24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

103. mál, lagahreinsun og samræming gildandi laga

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af því sem hér hefur fram komið. Hv. þm. Garðar Sigurðsson talaði hér af miklum þjósti og misskildi greinilega það sem ég sagði, viljandi eða óviljandi. Ég vil nú ekki gera honum upp þær sakir að hann hafi misskilið það viljandi, ég held að hann hafi gert það óviljandi og þá er best að segja hverja sögu eins og hún er. Það er ekki vani minn að óska eftir því við menn að þeir skrifi upp á þáltill. með skömmum fyrirvara. Yfirleitt hef ég fengið orð fyrir annað en að sýna frekju í þeim efnum. Ég fór til hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar með þessa þáltill., talsvert löngu áður en ég lagði hana hér fram í þingi, og spurði hann hvort hann.vildi líta á hana. Ég fór til hans daginn eftir. Þá hafði staðið þingflokksfundur hjá Alþb. og ég reiknaði með því að hann hefði borið þetta undir þingflokksfundinn. Hann sagði nei, kvaðst ekki hafa áhuga á að vera flm. Ég tók það svo að þetta væri afstaða Alþb. til till. Þar á eftir gekk ég til hv. þm. Garðars Sigurðssonar og spurði hann hvort hann vildi vera meðflm. Hann kvað nei við og ekkert við því að segja í sjálfu sér. Ég talaði auk þess við hv. þm. og fyrrv. hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds og spurði hann hvernig á þessu stæði. Hann sagði mér að fínu mennirnir í Alþb. hefðu talið að nafnið minnti of mikið á hundahreinsun. Ég skildi þetta nú ekki vel, ég taldi að hundahreinsun væri býsna nauðsynleg hreinsun líka, svo það væri engin skömm að því. Engu að síður læt ég mér þetta í léttu rúmi liggja. Hér er málið til umr. og ég mun halda mér við það, en úr því að hv. þm. Garðar Sigurðsson kom hér upp vildi ég gera grein fyrir þessu.

Ég vil, herra forseti, taka undir hvert orð sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði. Ég held að þm. geri allt of lítið af því að auka virðingu þessarar stofnunar. Hér fara fram umr. oft á tíðum af því tagi að eru fyrir neðan allar hellur, bæði ómerkilegar og oft á tíðum svo langar að þingstörf tefjast svo klukkustundum og jafnvel dögum skiptir. Ég ætla ekki að nefna nem dæmi í því sambandi.

Ég vil aðeins geta þess, herra forseti, vegna þess sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði hér áðan, að í gildi hafa verið lög um svokallaða laganefnd allt frá því í júnímánuði 1929. Þar er gert ráð fyrir því að forsrh. sé heimilt hverju sinni að skipa þriggja manna nefnd, er nefnist laganefnd, og nefndarmenn séu skipaðir til fjögurra ára í senn. Það er gert ráð fyrir því að þessari nefnd sé skylt að vera ríkisstj., alþm., þingnefndum og milliþinganefndum til aðstoðar um samningu lagafrv., samræmingu laga, og annan lagaundirbúning löggjafarmála. Í lögum er því til heimild fyrir forsrh. að skipa laganefnd sem getur verið þm. til aðstoðar við gerð lagafrv. Og það væri kannske ástæða til að notfæra sér þessa grein í lögunum sem í gildi eru enn þá. Það gæti komið mörgum þm. mjög til góða þegar þeir eru að semja lagafrv.

Herra forseti. Ég hef ekki meira um þetta að segja, en ítreka það að ég óska eftir því að málinu verði vísað til allshn.