04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

70. mál, fé tannverndarsjóðs

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett sér djarft markmið í formi áætlunar sem nefnist: Heilbrigði fyrir alla árið 2000. Í samræmi við þessa áætlun hafa alþjóðasamtök tannlækna sett sér sérstök markmið til að stuðla að heilbrigði í munnholi fyrir alla árið 2000. Samtökin settu eftirfarandi markmið fyrir alla heimsbyggðina árið 2000:

1. Að 50% 5–6 ára barna verði án skemmdra tanna.

2. Að 12 ára börn hafi að meðaltali ekki meira en 3 tennur skemmdar, viðgerðar eða brottnumdar.

3. Að 85% allra einstaklinga, sem náð hafa 18 ára aldri, haldi öllum tönnum sínum.

4. Að meðal einstaklinga, sem eru 35–44 ára gamlir, verði 50% lækkun á tíðni tannleysis.

5. Að meðal þeirra, sem eru 65 ára og eldri, verði 25% lækkun á tíðni tannleysis.

6. Að komið verði á tölvustýrðu upplýsingakerfi þar sem hægt er að fylgjast með breytingum sem verða á heilbrigði í munnholi manna.

Í grg. frá Alþjóðasamtökum tannlækna er gert ráð fyrir því að þær áætlanir og ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til að ná settum markmiðum í munnheilbrigði fyrir hverja þjóð, þurfi að þróa til að mæta staðbundnum þörfum og nýta þær aðstæður sem fyrir hendi eru.

Talið er að mikilvægir þættir í slíkum áætlunum ættu að vera:

1. Minnkað sykurát til að draga úr tannskemmdum, en í því sambandi mætti nefna að Íslendingar eru einna mestar sykurætur í heimi.

2. Flúorblöndun neysluvatns þar sem því verður komið við. Það má í þessu sambandi nefna að þetta er mjög umdeilanleg aðgerð og menn alls ekki á eitt sáttir um að koma henni á, einkum þar sem um eldfjallalönd er að ræða.

3. Auka notkun flúorefna til að hindra tannskemmdir, annaðhvort sem munnskol, töflur eða tannkrem. En ástæðan til þess að nota flúor er einkum sú að flúor gengur í efnasamband við glerung tannanna, styrkir hann og hindrar þannig tannskemmdir.

4. Árangursrík heilbrigðisfræðsla fyrir börn, foreldra og aðra fullorðna sem bætir almenna þekkingu, tannhirðu og næringu. Nauðsynlegt er að leggja áherslu á það sem einstaklingarnir geta sjálfir gert og ættu að gera til að bæta og viðhalda eigin tannheilsu og hvenær og hvernig þeim beri að leita aðstoðar þeirra sem leita sérhæfðrar þjónustu.

5. Skipuleg fræðsla um tannhirðu sem leggur áherslu á að koma í veg fyrir sjúkdóma í munni og hindra tannmissi vegna skemmda eða tannholdssjúkdóma.

6. Áætlanir og nauðsynleg fjármögnun til að starfrækja kennslu um þessi mál.

Í Morgunblaðinu 26. okt. s.l. birtist grein eftir Magnús R. Gíslason yfirtannlækni hjá heilbr.- og trmrn. Hún bar fyrirsögnina „Svört skýrsla um tannheilsumál Íslendinga“ og var samin að loknu alþjóðaþingi yfirtannlækna í Helsingfors í ágúst s.l. Þar segir, með leyfi forseta:

„Svo virðist sem í Íslendingum skemmist að jafnaði fleiri tennur en í nokkurri annarri þjóð í heiminum. Tvisvar sinnum fleiri en skemmast í hinum Norðurlandaþjóðunum.

Við notum þó álíka stóran hluta af opinberum útgjöldum til tannlæknisþjónustu og stærri en t.d. Norðmenn.

Jafnframt erum við fimmta best setta þjóðin í heiminum hvað varðar fjölda tannlækna á íbúa, höfum einn tannlækni fyrir hverja 1250 íbúa og verðum komnir með 1:1000 eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar eftir 5 ár. Hvað er að hjá okkur?

Við höldum að hægt sé að útrýma tannskemmdum með því að gera við skemmdirnar. Hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa aftur á móti lagt aðaláhersluna á fyrirbyggjandi aðgerðir og sýnt fram á að hægt er með því móti að koma í veg fyrir tannskemmdir.

Danir nota t.d. aðeins 40% af opinberum útgjöldum sínum til tannlækninga í tannviðgerðir, en 60% í fyrirbyggjandi aðgerðir, en við notum mestan hluta í tannfyllingar og gerviuppbyggingar og erfitt er að fá fjármuni í fyrirbyggjandi starf.

Með þessu móti hefur Finnum tekist að fækka tannskemmdum um 47% á s.l. 7 árum og einnig Norðmönnum á 9 árum. Helmingur finnskra barna á aldrinum 5–6 ára er með enga skemmda eða viðgerða tönn. Við aftur á móti höldum áfram að setja í fleiri fyllingar og höldum að þar með sé vandinn leystur. Enda lítur þetta ekki svona illa út á yfirborðinu því að með því að eyða sífellt fleiri fjármunum í tannviðgerðir og gerviuppfyllingar hefur okkur tekist að koma í veg fyrir að skemmdirnar sjáist of mikið og höfum þannig öðlast falska öryggiskennd og sjálfsánægju.

Stjórnmálamennirnir eru ánægðir því að þeim finnst þeir verja miklum fjármunum til tannlækninga. Íbúarnir eru ánægðir því að þeir fá endurgreiddan hluta af útgjöldunum til tannlækninga. Og tannlæknarnir eru ánægðir því að eftirspurnin eftir vinnu þeirra er mikil og minnkar ekki.

Við verðum strax að breyta um stefnu í þessu máli, enda eina þjóðin í heiminum sem reynir að leysa tannheilsumál sín á þennan hátt.“

Í apríl 1975 var gerður samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins. 8. gr. hans hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Tryggingarnar leggja í sjóð sem svarar 1% af kostnaði þeirra við tannlækningar. Sjóðurinn standi undir kostnaði við fræðslu um tannvernd sem trúnaðarlæknir skipuleggur í samvinnu við heilbrrn.“

Á árinu 1981 greiddi Tryggingastofnunin 37 millj. 260 þús. 582 kr. vegna tannlæknakostnaðar, en 58 millj. 591 þús. 574 kr. á árinu 1982. 1% af þeim fjárhæðum gefur því 372 þús. 605 kr. og 585 þús. 591 kr. á þessum tveimur árum.

Með tilliti til fullyrðinga yfirtannlæknis og enn fremur stefnumörkunar Alþjóðasamtaka tannlækna og aðildar okkar Íslendinga að áætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla árið 2000 vil ég spyrja hæstv. heilbrmrh.: Hvernig hefur verið varið því fé sem safnast hefur í tannverndarsjóð frá því að hann var stofnaður?