24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

99. mál, jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil gera orð síðasta ræðumanns að mínum og undirstrika það að ég held að hér sé um mjög sérstakar aðstæður að ræða, sem rétt er og nauðsynlegt að menn hafi í huga, vegna þess að því er auðvitað ekki að leyna að hér er um stórt verkefni að ræða fyrir hlutfallslega fáa af þegnum þessa þjóðfélags, ef við lítum á þá sem koma til með að nota þetta mannvirki mest, sem eru íbúarnir í Ólafsfirði og við utanverðan Eyjafjörð að vestanverðu. Ég vil þó að menn gleymi því ekki að þetta mun koma til með í framtíðinni, vonandi að tengja og bæta samgöngukerfið á öllu mið-Norðurlandi því byggðirnar við Fljót, Siglufjörð og Skagafjörð fá þarna tengingu í framtíðinni, þegar lokið verður að byggja upp veginn yfir Lágheiði, sem ég er sannfærður um að verður einhvern tíma í framhaldi af þessu. Hér er því ekki eingöngu um staðbundið verkefni að ræða, þó það skipti auðvitað Ólafsfirðinga mestu. Ég bendi einnig á að það er svo sem ófyrirséð að hve miklu leyti nágrannabyggðarlög koma til með að nýta sér þetta og að hve miklu leyti aðstæður breytast þegar slík göng kæmu, því að í raun og veru hafa samgöngur verið ótrúlega erfiðar milli staða eins og Dalvíkur og Ólafsfjarðar þó ekki sé löng vegaleið á milli, en þetta mundi vonandi gerbreytast með tilkomu jarðganga.

Örfá orð um framkvæmdaatriði þessa mannvirkis. Það er alveg ljóst að jarðgangagerð af þessu tagi er mikið mannvirki og erfitt. Þó hefur tækni fleygt mjög fram til slíkra framkvæmda og nú þegar eru til í landinu stórvirkari tæki en áður voru notuð. Er það einkum og sér í lagi að þakka þeirri jarðgangagerð sem orðið hefur hér í tengslum við virkjanir. Nú liggur fyrir að Blönduvirkjun verður á dagskrá þau ár sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir að unnið yrði að göngum um Ólafsfjarðarmúla. Ég legg til að sérstaklega verði hugað að því hvort ekki megi nýta með einhverju móti þau tæki, sem þar koma til með að verða, við þessa jarðgangagerð. Blönduvirkjun er, eins og menn vita eflaust hér inni allir, fyrst og fremst jarðgangamannvirki. Hún er öll neðanjarðar og við framkvæmd hennar verða gerð ein þrenn meiri háttar jarðgöng. Það er því ljóst að þar hljóta að verða til staðar stórvirk tæki og hugsanlega verður enn bætt við þann tækjakost sem fyrir er í landinu til þess að ráðast í framkvæmd Blönduvirkjunar. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að þetta verði athugað.

Það er einnig til upplýsingar að jarðfræðirannsóknir eru nokkuð á veg komnar og þær gefa, má segja, heldur betri niðurstöðu en menn áttu von á svona með því að virða Múlann fyrir sér að utanverðu. Hann er eins og kunnugt er ekkert frýnilegur ásýndum, en grjótið virðist vera minna sprungið og skár til jarðgangagerðar fallið en menn áttu von á.

Að síðustu vil ég bara bæta því við að aftan við þá sorglegu og ófögru skýrslu sem hér fylgir með í grg. mætti bæta nokkrum liðum. Síðasta ár var með þeim verstu, ef ekki það versta, sem komið hefur í allri sögu Ólafsfjarðarmúlans. Það var með endemum erfitt að halda honum opnum, hann var oft á tíðum stórhættulegur yfirferðar. Sem dæmi um ástandið má nefna það að nú þegar hafa fallið snjóflóð í Ólafsfjarðarmúla á þessu hausti, til að sýna mönnum hvernig ástandið er. Þar lá fönn í Ófærugjá í allt sumar, og það var daglegur viðburður að aka fram á grjót á veginum þó komið væri fram á haust. Það má því heita að þessi vegur sé hættulegur og óviðunandi yfirferðar allt árið um kring. Það eru vegasamgöngur sem við eigum auðvitað ekki að una til lengdar, að heil byggðarlög og kaupstaðir, eins og Ólafsfjörður er, hafi engar samgöngur á landi svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir. Það er ósköp einfaldlega óviðunandi ástand fyrir hvaða byggðarlag sem er.

Auðvitað er víðar um slæma vegi að ræða. Við þekkjum öll Ó-vegaáætlunina. Ég get endað á því að segja að það er mín skoðun að hana eigi að tengja saman á þann veg að náist sparnaður, t.d. eins og nú virðist hafa gert í veginum um Ólafsvíkurenni, þá eigi hann að nýtast Ó-vegaáætluninni og henni eigi þá að hraða sem því nemur. Það má segja að það líti nokkuð vel út með það að með útboðum og stórvirkum nýtísku vinnutækjum megi framkvæma þetta verk, sem er Óvegagerðin, fyrir minni fjármuni og hraðar en menn ætluðu þegar sú áætlun var samin. Þess vegna tel ég það einboðið að það nýtist þá þeim verkum sem aftar eða aftast lentu á listanum, eins og Ólafsfjarðarmúli gerði. Það er mjög erfitt fyrir hvern sem er að segja við heimafólk á Ólafsfirði: Þið verðið bara að sitja og bíða, og það svo árum eða jafnvel áratugum skiptir. Það er þess vegna skiljanlegt að allir sem til málsins þekkja leggi mikla áherslu á að reynt verði að hraða þessum framkvæmdum.