24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

99. mál, jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir orð síðasta hv. ræðumanns nánast í einu og öllu og gert hans orð að mínum orðum. Ég get þar m.a. alveg fallist á þau sjónarmið, að auðvitað gengur það ekki að hafa uppi meting á milli kjördæma þegar mál sem þetta ber að. En ég vil þó minna á að þetta er eitt af þeim verkefnum sem hefur verið kennt við hina svokölluðu Ó-vegi og langtímaáætlun tekur til.

Það er sérstök ástæða til að minna á það, og ekki síst þegar það blandast inn í þessa umr., að eitthvert Óvegafé sé e.t.v. til staðar, sem m.a. hafi sparast vegna þess hversu verkum skilaði vel áfram vestur á Snæfellsnesi á s.l. sumri. Það ætti þá að hreyfa það fjármagn til á milli framkvæmda við Ó-vegina.

Ég hef nú ekki orðið þess var fyrr að Ó-vegirnir hafi verið fjármagnaðir sérstaklega, og hygg ég að það séu okkur mörgum hverjum mikil vonbrigði. Þess vegna get ég tekið undir og fagnað þeirri yfirlýsingu sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, að til verkefna sem þessara þyrfti sérstakt fjármagn. Það er alveg hárrétt, sem kom fram hjá honum, að þegar um einhver slík átök í vegamálum hefur verið að ræða, eins og t.d. þegar brúað var á Skeiðarársandi var ætlað til þess sérstakt vegafé. En með Ó-vegaframkvæmdirnar hefur fram að þessu verið farið með öðrum hætti, eins og fram kom hjá hv. þm. Helga Seljan, því að tekið var af hinu almenna vegafé, og hefur slíkt orðið mjög til að draga úr vegaframkvæmdum í sumum kjördæmunum. Eigum við Austfirðingar alveg sérstaklega um sárt að binda í þeim efnum. Það mundi þess vegna ekki standa á mér, m.a. með tilliti til þess hvernig þessi mál hafa þróast, að styðja einhverja tekjuöflun sem sérstaklega snerti þessi viðfangsefni.

Þetta vildi ég láta fram koma um leið og ég minni á það, sem var margyfirlýst af fyrrv. samgrh., núv. hæstv. forsrh., að ekki yrði öðruvísi gengið frá vegaáætlun en séð yrði fyrir tekjum til að byggja Ó-vegina upp fyrir. Þessar tekjur eru enn ekki til staðar og m.a. af þeirri ástæðu útilokað að hugsa sér að ná árangri fram yfir það sem a.m.k. er gert ráð fyrir í vegáætlun.