24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

99. mál, jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem till. hefur fengið og ég vonast eindregið eftir að henni verði fylgt eftir. Ég treysti á hv. þm. og meðflutningsmann Steingrím J. Sigfússon að hafa í frammi alla þá ýtni sem honum er lagin til að till. fáist tekin fyrir í nefndum og um hana fjallað á eðlilegan hátt hér í þinginu á meðan ég bregð mér frá — sem vonandi verður ekki í langan tíma.

Ég er mjög ánægður með þær hugmyndir sem hafa komið fram, bæði hjá hv. þm. Svavari Gestssyni um það að finna sérstaka fjáröflunarleið vegna þessa máls og eins þá hugmynd, sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að tengja þetta hugsanlega mannvirkjagerð við Blöndu. Sannleikurinn er sá, að hér á landi hefur verið allt of lítið af því gert að stunda rannsóknastarfsemi í sambandi við gerð jarðganga, eins og mikið er gert í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi og Færeyjum, þar sem hefur náðst mikill og góður árangur í því að bæta þjóðvegasamband með jarðgöngum.

Ég vona bara og treysti því, að þessi till. fái góða og vinsamlega meðferð hér á þinginu, því að mér er fullljóst, eins og öllum mönnum sem Ólafsfjörð heimsækja, að samgönguleysið við Ólafsfjörð hefur svo ótrúlega mikil áhrif á allt mannlíf á staðnum að með ólíkindum er. Ungt og djarft fólk, sem þangað kemur og ætlar sér að setjast að vegna þess að þar hefur atvinna verið mjög mikil, hefur oft og tíðum verið komið á fremsta hlunn með að gefast upp vegna samgönguerfiðleika. Þetta hvílir á fólkinu á Ólafsfirði eins og mara. Þeir sem fara um Ólafsfjarðarmúlann vita hvers konar ferðalag það er. Og það er alveg hárrétt, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að þarna er látlaust grjóthrun. Í fyrstu snjóum lokast Múlinn og það er ekki heiglum hent að fara um þennan múla, þar sem eru 120 metrar snarbratt í haf niður, á snjómoksturstækjum. Það gerir það enginn að gamni sínu. Og það gerir enginn að gamni sínu að fara um þennan veg. Ekki bara það að hann sé hátt uppi og bratt niður og þverhnípt, heldur er vegurinn svo mjór.

Ég vænti þess að till. fái áframhaldandi og í réttu hlutfalli þann stuðning sem hún hefur fengið á þessum fámenna fundi.