24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að elta ólar við allar þær firrur sem fram komu í ræðu hv. S. þm. Austurl. Flestu af því hefur verið margsvarað, þannig að ekki er ástæða til að lengja þessa umr. þess vegna. En ég sé ástæðu til að víkja að örfáum atriðum og þá fyrst því sem fallið hafði óvart niður í svari mínu í fyrradag við framhaldsumr. málsins þá, en það var vegna fsp. hv. 5. þm. Austurl. um endurskoðun ársreikninga Íslenska álfélagsins fyrir árið 1982.

Það er rétt, sem fram kom hjá honum, að ég var inntur eftir þessu. Ég held að ég fari rétt með að það var 12. sept. Ég vék mér auðvitað undan því að svara þá, af því að ég hafði ekki fengið þessi gögn í hendur, en þau bárust rn. 14. sept. Enn hafði, trúi ég, blaðamaður innt eftir innihaldi þessarar endurskoðunar nokkru síðar, en ég vék mér undan að svara af því að gagnaðili, Swiss Aluminium, hafði fengið frest til að gera sínar aths. sem eðlilegt var.

En það var hinn 15. maí s.l. sem fyrrv. iðnrh. fól Coopers & Lybrand að endurskoða ársreikninga Íslenska álfélagsins fyrir árið 1982 samkv. 29. gr. aðalsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium um álbræðslu í Straumsvík.

Coopers & Lybrand hófu störf í byrjun júnímánaðar. Fulltrúar iðnrn. voru Júlíus Sólnes prófessor, Stefán Svavarsson endurskoðandi, Halldór V. Sigurðsson ríkisendurskoðandi og Halldór Kristjánsson deildarstjóri. Með bréfi 30. ágúst tilkynnti endurskoðunarfyrirtækið rn. niðurstöður endurskoðunar, stendur hér, en það hefur áður komið fram að þessi skjöl bárust rn. ekki fyrr en 14. næsta mánaðar. Eins og segir hér síðar: Heildarskýrsla um endurskoðunina barst rn. 14. sept. 1983. En það skiptir ekki höfuðmáli.

Aðalniðurstöður Coopers & Lybrand eru í stystu máli sagt á sama veg og áður hafði verið í niðurstöðum fyrirtækisins vegna fyrri ára.

Þeir telja að álverð hafi átt að metast um 45 dollurum hærra milli óskyldra aðila en reiknað er með í uppgjöri ÍSALs. Þessi verðmunur nemur 3.9% að mati endurskoðunarfyrirtækisins og þess vegna er það niðurstaða Coopers & Lybrand að söluverð á áli frá ÍSAL hafi verið of lágt sem nemur samtals 2 millj. 682 þús. Bandaríkjadölum fyrir árið 1982.

Þá er í öðru lagi sú niðurstaða Coopers & Lybrand, að súrál — aðföngin - hafi verið verðlagt of hátt á árinu 1982 sem nemur 1 millj. 331 þús. Bandaríkjadölum.

Og í þriðja lagi er gamla mikla ágreiningsmálið á ferðinni um afskriftir. Coopers & Lybrand telja að gera þurfi þær breytingar á ársreikningi Íslenska álfélagsins vegna afskrifta sem nema 9 millj. 99 þús. Bandaríkjadölum. Er hér um að ræða framhald þess ágreinings um meðferð afskrifta sem úrskurðað verður um samkv. nýorðnu bráðabirgðasamkomulagi margumræddu við Alusuisse.

Heildarleiðrétting á ársreikningi ÍSALs fyrir 1982 er því 13 112 þús. Bandaríkjadollara. Samkvæmt því telja Coopers & Lybrand að tap ÍSALs 1982 beri að lækka í 18 259 þús. Bandaríkjadala úr 31 371 þús. samkvæmt ársreikningi Álfélagsins.

