03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

178. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vísa til þeirra ummæla sem ég hafði varðandi endurskoðun þess frv. sem ég fylgdi úr hlaði áðan, frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna. Í gildandi lögum nr. 77 á þessu ári er breytt fyrst og fremst til samræmis við alþjóðlegar reglur um þjálfun, vaktstöðu og atvinnuréttindi sæfarenda frá 1978 sem gilda um farþegaskip og flutningaskip. Auk þess eru ýmsar breytingar gerðar til samræmis við hliðstæð ákvæði í frv. til l. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna.

Í þessu frv. eru ýmis nýmæli um möguleika þeirra manna, sem starfað hafa á undanþágu, til menntunar. Undanþágur til vélstjórnarstarfa og erfiðleikar útgerðarmanna við að fá menn með fullnægjandi starfsréttindi hafa verið mikið til umræðu að undanförnu. Fjöldi vélstjórnarmanna, sem störfuðu á undanþágum á árinu 1983 og það sem af er þessa árs, er á bilinu 670–680 manns hvort ár. Um 75% þessara undanþága voru veittar mönnum með engin réttindi er starfa við vélstjórn véla minni en 750 kw.

Í frv. því sem hér er lagt fram er leitast við að taka á þessu vandamáli með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi er lagt til í ákvæði til bráðabirgða, þ.e. liður A), að þeim vélstjórnarmönnum sem starfað hafa a.m.k. 24 mánuði á undanþágu verði á næstu tveimur skólaárum boðið upp á námskeið sem haldin verða í öllum landshlutum til öflunar takmarkaðra vélstjórnarréttinda. Námskeið þessi eru þegar hafin og veita vélstjóraréttindi á skipum með vélar allt að 750 kw. eða 1020 hestöfl. Um næstkomandi mánaðamót munu 60–65 menn hafa lokið slíku námi á þremur námskeiðum. Framkvæmd námskeiðanna er í höndum menntmrn., en námsefni er ákveðið af Vélskóla Íslands í samráði við rn.

Í öðru lagi er í framangreindu ákvæði, þ.e. liður B), lagt til að heimili verði að veita mönnum, sem eru 50 ára og eldri og starfað hafa lengur en 10 ár á undanþágu til vélstjórnarstarfa, takmörkuð ótímabundin réttindi. Ætlað er að um 40–50 menn geti notið þessarar heimildar í dag. Meginreglan yrði sú við útgáfu þessara réttinda að viðkomandi fengi heimild til vélstjórnarstarfa á því skipi sem hann hefur starfað á ótímabundið. Almennt væri því ekki unnt að nota þessi réttindi á önnur skip, nema um væri að ræða skip hjá sömu útgerð með svipaðri vélarstærð, t.d. ef skip væri selt og annað fengið í þess stað.

Efni þessa frv. skiptist í átta kafla. Í I. kafla 1. gr. eru skýrð nokkur hugtök sem notuð eru í frv. og er það nýmæli.

II. kafli fjallar um fjölda vélstjóra, vélavarða o.fl. Rétt er að vekja athygli á breytingum frá eldri lögum er varða starfsheitið vélavörður. Vélavörður kemur í stað 1. vélstjóra á skipum með vél allt að 220 kw. eða 300 hestöfl og í stað 2. vélstjóra á skipum allt að 750 kw. eða 1020 hestöfl. Enn fremur kemur vélavörður í stað aðstoðarmanns á farþega- og flutningaskipum með vél 1300 kw. eða 1766 hestöfl.

Í III. kafla eru talin upp atvinnuréttindi vélstjóra og er sá kafli að mestu óbreyttur frá gildandi lögum.

Í IV. kafla, sem fjallar um eldri vélstjóraréttindi, er óbreyttur III. kafli gildandi laga.

Í V. kafla er fjallað um mönnunarnefnd og undanþágur. Samkvæmt 6. gr. skal samgrh. skipa mönnunarnefnd sem ákveður frávik frá ákvæðum laganna bæði til fjölgunar og fækkunar vélstjóra. Auk þess skal mönnunarnefnd taka tillit til vinnuálags vélstjóra þegar hún fjallar um einstök mál. Með stofnun mönnunarnefndar er höfð hliðsjón af svipuðu fyrirkomulagi og er í Danmörku og Noregi.

