24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

103. mál, lagahreinsun og samræming gildandi laga

Flm.:

(Árni Gunnarsson): Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að ég skuli fá að flytja þetta mál hér, vegna þess að þetta mun vera síðasti dagur minn að sinni á Alþingi, og ég vil færa forseta þakkir einkum og sér í lagi vegna þess að ég tel að hér sé á ferðinni býsna mikilvægt mál fyrir Alþingi Íslendinga.

Þetta mál er flutt af þm. allra flokka nema Alþb., og harma ég það mjög að Alþb. skyldi ekki sjá sér fært að hafa meðflutningsmann að þessari till., en það var af einhverjum sérkennilegum ástæðum sem ég hef ekki fengið skýringu á. Ég bað einn af hv. þm. Alþb. að kynna sér hvort flokkur hans væri ekki tilbúinn að standa líka að þessari till., en svarið sem ég fékk frá honum var neikvætt. (Gripið fram í: Það var ekki fyrir hönd allra þm. Alþb.) Það er gott að vita það. Ég hélt að þetta mál hefði verið tekið upp á þingflokksfundi hjá Alþb. og því hefði verið hafnað þar.

Engu að síður vil ég gera grein fyrir þessu máli. Ég vil minna á í sambandi við þetta mál, að á 103. löggjafarþingi fluttu þeir þm. Benedikt Gröndal og Sighvatur Björgvinsson till. til þál. um lagahreinsun og árlegt lagasafn. Það var gert ráð fyrir að Alþingi fæli ríkisstj. að skipa laganefnd samkv. lögum nr. 48/1929 og fela henni að gera skrá yfir öll lög sem þegar hafa gegnt hlutverki sínu og hafa ekki lengur raunhæfa þýðingu. Ríkisstj. skal síðan leggja fyrir Alþingi frv. um að nema þessi lög úr gildi, svo að það megi verða áður en næsta lagasafn verður gefið út. Jafnframt ályktar Alþingi að fela ríkisstj. að gefa framvegis út árlega skrá yfir ný lög, breytt lög og brottfallin og verði þeim skipað í flokka á sama hátt og í lagasafni með efnisyfirliti og skrá um atriðisorð. Þessa till. þeirra tvímenninganna dagaði því miður uppi og hún komst aldrei til framkvæmda.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að bæði lögmannastétt þessarar þjóðar, lagadeild Háskóla Íslands, Hæstiréttur, Dómarafélagið og þm. hafa lengi gert sér ljósa grein fyrir að hér þyrfti að fara fram mjög umtalsverð lagagrisjun. Talsverður hluti af þeim lögum og lagabálkum, sem í gildi eru enn þá, er löngu úr sér genginn og þjónar engum tilgangi og þarf þess vegna ekki að geymast í lagasafni. Í þessari þáltill., sem hér hefur verið flutt, segir m.a., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd er undirbúi hreinsun úreltra ákvæða úr núgildandi lögum, geri till. um lagabálka sem engum tilgangi þjóna lengur og fella má úr gildi og um greinar gildandi laga sem eðlilegt er og nauðsynlegt að samræma. Í nefndinni eigi sæti einn fulltrúi frá Dómarafélagi Íslands, einn frá lagadeild Háskóla Íslands og einn frá Lögmannafélagi Íslands. Þá kjósi Alþingi tvo þingreynda menn til setu í nefndinni.“

Þetta orðalag er viðhaft svo kjósa megi menn sem hafa setið á Alþingi, en eru hættir setu þar eða sitja þar ekki lengur, en hafa mikla þingreynslu að baki. Ég vil taka það skýrt fram, að í sambandi við flutning þessarar till. var haft samband við mjög lögfróða menn, bæði í lagadeild Háskóla Íslands og hjá Lögmannafélagi Íslands, sem lögðu eindregið til að þessi till. yrði hér flutt. Í grg. með þessari þáltill. segir svo, með leyfi forseta:

„Nú er verið að undirbúa útgáfu nýs lagasafns sem verður mikið að vöxtum. Í safninu eiga að verða öll gildandi lög. Mörg þeirra þjóna vart nokkrum minnsta tilgangi. Formlega hafa þau ekki verið afnumin og útgáfa þeirra sóun á pappír og prentsvertu. Í mörgum lagabálkum eru einnig ákvæði sem verið hafa úrelt um lengri eða skemmri tíma. Þá eru mörg dæmi þess að greinar óskyldra laga reki sig hver á annarrar horn og skarist.