Í skýrslu Coopers & Lybrand er vakin athygli á vandkvæðum þess, hvað skuli telja rétt viðmiðunarverð í viðskiptum milli óskyldra aðila. Benda Coopers & Lybrand m.a. á að hækki eða lækki verð á súráli og rafskautum um 1% breytist tekjur ÍSALs samtals um 1 millj. 385 þús. Bandaríkjadala. Hér er um háar tölur að tefla, eins og menn heyra. En endurskoðendurnir og okkar menn þar taka fram að ofangreindar leiðréttingar, sem endurskoðunarfyrirtækið telur að gera beri á ársreikningi ÍSALs fyrir árið 1982, hafi ekki áhrif á skattgreiðslur fyrirtækisins fyrir það ár, þar sem um stórtap er að tefla eftir sem áður. Þetta er það sem ég hugðist skýra frá í fyrradag, en af mistökum mislagðist plaggið, þannig að nú er því komið til skila.

Þá eru nokkur orð um það atriði sem fram kom í máli hv. 5. þm. Austurl., um hina alþjóðlegu gerðardóma, sem hann vék mjög að í máli sínu og vitnaði til eldgamalla umræðna upp á heilu bindin í þingtíðindum, sem hann hefur greinilega lesið afturábak og áfram eins og annað í þessum fræðum. En ýmsu skýtur skökku við í málflutningi hans. Allt í einu virðist manni sem það sé orðið sáluhjálparatriði fyrir hann að halda deilumáli okkar inni í gerðardóminum í New York. Ræðir hann í löngu máli hver hafi haft frumkvæði að að þeim málum var vísað til annarrar og skjótvirkari meðferðar sem við höfum ekki ástæðu til að ætla annað en gefi jafnréttláta niðurstöðu.

Ég tók það fram í umr. í fyrradag að ég hefði lagt áherslu á að breyta þarna til, ef þess væri kostur að ná skjótvirkari og ódýrari leið til úrlausnar þessum deilumálum, og ég endurtek þá yfirlýsingu mína hér. Ég naut ráðlegginga í þessu efni frá fyrirtækinu Coopers & Lybrand, sem ráðið var ráðgjafarfyrirtæki iðnrn. af hv. fyrirrennara mínum, og fær enda greitt stórfé fyrir þá ráðgjöf og vinnu sína í þessum efnum. Það var að berast reikningur nú á dögunum upp á 1 millj. kr.

Ég lagði áherslu á að ég hefði lagt þetta til sérstaklega vegna þess að reynsla af gerðardóminum í New York sýnir að deilumál fyrir honum ganga oft í 2–3 ár og að þetta deilumál yrði það viðamikið í meðförum hans að áliti sérfróðra manna að við gætum ekki gert okkur vonir um styttri málsmeðferð en tvö ár.

Mér virðist augljóst að hvorki mundi ganga né reka um lausn á deilumálunum við Alusuisse eða nýja samninga við fyrirtækið nema við næðum niðurstöðum í þessum deilumálum og ég held að menn geti verið sammála um það.

Hv. þm. fór mörgum orðum um þetta gamla ákvæði um alþjóðlegan gerðardóm um málefni íslenska ríkisins og einkafyrirtækis eins og Swiss Aluminium og lét sem svo að það væri eitthvert einsdæmi. Því fer fjarri. Það er alþekkt fyrirbrigði.

Það vill þannig til, og honum hlýtur að hafa verið kunnugt um það, hv. þm., að í ljós kemur í þessari umr. sem fram fór á Alþingi um álbræðsluna í Straumsvík árið 1966 og hann vitnaði sérstaklega til að ákvæðið um alþjóðagerðardóminn er að frumkvæði Íslands sett í samningana. Það kemur fram í svörum þáv. dómsmrh. Jóhanns Hafsteins, að af Íslands hálfu er sett fram þetta ákvæði um alþjóðlega gerðardóminn til úrskurðar í deilumálum sem upp kunna að koma. Þá vita menn að það hefur ekki verið að kröfu hins illræmda auðhrings sem þetta ákvæði kom inn í, heldur er það fram sett af hálfu Íslands.

