04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

70. mál, fé tannverndarsjóðs

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Tannverndarsjóður var stofnaður skv. samningi milli Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands í apríl 1975. Hlutverk sjóðsins átti að vera að standa undir kostnaði við fræðslu um tannvernd sem gert var ráð fyrir að trúnaðarlæknir Tryggingastofnunar ríkisins skipulegði í samvinnu við heilbrmrh.

Sjóðnum voru settar reglur 14. apríl 1983. Í reglunum er gert ráð fyrir að heilbrmrn. hafi yfirstjórn á starfsemi sjóðsins og var það gert með tilliti til þess að þá hefði verið stofnuð tannheilsudeild við rn. og ráðinn tannlæknir til að veita deildinni forstöðu. Það er gert ráð fyrir að rn. hafi forgöngu um tannverndaraðgerðir og fræðslu á vegum sjóðsins og hafi um það samráð við Tryggingastofnun ríkisins, tannlæknadeild Háskóla Íslands, Tannlæknafélag Íslands og stjórnendur skólatannlækninga þar sem þær eru skipulagðar.

Framan af var fé sjóðsins ekki notað að ráði, en á s.l. ári voru veittar 300 þús. kr. til útgáfu á tveimur bókum á vegum rn., Tannvernd á meðgöngutíma og Fróðleikur um tennur og varnir gegn tannskemmdum. Þessum bókum var dreift á heilsugæslustöðvar og fæðingarstofnanir landsins. Á þessu ári hefur verið varið 300 þús. kr. til útgáfu á tveimur bæklingum á vegum rn. sem dreift verður til allra skólabarna landsins á þessum vetri. Þessir bæklingar heita Biti milli mála og Tannhreinsun. Auk þessa hefur frá stofnun sjóðsins verið varið tæpum 300 þús. kr. aðallega til styrktar rannsóknum á tannheilsu Íslendinga. Samtals voru því heildarútgjöld sjóðsins í lok sept. s.l. 889 þús. 321, en inneign í sjóðnum 4 millj. Hér er auðvitað um að ræða bókhaldslega inneign því að þetta fé er ekki til í sjóði, heldur í rekstri Tryggingastofnunar ríkisins, en hér er um að ræða ákveðna hlutdeild ofan á reikninga sem stofnunin greiðir.

Þessar upplýsingar eru frá Tryggingastofnun, en sjóðurinn er skv. fyrrgreindum samningi í hennar vörslu.

Í sambandi við fsp. þykir mér rétt að víkja nokkrum orðum að tannheilsumálum Íslendinga almennt. Því hefur lengi verið haldið fram að Íslendingar væru illa settir hvað tannlæknisþjónustu snertir, að hér væru of fáir tannlæknar. Eins og mál standa í dag eru hér starfandi 189 tannlæknar og erum við hvað snertir fjölda tannlækna á íbúatölu betur settir en flestar þjóðir heims.

Þrátt fyrir þessa fjölgun tannlækna hefur tíðni tannskemmda ekki minnkað. Vissulega er tannlæknisþjónusta misdreifð um landið, en síðustu ár hefur starfandi tannlæknum utan Reykjavíkursvæðisins fjölgað mjög og eru þeir nú 65 talsins. Í Reykjavík starfa 124 tannlæknar og 65, eins og ég sagði áðan, úti á landi á 27 stöðum. Þar af 14 á Akureyri, 8 í Hafnarfirði. 5 í Kópavogi, 4 á Akranesi og í Keflavík og á öðrum stöðum starfa 1–3 tannlæknar.

Það er álit þeirra sem gerst til þekkja, og er það byggt á reynslu vestrænna þjóða í norðurálfu, að gripa þurfi til annarra aðgerða en þeirra sem tannlæknar beita til að ná árangri í tannheilsumálum. Það þarf fyrst og fremst að leggja áherslu á fyrirbyggjandi starf. Því starfi hafa tannlæknar ekki sinnt sem skyldi undanfarin ár. Mér þykir rétt að geta þess í þessu sambandi, til þess að gefa þingheimi örstutt yfirlit yfir ástand í þessum málum, að einn af héraðslæknum skrifaði í skýrslu sína til heilbrmrn. um þann kaupstað, sem hann starfar í, um þessi mál:

„Kaupstaðarbúar eiga margfalt Íslandsmet og þar með heimsmet í kostnaði við tannviðgerðir barna og ungmenna. Hafa tannlæknar á síðustu árum gengið skipulega til verks um tannviðgerðir hjá skólabörnum og hafa nú lokið yfirferð yfir allan grunnskólann. Forvarnarstarfi hefur hins vegar sáralitið verið unnið að og er mataræði barna og unglinga þann veg farið hér að þau eru maulandi í sælgæti og kolvetni daginn út og inn. Flúorskolanir skólabarna upp að 12 ára aldri hófust á síðasta vetri og heilsugæslustöðin leggur leikskólabörnum til flúortöflur. Enn fremur er flúortöflum troðið upp á mæður við ungbarnaheilsuvernd. Tannlæknir kaupstaðarins er nú að flytjast í annan stað.“

Síðan segir:

„Tannréttingar eru orðnar tískufyrirbrigði hér og steðja milli 30 og 40 ungir kaupstaðarbúar til Reykjavíkur í þeim erindagerðum á 4–8 vikna fresti.“

Þetta er ekki fögur lýsing, en mér fannst rétt að hún kæmi hér fram á Alþingi.

Það lítur út fyrir að það þurfi að leggja áherslu á eftirfarandi atriði til að ná árangri í tannheilsumálum:

1. Koma á skipulegum skólatannlækningum alls staðar á landinu.

2. Fá til starfa tannfræðinga.

3. Verkefni tannfræðinga er eftirfarandi:

1. að kenna almenna tannhirðu, bæði skólabörnum og á heilsuverndarstöðvum, þar undir tannburstun;

2. að sjá um reglulega flúorskolun skólabarna og er gert ráð fyrir að ekki dugi minna en að skola með flúor tvisvar í mánuði;

3. að sjá um afhendingu flúortaflna til mæðra og skólabarna. Svo sem fyrr sagði hefur hvergi tekist að minnka tannskemmdir án þess að grípa til tannverndar og tannverndin er miklu ódýrari en tannviðgerðir. Það er umhugsunarefni að tannlæknadeildin hér á landi hefur ekki kennt tannverndarstarf sem skyldi og þar eru því óunnin mikil verkefni sem ég tel að heilbrigðisstjórn og menntamálayfirvöld þurfi að ræða og komast að niðurstöðu um að bæta.