24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

99. mál, jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram, þótt ég sé þm. úr öðru kjördæmi en Norðurl. e., þm. fyrir Reykjavíkurkjördæmi, að ég vil gera það sem ég get til þess að styðja þá till. sem hér hefur verið mælt fyrir. Ég tel að hérna sé um að ræða byggðarlag sem býr við alveg óvenjulega erfiðar aðstæður og okkur sé öllum skylt, hvaðan svo sem við erum kjörin til Alþingis, að athuga þær aðstæður sem þarna er um að ræða og beita okkur fyrir því að þarna verði gripið til ráðstafana sem hafa í för með sér samgöngubætur. Hér er ekki aðeins verið að tala um samgöngubætur í venjulegum skilningi. Hér er verið að tala um lífsöryggi þess fólks sem þarna býr. Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál sé svo stórt og alvarlegt fyrir þetta byggðarlag og þar með Íslendinga alla, að alþm. ættu að sameinast um að reyna að finna leið, sérstaka fjáröflunarleið varðandi Ólafsfjarðarmúlann, leið sem kannske er ekki inni á hinni venjulegu vegáætlun, heldur yrði kannað hvort ekki er unnt að finna þarna einhverja alveg sérstaka leið með svipuðum hætti og gripið var til ákveðinnar fjáröflunar vegna hringvegarins á sínum tíma, svo ég nefni dæmi, til þess að menn skilji hvað ég er að fara. Ég tel að það sé alveg úrslitaatriði að Alþingi taki á þessu máli og sýni því fólki sem þarna býr lágmarksvirðingu og þakklæti fyrir það framlag sem það hefur innt af hendi í okkar þjóðarbú.