Hér vil ég leyfa mér, herra forseti, að vitna til umr. á sínum tíma um lagafrv. um álbræðsluna í straumsvík og til ræðu sem hæstv. þáv. forsrh., Bjarni Benediktsson, flutti og þar sem hann vék sérstaklega að gerðardómsmálinu. Ég geri þetta vegna þess að nú svo löngu síðar taka menn þetta upp og vilja gera úr því mikið mál.

Hann segir, herra forseti, svo:

„Annað atriði, sem að er fundið, er gerðardómurinn. Hæstv. iðnrh. hefur nú svo rækilega sýnt fram á, að það er síður en svo nokkur undantekning eða einsdæmi, að slíkir gerðardómssamningar séu gerðir, jafnvel á milli sjálfstæðra ríkja og einstakra fyrirtækja, — að um þetta eru óteljandi dæmi. Hv. 1. þm. Austf. Eysteinn Jónsson vitnaði mjög í orð Ólafs Jóhannessonar alþm. og prófessors.“ — Það eru þau orð sem hv. 5. þm. Austurl. þuldi hér upp áðan. — „Ég er sammála hv. 1. þm. Austf. í því, að ég met prófessor Ólaf Jóhannesson mikils“, segir þáv. forsrh. Bjarni Benediktsson. „Ég mundi þó meta hann mjög miklu meir varðandi þessi efni, ef hann væri ekki þegar búinn að hlaupa illilega á sig hér á Alþingi varðandi einmitt svipaðar umsagnir, eins og hann að þessu sinni hefur látið leiða sig til. Ég minni á það, að þessi hv. þm., Ólafur Jóhannesson, sagði hinn 14. nóv. 1960 hér á Alþingi, með leyfi hæstv. forseta:“ — og það er innan hermimerkja sérstakra:

„Vissulega er það svo, að smáþjóð verður að varast það að ganga svo langt, að hún geti ekki alltaf verið við því búin að leggja mál sín undir úrlausn alþjóðadómstóls“ — heyri menn þetta, og áfram segir svo: „því að sannleikurinn er sá, að smáþjóð á ekki annars staðar frekar skjóls að vænta en hjá alþjóðasamtökum og alþjóðastofnunum, af því að hún hefur ekki valdið til að fylgja eftir sínum ákvörðunum eins og stórveldin. Og þess vegna hefði, að mínu viti, hvert eitt spor í þessu máli átt að vera þannig undirbúið, að við hefðum verið við því búnir að leggja það undir úrlausn alþjóðadómstóls“. Hann er hér að tala um landhelgisdeiluna við Breta 1960, hv. þm. Ólafur Jóhannesson, þegar hann viðhefur þau orð sem hæstv. fyrrv. forsrh. Bjarni Benediktsson vitnar til hér.

Ég vitna, herra forseti, enn til þessarar ræðu, þar sem segir svo:

„En er það þá einstakt, að Íslendingar hafi afsalað sér dómsvaldi yfir íslenskum borgurum í deilum þeirra við íslenska ríkið, jafnvel í deilum, sem sjálfir íslensku dómstólarnir eru búnir að fjalla um? Nei, því fer fjarri, að svo sé. Ég minnti á það þá þegar, að við erum aðilar að mannréttindasamningi, sem gerður var á vegum Evrópuráðsins. Þessi samningur var fyrst undirritaður 1950 og gerður við hann viðbótarsamningur 1952. Hann var lagður fyrir Alþingi Íslendinga 1951, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Við vorum þá saman í ríkisstj., ég og hv. 1. þm. Vestf., Hermann Jónasson og hann var mjög áhugasamur um störf Evrópuráðsins. Ég man það glögglega, að hann leitaði til mín og bað mig að hlutast til um það, að samningurinn yrði framlagður og fengi staðfestingu Alþingis. Fulltrúar Evrópuráðsins höfðu talað við hann og sagt, að treglega gengi að fá staðfestingu einstakra ríkisstjórna, en mikilsvert væri af ýmsum ástæðum, að samningurinn hlyti gildi. Að athuguðu máli þá varð ég við þeirri ósk. Málið var borið undir Alþingi aftur 1952 og samþykkt í einu hljóði hér á Alþingi, ekki neitt atkv. á móti, og síðan var samningurinn staðfestur“. Tilvitnun lýkur hér, en ég vík að því sem segir síðar í ræðu þáv. forsrh.:

„Í 46. gr. samnings Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem Ísland er aðili að, eru ákvæði um mannréttindadómstól Evrópu, sem settur skal á stofn, þegar átta aðildarríki hafa viðurkennt lögsögu hans. Með því að dómsmrh. telur ekkert því til fyrirstöðu, að Ísland viðurkenni lögsögu dómstólsins leyfi ég mér hér með að leggja til að þér, herra forseti, samþykkið eða viðurkennið fyrir Íslands hönd lögsögu mannréttindadómstóls Evrópu til þriggja ára frá deginum í dag og að þér undirritið hjálagða yfirlýsingu þar að lútandi.

Utanríkisráðuneytið, 21. ágúst 1958.

Allra virðingarfyllst.“

Það er ekki tekið fram í þessu skjali, hver var þá utanrrh. né hver var þá dómsmrh., en þingheimur veit þó ofur vel, að það var Guðmundur Í. Guðmundsson sem var utanrrh. og Hermann Jónasson sem var dómsmrh., þannig að það var Hermann Jónasson og vinstri stjórnin, sem lýsti því yfir, að Ísland skyldi vera bundið af lögsögu erlends dómstóls jafnvel í þrætumáli íslensks borgara, sem íslenskir dómstólar væru búnir að leiða til lykta, í deilu hans við íslenska ríkið“.

Ég vitna til þess arna af því að þetta er afar upplýsandi um efni málsins og sýnir að það er lítt upp úr því moldviðri leggjandi sem nú er verið að reyna að þyrla upp vegna samningaákvæðanna um alþjóðlega gerðardóminn.

Hv. þm. spurði hvað ég ætlaði að gera ef allt um þryti í samningatilraunum við Alusuisse. Það er ekki hygginna manna háttur að hafa í frammi hótanir á meðan samningar eru reyndir til þrautar — samningar til að reyna að ná lausn á vanda í sameiginlegri og viðamikilli deilu, en ég vil svara honum því að ef um allt þrýtur mun ég ekkert útiloka.

Hv. þm. lýsti fyrir mönnum og fór með tölur, hvað orkuverðið er hátt hér á Íslandi. Það er alveg rétt. Það er næstum því óbærilegt t.a.m. fyrir þá sem hita híbýli sín með rafmagni. En hvernig hefur verið haldið á þessum málum og m.a. í hans tíð? Ætli ástandið væri ekki öðruvísi ef öðruvísi hefði verið staðið að málum, fjármálabúskapurinn í þessum efnum hefði verið öðruvísi, á árunum allt frá 1971 til 1982? Það liggur alveg ljóst fyrir, að ef orkuverðið frá 1971 hefði haldið raungildi sínu allan þennan tíma hefði Landsvirkjun skuldað 100 millj. dollara minna en hún gerir í dag og menn geta, sem eru í útreikningunum, fljótlega slegið upp á því hvað það hefði þýtt fyrir íslenska neytendur. Meðan orkuverð hækkar alls staðar í heiminum lækkaði allan þennan tíma raungildi orkuverðsins á Íslandi. (HG: Hver átti að borga þessar 100 millj.?) Hver átti að borga? Ég er að tala um búskapinn.