Undanþágu til starfa á tilteknu skipi eða gerð skips veitir fimm manna nefnd sem samgrh. skipar samkvæmt 8. gr. frv. Þessar tvær nefndir, mönnunarnefnd og undanþágunefnd, eru sameiginlegar fyrir þetta frv. og frv. til laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna. En samkvæmt 8. gr. er enn fremur á sama hátt og í því frv. heimilt að ákveða með reglugerð sérstaki gjald fyrir veittar undanþágur sem undanþáguhafi greiðir og renna skal í sjóð sem ætlað er að veita lán og/eða styrk til þeirra undanþáguhafa sem fara í nám til öflunar starfsréttinda. Sambærileg ákvæði er að finna í 5. gr. gildandi laga og mun reglugerð þar að lútandi væntanlega öðlast gildi frá og með næstu áramótum, en það er unnið að samningu hennar í trausti þess að frv. nái fram að ganga.

Í VI. kafla, sem fjallar um skírteini og læknisvottorð, eru gerðar nokkrar breytingar frá ákvæðum gildandi laga. Þær varða fyrst og fremst gildistíma atvinnuskírteina. Samkvæmt 9. gr. gilda skírteini fimm ár og skilyrði eru sett um viðhald réttinda með hliðsjón af alþjóðlegum reglum.

Samkvæmt VIl. kafla skal ráðh. setja reglur um útreikning á afli véla í skipum.

Um þetta frv. var fullt samkomulag í nefndinni að öðru leyti en því að varðandi 1. kafla og 1. gr. klofnaði nefndin, en þar eru hugtökin yfirvélstjóri, 1. vélstjóri, undirvélstjóri, vélstjóri og kw. skýrð í lögum. Þetta atriði var það eina sem nefndin var ekki sammála um.

Meiri hluti nefndarinnar, Guðjón A. Kristjánsson, Helgi Laxdal, Guðjón Ármann Eyjólfsson og Andrés Guðjónsson, leggja til að fylgt verði eftir þeirri samræmingu um stöðuheiti vélstjóra sem upp var tekið í lögum frá 1966, þar sem sett var í lög orðið yfirvélstjóri um stöðuheiti æðsta manns í vélarrúmi íslenskra skipa. Þar var um að ræða samræmingu við stöðuheiti vélstjóra á Norðurlöndum. Þeir telja að nú eigi að stíga þetta skref til fulls og skilgreina aðra vélstjóra en yfirvélstjóra í réttri röð, 1., 2. og 3., eins og gert er í nágrannalöndum okkar. Auk þess er í alþjóðasamningum skýrt tekið fram um röðun vélstjóra með sama hætti og meiri hl. nefndarinnar leggur til.

Minni hluti nefndarinnar, þ.e. Jón H. Magnússon og Jónas Haraldsson, telur að kalla eigi 2. vélstjóra áfram 2. vélstjóra. Meiri hlutinn vill að 2. vélstjóri kallist nú 1. vélstjóri þótt það sé andstætt almennri málvenju og ljóst að það verði ekki notað í daglegum samskiptum manna. Minni hlutinn bendir á að hugtakið yfirvélstjóri kemur fyrst fyrir í lögum um atvinnuréttindi vélstjóra 1966, en hefur aldrei fest í sessi manna á milli, en hugtakið 1. vélstjóri notað alfarið, a.m.k. á fiskiskipum. Með því að kalla 2. vélstjóra nú 1. vélstjóra er ljóst að á þriggja vélstjóra skipi verða tveir 1. vélstjórar og einn 3. vélstjóri, en enginn 2. vélstjóri, að þeir telja.

Þrátt fyrir að nefndin klofnaði um þetta atriði taldi ég rétt að leggja til í þessu frv. að farið væri að till. meiri hluta nefndarinnar. Hins vegar er Alþingi í sjálfsvald sett hvort það vill ræða þetta atriði nánar. Að öllu öðru leyti var um fullt samstarf að ræða um samningu þessa frv.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.