Alþingi hefur verið mjög atkvæðamikið við lagasetningu, og það svo að oft hefur keyrt úr hófi. Einföldustu hlutir eru bundnir í lög. Þá hefur Alþingi ekki hagnýtt sér svonefnda „sólarlagsaðferð“, sem bindur gildistíma laga við ákveðinn árafjölda. Séu þau ekki verð endurnýjunar að þeim tíma liðnum falla þau úr gildi og lagahreinsunin verður sjálfvirk að nokkru leyti.

Öllum þm., sem setið hafa á Alþingi einhvern árafjölda, er ljóst að frá þinginu eru lög oft afgreidd með óeðlilegum hraða. Þar með skapast sú hætta að þm. treysti um of á lagaþekkingu starfsmanna einstakra rn. þegar um stjfrv. er að ræða. Þmfrv. eru oftar en ekki mun lengur í meðförum þingsins og fá þá vandaðri meðferð. Það hefur heldur ekki farið fram hjá þingreyndum mönnum að alvarlegir gallar hafa komið fram í lagasetningu. Einnig er orðalagi oft mjög ábótavant, þ.e. að eðlilegt og lipurt íslenskt mál víkur fyrir klúðurslegu stofnanamáli.

Það er orðið mjög tímabært að hefja undirbúning lagahreinsunar, eða „lagagrisjunar“, eins og verkið hefur stundum verið nefnt. Nefnd sú, sem hér er gerð till. um, þyrfti að semja mjög ítarlegt lagafrv. er miðaði að því að nema úr gildi öll þau lagaákvæði sem eru úrelt, valda vafa og óvissu og stangast á.

Því fer fjarri að lög þurfi fremur að grisja þótt gömul séu. Þó kemur fáránleikinn oft skýrast fram í gömlum lögum sem eru komin úr öllu samhengi við samfélag nútímamannsins. Þessu til staðfestingar verður hér greint frá einu dæmi sem fram kemur í grg. dr. páls Sigurðssonar dósents og fylgir þessari þáltill. sem fskj. Þar segir:

„Í 3. gr. tilskipunar um vald biskupa til að veita undanþágu frá fermingartilskipunum frá 23. mars 1827 segir: „Nú er barn, sem ferma á, krypplingur svo að það á bágt með að koma í kirkju til fermingar, eða það getur það eigi að hættulausu vegna stöðugra veikinda eða það hefur svo stórkostleg líkamslýti að koma þess og yfirheyrsla í kirkjunni gæti valdið hneyksli; og skal biskupi heimilt að leyfa að það sé fermt heima í votta viðurvist.““

Það er von flm.þáltill. þessi fái góðar undirtektir og að afgreiðslu hennar verði hraðað, enda væri slíkt í góðu samræmi við útgáfu nýs lagasafns.

Herra forseti. Ég tel ekki mikla ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum um þessa þáltill., en ég held að það væri til mikils sóma fyrir Alþingi Íslendinga að stuðla að því að þessi lagagrisjun gæti farið fram eins fljótt og unnt er. Í gildi eru núna lög sem eru bæði afkáraleg og eru þess eðlis að þau rugla alla lagatúlkun.

Það er líka orðið mjög erfitt á stundum fyrir þá menn er um lög fjalla að finna út hvaða lagagreinar það eru sem ber að fara eftir vegna þess, sem sagt er í grg., að greinarnar kunna að rekast hver á annarrar horn.

Ég vil að svo mæltu, herra forseti, óska eftir því að máli þessu verði vísað til allshn.