Það var auðvitað sama sagan eins og áður að fresta átti því til morguns sem þarf að gera í dag, borga ekki skuldir sínar, safna þeim upp, reka orkufyrirtæki okkar, stærstu og mikilvægustu orkufyrirtæki okkar, með halla og taka svo erlend dollaralán árlega til að jafna hallann. Það er víst mátinn sem menn vilja viðhafa. Um þetta eru mýmörg dæmi. Þessi fjármálabúskapur allur er þekktur þennan framsóknaráratug, sem svo hefur verið nefndur, og það er öðru nær en að það hafi verið leiðrétt á árunum 1974–1978, þegar Sjálfstfl. átti aðild að stjórn. Á þessu atriði var síst betur haldið þá en á öðrum tíma þessa tímabils. Það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur. (Gripið fram í: Öllu verr.) Ekki betur. Og það kemur auðvitað að skuldadögum. Þetta vita allir menn, sem eitthvert vit hafa á rekstri fyrirtækja. En það vildi svo til til að mynda um síðustu ríkisstj. að þar var varla nokkur maður sem hafði hið minnsta vit á rekstri fyrirtækja eða fjármála yfirleitt, bara ekki neitt! (HG: Þeir voru uppi í Framkvæmdastofnun.) Það örlaði þó á því þar, en ekki í þeirri ríkisstj. (Gripið fram í.) Það örlaði á þekkingu og viti í því einu sem þáv. viðskrh. hafði lært inni í Framkvæmdastofnun. Annað var það nú ekki. (Gripið fram í.) Og það er meira en lítil óhamingja fyrir eina þjóð þegar það hendir að 10 manns sem skipa ríkisstj. í einu landi skuli ekkert vit hafa á fjármálum eða neinum rekstri, alls ekki neitt, eins og þarna var dæmi um. (Gripið fram í: Hvernig standa leikar í dag?) Leikar standa, eins og hv. þm. veit og styður ríkisstj. kappsamlega, allt öðruvísi og miklu betur. Ég vona að ég þurfi ekki að halda sérstakt seminar fyrir þennan hv. þm. til að lýsa því fyrir honum. Það er varla nokkur veikur hlekkur í þessari ríkisstj. að þessu leyti og það veit áreiðanlega hv. þm. Vestf. manna best.

En eins og ég segi: Það er ekki von á góðu þegar haldið er um stjórnvölinn með slíkum hætti. Og það er nú að koma æ betur í ljós, að það orðspor sem flokksbræðrum hæstv. fyrrv. fjmrh. tókst að koma á fót um vitsmuni Ragnars Arnalds í fjármálum reyndist hjóm eitt. Eins og menn sjá í dag hefur varla verið haldið fáviskulegar á fjármálum. En að honum fjarstöddum mun ég ekki eyða fleiri orðum að því. Það gefst tækifæri til þess síðar.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefði kannske átt að gefa sér meiri og betri tíma en hann gerði, m.a. hefði hann átt að lýsa fyrir okkur þeim tilboðum sem gerð voru í samningaviðræðunum við Alusuisse. Hann hefði getað nefnt hér að skaðlausu hvaða tillögu Ingi R. Helgason átti í því máli á sinni tíð, hvaða orkuverð hann gerði að tillögu sinni á samningafundum og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson upplýsti á fundi á hinu háa Alþingi í vetur er leið. (HG: Er ekki rétt að endurtaka ósannindin?) Er ekki rétt að endurtaka ósannindin? Ég las gríðarlega langa grein frá forstjóra Brunabótafélagsins um þetta mál, þar sem hann var að reyna að skjóta skildi fyrir þessa tillögu sína með furðulegum hætti, að hann hefði verið með þessu að gera tilraun til að sjá hver viðbrögð yrðu. Menn ættu að kynna sér þessa Morgunblaðsgrein. Ég held að hún hafi birst í Morgunblaðinu. Er það ekki rétt munað hjá mér? — Það eiga allir greiða leið þar inn með greinar sínar og álit, hversu vitlausar sem þær eru. — En þetta þyrftu menn að kynna sér og þetta hefði hv. þm. vel getað upplýst okkur um.

Ég legg áherslu á það að lokum, að við höfum aðeins náð bráðabirgðasamkomulagi. Það er auðvitað mistúlkun að menn séu að hælast um yfir því að hafa náð háu orkuverði. Við höfum margtekið það fram, að í stöðunni tókst okkur ekki að ná hærra orkuverði en raun ber vitni um, og við höfum nefnt orsakirnar sem aðallega lágu til þess, eins og samningana sem Alusuisse hafði náð í Noregi um 9.9 mills til 1. júlí 1987. Menn geta svo sem haldið áfram að þylja á víxl dæmin um orkuverð hvaðanæva að úr heiminum. Þetta er mjög misjafnt, eins og menn þekkja. Þegar menn eru að nefna dæmi um lægsta orkuverðið er það til að sýna mönnum gagnstæða hlið við það sem hv. þm. og formætandi Alþb. heldur hér fram þegar hann er að þylja upp dæmi um að orkuverð til álframleiðslu sé milli 20 og 30 mills, eins og hann hefur gert. Það er enginn að halda því fram að hér höfum við náð því sem við þurfum. Við náðum aðeins áfanga. Mikilsverðast var kannske að við náðum samkomulagi um að aðalsamningur skyldi endurskoðaður. (Gripið fram í: Það var ótrúlegt afrek.) Það var ótrúlegt afrek að losa úr sjálfheldu Hjörleifs Guttormssonar, hv. þm., þetta mál með svo skjótum hætti sem raun bar vitni um. Það var hið ótrúlega afrek eftir það hvernig haldið hafði verið á málum af fulltrúa Alþb. í ríkisstjórn Íslands þá. Það var það sem ég átti við. Það var hið ótrúlega afrek eftir öll þau axarsköft sem smíðuð höfðu verið af þáv. hæstv. iðnrh.

Við eigum mjög erfiða samninga fram undan, og fyrir því er það líka sem ég dreg ýmsar yfirlýsingar við mig, sem ég ella kannske kynni að óska að gefa, eins og knúið er á um hér t.d. hvaða orkuverð ég ætli að leggja til grundvallar í tölum. Ég hef margsagt og endurtek, að ég tel það óskynsamlegt núna að tefla því fram. Ég hef hins vegar sagt: Við munum reyna til hins ýtrasta að ná hæsta orkuverði sem kostur er. Það liggur ekkert fyrir um að við komumst á neinn leiðarenda í samningsgerðinni við Alusuisse. Ég ætla að biðja menn að hafa opin augun fyrir því. Það liggur ekkert fyrir um að okkur takist að leysa þetta vandamál og ná fram samningum sem við getum unað við. Að vísu vísar þetta bráðabirgðasamkomulag veginn í þeim efnum, við náðum áfangasigri, en það er langur vegur enn að lokamarkinu. Og ég gerist ekki sá spámaður að segja fyrir um að okkur takist að ná viðunanlegri niðurstöðu, en að því komum við síðar. Á þetta reynir á næstu mánuðum. Ég vara við of mikilli bjartsýni um framgang málsins. Ég geri ekki ráð fyrir að við getum ætlað okkur minna en allt að ári, þótt allt gangi skaplega fram um samningagerðina.

Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til að elta ólar við fleira í málflutningi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, 5. þm. Austurl. Það væri að æra óstöðugan, eins og ég segi, að elta ólar við allar þær endaleysur sem hann setur þar saman og þann ótrúlega málflutning sem hann hefur í frammi. En ég efast ekkert um að við munum síðar eiga eftir að ræða ýmsa þætti þessa máls í enn meiri smáatriðum en ég treysti mér til að gera nú um stundir.