03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

176. mál, lyfjadreifing

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Að sumu leyti get ég tekið undir orð hv. síðasta ræðumanns, en ýmis önnur tengsl Lyfjaverslunar við heilbrmrn. eru með öðrum hætti. T.d. hefur heilbrmrn. með lyfjaeftirlitið að gera, það heyrir undir það. Lyfjaeftirlitið gerir kröfur á alla lyfjaframleiðendur í landinu og stundum er verið að gera kröfur frá hendi rn. eða undirdeildar þess á Lyfjaverslunina sem er erfitt fyrir rn. að standa á móti. Við yfirfærsluna var hins vegar engin breyting reynd á fjármálalegum, — já sögulegum tengslum Lyfjaverslunar ríkisins við Áfengis- og tóbaksverslunina og því hefur Lyfjaverslunin átt við mikla erfiðleika að etja í fjármálalegu tilliti. Það er líka einn galli sem ekki er hvað minnstur, að oft eru skuldir ríkisspítalanna og sjúkrahúsanna í landinu við Lyfjaverslunina miklar. Hún og heilbrmrn. fá oft aðfinnslur frá fjmrn. vegna þess. Þetta er ekkert nýtt því að þetta hefur viðgengist svo áratugum skiptir. En ég held að þegar á allt er litið séu ekki neinar breytingar í bígerð á starfsemi Lyfjaverslunar þannig að starf hennar verður eftir sem áður óbreytt. Að auki fær rn. þarna mann í stjórn sem fylgist með faglegri stjórn stofnunarinnar og sömuleiðis viðskiptalegri. Ég hygg að við höfum náð um það góðum samningum, en ekki gert aðrar frekari breytingar eins og fram komu óskir um.