03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

179. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af þessari fsp. Verið er að vinna að framkvæmd ýmissa þessara tillagna sem nefndin hefur lagt til í áfangaskýrslu sinni. M.a. er það réttindamálið sem nefndin gerði tillögur um og þessi tvö frv. fjalla einmitt um það. Ég hef talið sjálfsagt að áfangaskýrslan komi fyrir sjónir allra alþm. og mun gera ráðstafanir til þess að hún verði fjölrituð og send þm. sem ekki hafa hana þegar undir höndum.

Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið mjög vel undir afgreiðslu þessa máls. Ég vona að hér sé í sjónmáli farsæl lausn sem bindur enda á þann undanþágufaraldur sem hefur viðgengist hér áratugum saman. Ég tek heils hugar undir það að það er mikil nauðsyn fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð og kaupskipaþjóð að efla mjög menntun sjómanna okkar og þar með þær menntastofnanir sem hér eiga hlut að máli. Það er of langt mál að ræða hér hvað hefur valdið því að svo mjög hefur dregið úr sókn í þessa skóla. Þar eru margar samverkandi ástæður, en þó held ég að undanþágurnar eigi einnig mjög mikinn þátt í því. Og þær eru ekki nýtt fyrirbæri eins og ég hef áður sagt.

Ég mælist svo eindregið til þess við formann hv. samgn. að hann geri sitt ýtrasta til þess að þetta mál nái fram að ganga því að ég tel ákaflega mikilvægt í sambandi við framhald þessara undanþága, sem gert er ráð fyrir í frv., að þessi gjaldtaka verði tekin upp um áramót, en þá eru undanþágur flestar eins og allir hv. þm. vita.