24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár af brýnu tilefni.

Í Dagblaðinu í dag er staðfest fregn, sem fór meðal manna í morgun, þess efnis að einn sjómaður af einu þeirra skipa sem stunda loðnuveiðar norður í höfum hafi látið líf sitt af slysförum síðast liðna nótt. Á þessu hafsvæði eru yfir 40 skip með á 6. hundrað manns að störfum. Eftir því sem ég hef fregnað frá flotanum, og ber því nú ekki saman við fregnir Dagblaðsins, munu hafa verið þarna 10–11 vindstig, stórsjór og flotinn í um það bil 70 sjómílna fjarlægð norður af Siglunesi. Loðnuskipin eru sem sagt að veiðum norður í Íshafi.

Ég minnist þess, að þegar síldveiðar voru stundaðar almennt á íslenska síldveiðiflotanum við Jan Mayen náðist það í gegn fyrir forgöngu sjómannasamtakanna og forustumanna slysavarna á Íslandi að skip Landhelgisgæslunnar væru látin fylgjast með flotanum. Þessi skip voru jafnvel betrumbætt og búin þannig, að sjúkraklefum var komið fyrir um borð í skipunum og þó nokkurn tíma voru læknar hafðir um borð í skipunum.

Mér hefur verið tjáð að aðeins eitt varðskip hafi verið á miðunum síðustu daga og það hafi verið við Vestfirði og væntanlega þá legið fyrir föstu jafnvel til að eyða ekki olíu. Ég tel þetta ekki geta staðist og til þess verði að gera kröfu að varðskip, eitt eða fleiri, fylgi þeim. mikla flota sem er að störfum á þessum hættulegu hafsvæðum og séu til taks ef eitthvað bregður út af, annaðhvort meðal áhafna eða skipanna sjálfra. Þetta mun auka öryggi þeirra sem þar eru að störfum og það mun einnig auka öryggiskennd þeirra sem heima eru, eiginkvenna, barna og annarra aðstandenda.

Nú hef ég heyrt því fleygt, að hæstv. sjútvrh. hafi þegar gert ráðstafanir til að bæta úr þessu. Mitt erindi hingað í ræðustól er einmitt að fá svar við því hjá hæstv. sjútvrh. Ég get ekki beint máli mínu til hæstv. dómsmrh. vegna veikinda hans, en ég veit að hæstv. sjútvrh. bæði getur og vill svara þessu. Ég spyr hann um hvort þegar hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að varðskip fylgi flotanum meðan hann er á þessum slóðum á þessum tíma árs og hvort hægt er að koma því við að hafa lækni um borð í því skipi sem þar verður eða skipum.