heimilismunum.

Jafnframt tollalækkunum á heimilistækjum og búsáhöldum voru tollar lækkaðir úr allt að 70% í 40% á ýmsum matvörum. Lækkun þessi leiddi til lækkunar smásöluverðs á bilinu 6–22%.

Auk nefndra vara var tollur almennt felldur niður af gleraugum og heyrnartækjum, en fyrir setningu brbl. var aðeins heimilt í undantekningartilvikum að fella niður toll af þessum mikilvægu hjálpargögnum.

Samkv. útreikningi Þjóðhagsstofnunar er áætlað að tekjutap ríkissjóðs vegna nefndra tollalækkana á síðari helmingi þessa árs verði um 20 millj. kr. Auk þess má gera ráð fyrir að tekjur af sérstöku vörugjaldi og söluskatti skerðist um 10 millj. kr.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál og legg því til að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr.